Velkomin(n) á vefverslun Kröflu

Cart:

0 item(s) - 0 kr
Það eru engar vörur í körfunni þinni.

0

Bleikjan var vitlaus í gárutúpurnar

Grænfriðungur sem gárutúpa.

Ég er þeirrar gæfu aðnjótandi að eiga þess kost að renna fyrir bleikju í lítilli en nettri á á vestfjörðum. Tvívegis á hverri vertíð. Nú nýverið fór ég í síðari veiðitúrinn og ævintýrin létu ekki á sér standa. Ég gerði mér mátulegar vonir fyrir brottför. Vissi að vatnið var lítið og síðan var það staðreynd að bleikjan var mun seinna á ferðinni þetta árið en mörg undanfarin ár.
Við byrjuðum efst félagarnir að venju og ætluðum að taka daginn í að veiða okkur niður ána. Veiðin gekk rólega í byrjun en um miðjan daginn og miðja ána fóru skemmtilegir hlutir að gerast. Þar rákumst við á alveg heiftarlega göngu af vænni bleikju. Skyndilega, eins og hendi væri veifað, voru skjannahvítir kviðir um allan hylinn sem er einn sá stærsti í ánni. Lúsug bleikja að nudda af sér lúsina. Eftir nokkra rekistefnu varðandi framhaldið ákváðum við að byrja neðst í hylnum og veiða upp fyrir okkur, andstreymis. Ákveðið var að byrja með hefðbundnar flugur og gáfu þær strax vel. Nú var komið að ýmsum tilraunum. Ákváðum við að gefa spánýjum útgáfum af Kröflunni tækifæri og skömmu síðar lá tugur af bleikjum á árbakkanum. Hreint stórkostleg upplifun og munum við greina frá þessum nýju Kröflum síðar.
Efst í þessum fallega veiðistað var dýpið meira og þar voru að sýna sig afar stórar bleikjur. Ég freistaðist til að kasta nýrri útgáfu af Mýslu Gylfa Kristjánssonar. Flugan var varla lent í vatninu þegar bleikja réðst á fluguna með slíku offorsi að ég man vart annað eins. Brann ég á þeim fingrum vinstri handar sem gegndu því hlutverki að gæta flugulínunnar. Ég landaði bleikjunni og kastaði aftur. Nú bar svo við að fjórar bleikjur sýndu tökuvaranum mestan áhuga. Sýntu ákveðnar að honum og í kringum hann en kjarkur til árásar var ekki til staðar. Betri staðfestingu á mögulegri veiði á gárutúpu er varla hægt að hugsa sér.
Að afloknum skiptum og góðum kaffisopa var komið að því að sýna bleikjunum gárutúpurnar. Leppur varð fyrir valinu. Nú vilja menn oftast nota 9 feta stangir eða lengri við veiðar með gárutúpum. Ég ákvað hins vegar að nota áfram 7 feta stöngina mína ( 40 grömm) og sjá hvernig gengi. Ég kastaði Leppnum í strauminn og lét hann berast með honum þar til flugan barst inn á rólegra vatn. Þá skaust hún eins og korkur upp á yfirborðið og skautaði fallega og mátulega rólega eftir yfirborðinu. Strax sá ég fjórar fallegar bleikjur gera sig líklegar. Þær hreinlega börðust um að komast að. Ein hafði vinninginn og var landað. Aftur var kastað. Sama sagan. Þegar þrjár bleikjur höfðu tekið Leppinn ákvað ég að kaasta einu sinni enn. Og á sama hátt og fyrr. Lét fluguna berast þvert fyrir fiskinn, dró mátulega hratt án þess að flugan buslaði og viti menn! Væn bleikja gerði heiftarlega árás. Hitti ekki. Mikill öldugangur og spenna en áfram hélt Leppurinn og veiðimaðurinn ró sinni. Aftur árás. Og enn hitti bleikjan ekki. Þegar flugan átti eftir um meter af hugsanlegu tökusvæði kom hún í þriðja skipti. Og æfingin skapar meistarann. Nú var Leppurinn tekinn með miklum látum og takan afar eftirminnileg.
Nú skipti ég um gárutúpu. Setti á Grænfriðung. Alveg sama sagan. Grænfriðungurinn mátti varla vera í vatninu. Þessir klukkutímar í hylnum stóra miðsvæðis í ánni verða lengi í minnum hafðir. Og ef einhver áhugasamur bleikjuveiðimaður er í vafa um að hægt sé að nota 1/2" gárutúpur í bleikjuveiði þá tel ég mig hafa afsannað það í eitt skipti fyrir öll.
Stefán Kristjánsson

Leave a Reply
© 2018 Skrautás Ehf. - Sími 6982844 - kt. 520799-2149 - vsk nr. 63003 [email protected] - Leiðhamrar 39 - 112 Reykjavík