Velkomin(n) á vefverslun Kröflu

Cart:

0 item(s) - 0 kr
Það eru engar vörur í körfunni þinni.

0

Monthly Archives: July 2009

  • Kristján Gíslason

    Kristján Gíslason f. 01.09. 1921 d. 07.08. 1999

    Kristján Gíslason f. 01.09. 1921 d. 07.08. 1999

    Kynni Kristjáns Gíslasonar, frá Sellátrum við Tálknafjörð, af fluguveiði hófust upp úr 1960. Stuttu síðar hitti hann norskan fluguhnýtingarmann, Analíus Hagvag, er hann kom hingað til lands og sýndi og kenndi fluguhnýtingar. Eftir þau kynni varð ekki aftur snúið.

    Frá árinu 1965 hnýtti Kristján Gíslason og hannaði hárflugur, fyrstur Íslendinga. Alls hannaði Kristján um 100 laxaflugur á sínum 35 ára ferli sem fluguhnýtingamaður og hönnuður.

    Allt frá blautu barnsbeini var Kristján sannkallað náttúrubarn. Ólst upp í óspilltri íslenskri náttúru vestur á fjörðum og bar ómælda virðingu fyrir henni allt til dauðadags. Umhverfissinni var Kristján meiri en margir aðrir og eftir hann liggja margar blaðagreinar um umhverfismál auk þriggja bóka um fluguveiði. Hann barðist áratugum saman gegn þeim öflum er buðu náttúrunni byrginn og segja má að hann hafi verið sannur náttúruverndarsinni.

    Kristján sat um tíma í Veiði- og fiskiræktarráði Reykjavíkurborgar og bar hag Elliðaánna ekki síst fyrir brjósti. Ofbauð honum lengi það áhuga- og framtaksleysi er menn sýndu þessari fyrrverandi perlu Reykjavíkur. Á krafla.is verða í framtíðinni birt skrif eftir Kristján er tengjast náttúruvernd og umhverfismálum.

    Á ferli sínum sem fluguhönnuður og fluguhnýtingamaður hnýtti og hannaði Kristján ótrúlegt magn laxaflugna. Ekki er ofsagt að hann hafi á æviskeiði sínu sem fluguhnýtingamaður hnýtt 200-300 þúsund flugur, líkast til nær síðari tölunni.

    Snemma varð ljóst að hugur Kristjáns stóð ekki til framleiðslu klassískra laxaflugna af erlendu bergi. Sjálfur hannaði hann yfir eitt hundrað flugur og nefndi þær jafnan íslenskum nöfnum. Aðeins hefur tæplega helmingur þessara flugna komið fyrir augu veiðimanna og áhugamanna um fluguveiði.

    Kristján þótti afar vandvirkur fluguhnýtari. Flugur hans höfðu orð á sér fyrir að vera sérlega vel hnýttar, fallegar og sterkar.

    Þrjár bækur um fluguveiði skrifaði Kristján. ,,Af Fiskum og flugum" sem kom út árið 1990, ,,Og áin niðar" sem kom út 1992 og loks ,,Ofurlaxar" en hún kom út árið 1997. Bækur þessar eru nú ófáanlegar í verslunum. Við munum í framtíðinni birta kafla úr þessum bókum Kristjáns á Krafla.is

    Kristján Gíslason er þekktur víða erlendis og það sama má segja um nokkrar af flugum hans. Fjallað hefur verið um flugur hans í mörgum erlendum bókum og tímaritum. Óhætt er að fullyrða að enginn íslenskur fluguhönnuður og fluguhnýtingamaður íslenskur hefur hlotið meiri virðingu erlendis en Kristján Gíslason. Krafla, hans þekktasta fluga, hefur meðal annars verið kosin fluga mánaðarins hjá hinu virta erlenda fluguveiðitímariti Trout & Salmon. Appelsínugulu Kröfluna hannaði Kristján árið 1977, tveimur árum eftir að eldsumbrotin á Kröflusvæðinu nyrðra hófust. Þaðan dregur flugan nafn sitt en síðar sama ár fylgdu aðrir litir Kröflunnar í kjölfarið.

    Kristján stundaði stangaveiði í hálfa öld og fluguveiði mestan hluta þess tíma. Hann var afar laginn veiðimaður og vakti oft athygli fyrir það hversu veiðinn hann var og iðinn. Síðustu áratugina veiddi hann eingöngu á sínar flugur. Sína eigin hönnun. Alls veiddi Kristján rúmlega 1000 laxa á sínum ferli sem veiðimaður og mjög margir þeirra voru rígvænir. Stærsta lax sinn veiddi Kristján austur við Iðu í Biskupstungum og vó hann 26 pund. Í það minnsta tvo 24 punda fiska og mjög marga fiska sem voru á bilinu 20-23 pund. Alls veiddi Kristján á annað hundrað laxa sem voru 20 pund eða stærri. Undir það síðasta hafði Kristján ekki síður gaman af að sýna bleikjum flugur sínar en löxum. Kom þá í ljós, betur en áður, að flugur hans voru ekki síður gott agn í bleikjuveiði en laxveiði.

    Kristján fór í sína síðustu veiðiferð um sumarið 1999. Afar veikburða, eftir baráttu við erfiðan sjúkdóm, landaði hann fallegri bleikju. Og auðvitað á appelsínugulu Kröfluna. Kristján lést tveimur dögum síðar í Reykjavík.

    Í netverslun okkar á nýrri vefsíðu fyrir fluguveiðimenn, www.Krafla.is verða í framtíðinni kynntar margar flugur eftir Kristján sem aldrei hafa verið til sölu áður á Íslandi. Og það sem kann að gera þetta sérlega forvitnilegt fyrir áhugasama fluguveiðimenn er að allar þessar flugur hafa sannað sig sem gjöfular veiðiflugur í íslensku straumvatni. Þær rúmlega fimmtíu flugur, af um eitt hundrað sem Kristján hannaði, og aldrei hafa verið framleiddar til sölu í íslenskum veiðibúðum, verða kynntar í framtíðinni á vefsíðunni okkar og boðnar til sölu á netversluninni á www.Krafla.is

    Tilgangur okkar með opnun vefsíðunnar www.Krafla.is á Íslandi og www.Krafla.com erlendis auk netverslunarinnar er fyrst og fremst sá, að sýna Kristjáni Gíslasyni þá virðingu sem honum ber, halda nafni hans sem hæst á lofti í framtíðinni og bjóða fluguveiðimönnum hér heima og erlendis upp á afrakstur ævistarfs þessa merka fluguveiðimanns, fluguhnýtingamanns, fluguhönnuðar og náttúrubarns.

    Blessuð sé minning Kristjáns Gíslasonar.

  • Gylfi Kristjánsson

    Gylfi Kristjánsson f. 18. ágúst 1948 - d. 29.10. 2007

    Gylfi Kristjánsson f. 18. ágúst 1948 - d. 29.10. 2007

    Gylfi Kristjánsson, sonur Kristjáns Gíslasonar, var mikill veiðimaður, sannur sínum hugsjónum, sannur sínum félögum og vinum er margir voru - og ekki síst sannur öllum þeim fjölmörgu veiðimönnum er vildu reyna hans flugur. Á margan hátt var Gylfi einstakur veiðimaður. Hann smíðaði sjálfur sínar flugur - sú smíði tók yfirleitt skamman tíma, en árangurinn lét ekki á sér standa. Gylfi valdi sér félaga til veiða - honum var illa við veiðimenn sem töldu sig vita allt - veiðimenn sem töldu sig yfir aðra hafna. Um þetta vorum við alltaf sammála. Ef Gylfi fann sér félaga sem voru til í að ræða málin - deila spurningum - ræða málin fordómalaust - þá var Gylfi til í að deila niðurstöðunni.

    Gylfi hannaði á nokkrum árum fjórar silungaflugur sem gert hafa garðinn frægan á Íslandi. Krókurinn, Mýsla, Beykir og Beygla eru til í boxum allra íslenskra silungsveiðimanna og hafa reynst afar veiðnar flugur. Gylfi hannaði vitaskuld fleiri flugur sem við munum setja í sölu hér á Krafla.com í framtíðinni.

    Fráfall Gylfa, langt fyrir aldur fram, var gríðarlegt áfall. Við sem þekktum Gylfa betur en aðrir erum ennþá harmi lostin. Gylfi átti sér fjölmarga vini sem enn syrgja góðan félaga.

    Minn ástkæri bróðir var sannur félagi á veiðislóð. Og alveg sérstakur vinur á árbakkanum. Aldrei leið mér betur en þegar ég átti í vændum veiðitúr og á stöng með Gylfa. Hann bar mikla virðingu fyrir náttúrunni og lagði alltaf mikla áherslu á að farið væri í einu og öllu eftir settum reglum við veiðiskapinn. Húmor Gylfa var einstakur og hann var eiginlega jafn skemmtilegur og hann var góður veiðimaður.

    Guð blessi minningu Gylfa Kristjánssonar.

    Stefán Kristjánsson

  • Þverá í Fljótshlíð: Frábær veiði Mokveiðifélagsins á flugur frá Krafla.is

    Bræðurnir Sævar Örn og Hörður Hafsteinssynir, meðgullfallega 12 punda hrygnu sem tók Kolskegg.

    Bræðurnir Sævar Örn og Hörður Hafsteinssynir, meðgullfallega 12 punda hrygnu sem tók Kolskegg.

    Flugur okkar á Krafla.is eru að gera það gott víða um land. Nýjustu fréttir eru af heimsókn meðlima Mokveiðifélagsins í snotra bergvatnsá, Þverá í Fljótshlíð, um helgina.

    Forsprakkar Mokveiðifélagsins, bræðurnir Sævar Örn og Hörður Hafsteinssynir, lögðu land undir fót um helgina og renndu fyrir laxa í Þveránni seinni part föstudags og fyrri part laugardags. Í liðinni viku heimsóttu þeir bræður okkur á Krafla.is og versluðu flugur. Höfðu þeir bræður á orði að of langur tími væri liðinn frá síðasta veiðitúr sem var í Húseyjarkvísl og þar áður í Laxá í Kjós. Í þessum ám veiddu þeir bræður mjög vel ásamt félögum sínum á flugur frá okkur á Krafla.is og einkum á Kolskegg flottúpu og Kröflu keilutúpur.

    Í síðustu verslunarferð þeirra félaga í Mokveiðifélaginu til okkar lögðu þeir félagar megin áhersluna á þríkrækjur. Birgðu sig upp af Kröflum, Iðu, Elliða rauðum og Grímum í öllum regnbogans litum. Og núna um helgina voru þessar flugur reyndar á nýjum veiðislóðum þar sem þeir félagar höfðu ekki veitt áður, Þverá í Fljótshlíð. Og flugurnar reyndust vel. Þeir félagar fengu 10 laxa og marga væna. 4 laxar tóku Iðu, 2 laxar komu á rauða Grímu og 4 laxar tóku Kröflur í ýmsum litum og Kolskegg. Þyngsti laxinn var 12 pund. ,,Við höfðum bullandi trú á öllum þessum flugum. Þær stóðu fyllilega undir öllum væntingunum. Kröflurnar eða Grímurnar ásamt Kolskeggi og Iðu, þetta eru frábærar flugur og þessi árangur okkar staðfestir það," sögðu þeir bræður við heimkomuna.

    Karl barón með flottan lax sem tók bláa Kröflu í Þverá í Fljótshlíð um helgina.

    Karl barón með flottan lax sem tók bláa Kröflu í Þverá í Fljótshlíð um helgina.

  • Brjáluð aðsókn í Kolskegg - 3 laxar komnir á land úr Djúpadalsá

    Kolskeggur flottúpa, 1,5".

    Kolskeggur flottúpa, 1,5".

    Flottúpan Kolskeggur er enn að gera það gott víða um land og aðsókn í þessa frábæru flottúpu er mikil. Við á Krafla.is höfum ekki undan að afgreiða Kolskegginn til viðskiptavina okkar og ef fram heldur sem horfir gæti svo farið að þessi vinsæla fluga verði uppseld hjá okkur síðar í sumar.

    ,,Ég var í Hofsá í Vopnafirði á dögunum og að sjálfsögðu með Kolskegginn meðferðis. Ég þurfti að leita að laxi og setti því Kolskegginn undir á flottúpu. Það var ekki að sökum að spyrja. Hvar sem ég renndi Kolskeggnum tóku hann laxar eða reyndu sig við túpuna. Kolskeggur er besta leitartækið sem ég hef reyunt í laxveiðinni," sagði Teitur Örlygsson við okkur á Krafla.is á dögunum.

    Fallegar bleikjur úr Djúpadalsá.

    Fallegar bleikjur úr Djúpadalsá.

    Veiði í Djúpadalsá í Reykhólahreppi hófst þann 12. júlí sl. Ekki höfum við nákvæmar fréttir af veiði í ánni það sem af er en þó getum við sagt frá því að þrír laxar eru komnir á land og um 25 bleikjur að auki. Bleikjan virðist ganga síðar á þessum slóðum en í fyrra og nægir í því sambandi að nefna Fjarðarhornsá og Skálmardalsá.

    Í frétt í dag á veiðivefnum Vötn og Veiði segir: ,,Sjóbleikjuveiði fyrir vestan fer fremur rólega af stað, en fiskur er þó eitthvað byrjaður að ganga. Í holli númer tvö í Skálmardalsá veiddust ekki margar bleikjur, en hins vegar kom mönnum nokkuð á óvart að sjá tvo laxa í ánni og náðist annar þeirra."

Hlutur 1 til 4 af 8

Síða:
  1. 1
  2. 2
© 2018 Skrautás Ehf. - Sími 6982844 - kt. 520799-2149 - vsk nr. 63003 [email protected] - Leiðhamrar 39 - 112 Reykjavík