323 laxar á land við Selfoss - Grýlan í sérflokki og lax enn að ganga
This entry was posted on 7. September 2008
.Rétt tæplega 60 laxar eru komnir á land við Syðri Brú í Soginu. Veiðimenn sem voru við veiðar þar í gær nýttu daginn illa, voru aðeins við veiðar í tvo tíma fyrir hádegi og ekkert eftir hvíld en fengu samt tvo laxa á Landaklöppinni. Annar laxinn tók svarta Kröflu keilutúpu, 1/4" en hinn 1/2" rauða Kröflu keilutúpu. Laxar voru að sýna sig á klöppinni annað slagið og eitthvað um nýjan fisk á þessu litla en snotra veiðisvæði sem aðeins telur þennan eina veiðistað.
Veiðitímabilinu í Norðurá lýkur þann 12. september en þá lýkur viku framlengingu á hefðbundnu veiðitímabili í ánni. Í gær, 5. september, veiddust 9 laxar á jafn margar stengur sem telja verður mjög dapra veiði þegar tillit er tekið til þess að aðstæður voru þokkalegar og áin að sögn kunnugra kjaftfull af laxi. Við birtum ítarlega frásögn af veiðinni í Norðurá í máli og myndum næsta þriðjudag.
Efsta myndin er frá Syðri Brú í Soginu og var tekin í gær. Fallegt en afar viðkvæmt veiðisvæði þar sem laxarnir tveir á neðri myndinni tóku Kröflur í gær.
Á hádegi í gær, 5. september, var búið að færa 323 laxa til bókar í veiðihúsinu við Pallinn á Selfossi. Er þetta metveiði á Selfoss svæðinu og í raun mjög góð veiði. Hvað flugur varðar þá er Grýlan okkar í algjörum sérflokki og virðist flugan mjög sterk á þessum slóðum. Einn lax veiddist fyrir hádegi í gær en síðustu daga hafa verið að veiðast nokkrir lúsugir laxar á svæðinu þannig að laxinn er enn að ganga í einhverjum mæli.
Grýlan hefur verið verið í sérflokki hvað
vinsældir varðar hjá laxinum við Selfoss
í sumar.
Frétt okkar um maðkaveiðimenn í Norðurá á dögunum í svonefndu Fjaðrafoksholli og nafnbirting okkar á þessum veiðidónum vakti mikla athygli. Við höfðum strax afar sterkar heimildir um atburðarásina. Ef satt skal segja áttum við von á sterkum viðbrögðum og þá á báða vegu. Staðreyndin er sú að yfir okkur hefur rignt heillaóskum fyrir nafnbirtinguna en aðeins tveir veiðimenn, tveir veiðimenn hafa sett sig í samband við okkur og talið það ,,forkastanlega ákvörðun" hjá okkur að birta nöfn veiðidónanna. Margir veiðimenn hafa sagt okkur frá fleiri dæmum um ósæmilega hegðun umræddra maðkadorgara sem eiga greinilega alls staðar betur heima en í Norðurá. Veiðimaður sem var í umræddu Fjaðrafoksholli hafði samband við okkur á dögunum og þakkaði okkur fyrir nafnabirtinguna. ,,Þið gerðuð hið eina rétta. Þegar svona hlutir koma upp og viðkomandi veiðimenn viðurkenna afbrot sín eins og í þessu tilfelli þá kemur ekki annað til greina en að birta nöfn viðkomandi. Eða áttum við í þessu fjölmenna holli að sitja undir því að tveir veiðimenn voru sendir heim fyrir að brjóta reglur við Norðurá og liggja undir grun, alsaklausir?"
Af hverju birtum við nöfnin á umræddum veiðiþjófum í Norðurá? Fyrir það fyrsta þá birtum við aðeins nafnið á þeim aðila sem skráður var fyrir umræddri stöng. Hægt er að gagnrýna okkur fyrir að hafa ekki birt nafn veiðimannsins sem staðinn var að verki, nafn sonar Bjarna í Brauðbæ, en það munum við eflaust gera síðar. Sekt Bjarna í þessu máli er algjör þrátt fyrir að hann hafi sofið í veiðihúsinu þegar veiðivörður Norðurár gómaði soninn við maðkaveiðar í Myrkhylsrennum. Fyrir þennan atburð hafði stöng þeirra feðga skilað 19 löxum á einum og hálfum degi. Hinar stengurnar 11 samtals 11 löxum!!!! Og umræddur maðkadorgari hafði útskýrt það í smáatriðum fyrir félögum sínum í hollinu hvernig laxar Norðurár stóðust ekki flugur hans og tóku þær á ýmsa vegu. Við á Krafla.is töluðum við menn sem voru staddir við Norðurá á þessum tíma. Þeirra ummæli í okkar eyru urðu enn frekar til þess að við ákváðum að birta nöfn veiðiþjófanna í Norðurá. Og það munum við gera í framtíðinni en vonandi er maðkaveiði í Norðurá algjörlega lokið.