Svakalega góðar viðtökur - og Kröfluflugurnar hafa svo sannarlega staðið fyrir sínu
This entry was posted on 14. March 2009
.
Vorið er skammt undan og í maí fögnum við á Krafla.is fjögurra ára afmæli okkar á markaðnum í flugusölu. Á þessum stutta tíma hafa flugur okkar vakið mikla athygli fyrir afburða gæði og fallegt útlit. Og þeir sem reynt hafa flugurnar hafa ekki orðið fyrir vonbrigðum. Kröflurnar eru án efa með skæðustu flugum á markaðnum og áratuga löng reynsla talar sínu máli. Margir af öflugustu fluguveiðimönnum landsins hafa þegar tekið ástfóstri við Kröfluflugurnar. Þar má nefna Rafn Hafnfjörð og Guðmund Stefán Maríasson og marga fleiri.
Allar pantanir sem okkur hafa borist á Krafla.is höfum við afgreitt þannig að nokkrar aukaflugur hafa fylgt með. Það er ekkert leyndarmál að okkar flugur eru ekki ódýrustu flugurnar á markaðnum í dag. Ef fluguveiðimenn vilja spara nokkra tíkalla og kaupa ódýrari flugur og túpur hjá öðrum aðilum þá gerum við ekki athugasemdir við það. Þegar þær flugur fara hins vegar að rakna upp vegna þess að hausinn er ekki fjórlakkaður og öll hnýtingin er ekki eins og hún á að vera að okkar mati, þá koma vonbrigðin í ljós og veiðimenn uppgötva að þeir hafa verið blekktir. Hér má nefna þá staðreynd að á þeim fjórum árum sem við höfum verið að selja flugur á Krafla.is höfum við fengið eina kvörtun. Eina kvörtun!!!!
Á flugumarkaði sem öðrum mörkuðum ríkir samkeppni og lengstum hefur hún verið í lagi. Þó hefur borið á lúalegum brögðum manna til að eigna sér verk annarra hönnuða og höfum við orðið vitni að miður skemmtilegum tilraunum eins ,,fluguhönnuðar" til að skreyta sig með stolnum fjöðrum. Og ekki í fyrsta skipti.
Fluguveiðimenn muna og vita hver hannaði appalsínugulu Kröfluna, Kristján Gíslason árið 1977 í kjölfar Kröfluelda. Til að gera langa sögu stutta birtum við hér mynd af SilungaKröflunni okkar og svo hina lúalegu tilraun Dr. Jónasar á Frances.is til að eigna sér afar lélega útgáfu af flugunni sem hann kýs að kalla Súdda. Um tíma stóð á síðunni hjá Frances.is: ,,þessa flugu hannaði ég fyrir vin minn Súdda í Breiðdalsá."
Við vonum að Súddi sé ánægður með stuldinn og hafi glaðst yfir gjöfinni og þessari stórmerkilegu hönnun Dr. Jónasar sem minnir um margt á stórmerka hönnun Dr. Jónasar á Frances flugunni bresku sem hann hefur eignað sér með örlitlum breytingum undanfarna áratugi.
Hversu lágt geta menn lagst og hversu miklir aular geta menn verið?
Fyrir því eru greinilega engin takmörk.