Stuttar fréttir héðan og þaðan
This entry was posted on 28. March 2009
.Nú styttist óðum í að veiðimenn fari á stjá með stengur sínar. Lengi höfum við hér á Krafla.is verið litlir stuðningsmenn vorveiði sem hefst 1. apríl. Veiði á niðurgöngufiski er fyrirbrigði sem maður hefur lengi átt erfitt með að skilja. Þó er hægt að skilja þetta að einhverju leyti ef menn sleppa hverjum einasta fiski sem þeir veiða. Skiljum við ekki tilganginn í því að drepa og hirða niðurgöngufisk í tugatali. Skorum við á veiðimenn sem á annað borð fara í vorveiði að sleppa öllum fiski.
Veiðimenn velta því mjög fyrir sér þessa dagana hvernig sala laxveiðileyfa gangi fyrir komandi sumar. Ber mönnum ekki saman um stöðuna. Margir veiðileyfasalar sem við höfum heyrt af segja söluna hafa verið mjög góða og lítið sé eftir af lausum dögum í sumar. Veiðimenn sem við höfum heyrt í segjast kannast við þessa stöðu. ,,Það er líklegt að búið sé að bóka töluvert af dögum í flestum ánum. Samkvæmt mínum heimildum eiga veiðimenn hins vegar í mörgum tilfellum eftir að greiða fyrir þessi veiðileyfi og þá munu leigutakar standa frammi fyrir miklum vandamálum. Ég held að þegar júní rennur upp verði margir dagar óseldir og þá verði hægt að ná sér í dag eða daga fyrir ótrúlega lítinn pening," sagði viðmælandi okkar. Innan skamms ætti að koma í ljós hvert veiðimaðurinn hefur rétt fyrir sér.
Veiðimenn sem hafa áhuga á stangaveiði á Grænlandi ættu að leggja leið sína í verslunina Ellingsen í dag, laugardag. Þar verður í gangi öflug kynning á veiðisvæðum í þessu magnaða landi en það er Flugfélag Íslands sem sér um söluna. Á Grænlandi er mögnuð bleikjuveiði og þar hafa okkar flugur oftar en ekki komið við sögu. Höfum við heyrt fjölmargar sögur af silungaflugum okkar, Króknum, Mýslu, Beyki og Beyglu (nr. 12-16) og eins hafa Kröflurnar í ýmsum útgáfum reynst afar vel í grænlenskum ám og vötnum. Er okkur þá sérstaklega minnisstæð frásögn Hjálmars Árnasonar, fyrrverandi alþingismanns, hér á Krafla.is sem lagði leið sína til Grænlands fyrir tveimur árum. Hafði þessi þekkti aðdáandi bresku flugunnar Frances reynt marga liti af Frances án árangurs er hann hnýtti Kröfluna á taumendann og við tók linnulítil löndun. Var væn bleikja á í hverju kasti.
Veiðisýningin sem vera átti í Perlunni í byrjun maí hefur verið blásin af. Ólafur M. Jóhannesson, forsprakki sýningarinnar, segir það mikil vonbrigði að ekki verði af sýningunni. ,,Við vorum vongóðir lengi vel og um tíma leit út fyrir að þetta gæti orðið hin glæsilegasta sýning. Þegar leið á fóru fyrirtæki hins vegar að afboða sig hvert af öðru og báru fyrir sig kreppunni og óvissu hvað framtíðina varðar. Fljótlega var þá ljóst að grundvöllur fyrir sýningunni var ekki lengur fyrir hendi og því það eina rétta að hætta við sýninguna," sagði Ólafur. Samkvæmt okkar heimildum verður stefnt að sýningu að ári. Veiðisýningin var síðast í Smáralind og þótti takast frábærlega í alla staði og sóttu um 6000 veiðimenn sýninguna.
30% hækkun í Norðlingafljóti. Veiðimenn eru mikið að velta fyrir sér verði á veiðileyfum næsta sumar. Í mjög mörgum tilfellum mun verðið lækka, hækka örlítið eða haldast óbreytt. Það er þess vegna skrítin þróun og í litlu samræmi við gang mála í flestum ám að leigutaki Norðlingafljóts tók upp á því að hækka verð á veiðileyfum frá því í fyrra um 30%. Nei, þetta er ekki prentvilla, 30%. Við hér á Krafla.is vorum í Norðlingafljóti sl. sumar, ekki á besta tíma en dagurinn kostaði engu að síður 50 þúsund. Er þar um strípað verð að ræða því ekkert er innifalið, sólarhringsgjald fyrir veiðihúsið var 4000 krónur og þá eftir að borga mat og annan kost. Í sumar eru þessir dagar á 65 þúsund. Vissulega er Norðlingafljót stórbrotin laxveiðiá, býður upp á marga skemmtilega veiðistaði og alltaf nægilegt vatnsmagn. Við veiddum 70 laxa í fyrra, nær alla á Kröflur og sönnuðu Kröflurnar enn einu sinni hversu öflugar þær eru. Ekki verður af veiðitúr okkar í sumar. Einfalt mál. Við látum ekki bjóða okkur 30% hækkun á milli ára.