Velkomin(n) á vefverslun Kröflu

Cart:

0 item(s) - 0 kr
Það eru engar vörur í körfunni þinni.

0

Netaveiði á vatnasvæði Hvítár og Ölfusár: Hvað ætlar Veiðifélag Árnesinga að gera?

Hörður Hafsteinsson með fallegan 96 cm hæng á Iðu sem tók Randalín túpu sem fæst eingöngu á Krafla.is Mjög sterk fluga sem skilar alltaf góðri veiði við Iðu og víðar.

Hörður Hafsteinsson með fallegan 96 cm hæng á Iðu sem tók Randalín túpu sem fæst eingöngu á Krafla.is Mjög sterk fluga sem skilar alltaf góðri veiði við Iðu og víðar.

Deilan um netaveiði á laxi í Hvítá í Árnessýslu og Ölfusá er í eins miklum hnút og hún getur verið. Þrátt fyrir mikinn árangur Stangaveiðifélags Reykjavíkur við uppkaup á netalögnum hefur syrt í álinn undanfarið. Árið 2007 veiddust rúmlega 400 laxar í net á umræddu svæði. Í kjölfar kaupa SVFR á netalögnum veiddust í fyrra um 3100 laxar í net á þessu svæði. Þessar tölur komu mjög á óvart og voru í raun sem kjaftshögg framan í stangaveiðimenn. Í ljós kom að netaveiðimenn sem ekki var búið að semja við höfðu sett allt í botn, nýtt sér ástandið til hins ýtrasta og aukið verulega við veiðiskapinn.

Staðan í dag er mjög erfið. Stangaveiðifélag Reykjavíkur virðist vera eini aðilinn sem hefur einhvern áhuga á málinu. Veiðifélag Árnesinga gerir ekki neitt. Félagið er þó líkast til eini aðilinn sem getur leyst þessi netamál á mjög skömmum tíma á þann hátt sem allir geta sætt sig við. Einfaldlega með því að beita félaga sína sem stunda netaveiðar sömu aðferðum og kvöðum og þá meðlimi félagsins sem stunda stangaveiðina. Stangaveiðimönnum eru settar verulegar skorður. Þeir eiga á einni veiðislóð að sleppa öllum laxi, öllum vænum laxi á annarri og á mörgum stöðum gangast stangaveiðimenn undir kvótareglur. Í Stóru Laxá hefur veiðitími verið styttur verulega. Netaveiðimenn fá hins vegar að stunda sínar veiðar óáreittir. Valsa um veiðisvæðið með tæki sín og trossur með græðgina eina við stjórnvölinn. Þeir verða einungis að virða landslög en að öðru leyti geta þeir hagað sér að vild. Á síðasta sumri hafa þessir menn farið hamförum og sýnt af sér ótrúlegt siðleysi með gengdarlausum netaveiðum sem námu sumaraflanum í Norðurá. Svo halda sumir spekingar að netaveiðar á Hvítársvæðinu hafi engin áhrif. Halda menn virkilega að það skipti engu máli að úr Hvítá og Ölfusá sé tekinn afli sem nemur allri veiði í Norðurá í Borgarfirði í heilt sumar??

Fallegur nýgenginn 6 punda lax sem tók Kröflu orange á Landaklöppinni við Syðri Brú í Soginu sl. sumar.

Fallegur nýgenginn 6 punda lax sem tók Kröflu orange á Landaklöppinni við Syðri Brú í Soginu sl. sumar.

Auðvitað á Veiðifélag Árnesinga strax að setja netaveiðimönnum reglur fyrir sumarið. Leyfa enga netaveiði fyr en um miðjan júlí og leyfa aðeins netaveiði í 30-40 daga. Þessi ákvörðun myndi líklegast mælast vel fyrir hjá stangaveiðimönnum. Best kæmi hún sér þó likast til fyrir bergvatnsárnar á vatnasvæðinu, Sogið og Stóru Laxá svo einhverjar séu nefndar. Með því að leyfa netaveiðarnar frá miðjum júlí væri obbanum af eftirsóttasta hrygningarfiskinum á vatnasvæðinu líkast til hlíft og bjargað. Til dæmis öllum stærsta laxinum sem strunsar án afláts á hrygningarstöðvar sínar ofan við fjórða veiðisvæðið í Stóru Laxá, langt fram á hálendinu.

Ef Veiðifélag Árnesinga kýs að aðhafast ekkert í málinu er ljóst að stangaveiði verður brátt svipur hjá sjón á vatnasvæði Hvítár og Ölfusár. Veiðimenn, sem margir hverjir hafa haldið áratuga langri tryggð við svæðið, munu þá láta sig hverfa og leita á önnur og skynsamlegri mið. Þá verður of seint fyrir netabændur með dollaramerki í augum að koma fram og monta sig af svona og svona mikilli veiði í mörg ár og krefjast hárra upphæða fyrir netaveiðina. Þá hafa einfaldlega engin félög veiðimanna löngun lengur til að tala við netabændur.

Netabændur hafa með framferði sínu í fyrra sýnt mikið siðleysi, í besta falli algjört ábyrgðarleysi. Við skulum hafa hugfast að þeir eru með lögin sín megin og veiðiréttur þeirra er lögvarinn. Stangaveiðibændur, bændur sem leggja ekki net heldur leigja veiðirétt sinn til stangaveiði, eru með hjartað á réttum stað og mælast til þess, eða vona að minnsta kosti, að netabændur hafi til að bera sömu ábyrgðartilfinningu og sómatilfinningu og aðrir veiðimenn. Hafi í raun áhuga á því að umgangast sína auðlind af sömu varkárni og umhyggju og stangaveiðibændur. En því miður er því ekki að heilsa. Framferði netabænda sl. sumar sýnir að þeir eru í raun mestir óvinir vatnasvæðisins og hika ekki við að beita öllum ráðum til að stinga félaga sína í Veiðifélagi Árnesinga í bakið.

Langholt. Fallegt og vinsælt veiðisvæði í Hvítá.

Langholt. Fallegt og vinsælt veiðisvæði í Hvítá.

Vatnasvæði Hvítár og Ölfusár á sér marga óvini. Sumir þeirra eru ekki betur gefnir en svo að þeir monta sig á almannafæri af lögbrotum sínum sem þeir stunda óhindrað og óáreittir. Fyrir tveimur árum var ég á leið austur fyrir fjall til laxveiða. Ég ákvað að stoppa við Ölfusá við litla veiðihúsið neðan við brúna yfir Ölfusá. Skömmu síðar bar þar að á rándýrum jeppanum sínum karlmann á miðjum aldri. Sá gaf sig á til við mig og tjáði mér strax að svakaleg ganga væri í Ölfusána. Ég spurði um rök fyrir þeirri fullyrðingu og fékk þau umbúða- og svikalaust. Maðurinn sem sagðist vera múrari og með sumarhús sitt í landi Öndverðarness, í næsta nágrenni Ölfusár, lýsti því fyrir mér í smáatriðum hvernig hann fyllti bát sinn aftur og aftur af lúsugum laxi. Hann sagðist vera með sæmilega langt net og það væri reglan að þegar hann væri búinn að tæma netin og fylla bátinn og kominn í land, þá væri netið orðið fullt á ný.  Mest kom mér á óvart hve múrarinn var sperrtur yfir þessum afrekum sínum. Ég var auðvitað auli að taka ekki niður bílnúmer veiðiþjófarins og kæra í kjölfarið. Hversu margir veiðiþjófar af þessari tegundinni eru til?

Stangaveiðimenn sem vilja vatnasvæði Hvítár vel eiga aðeins einn kost í stöðunni í dag. Beita Veiðifélagi Árnesinga eins miklum þrýstingi og frekast er unnt. Veiðimenn þurfa að taka sig saman, senda félaginu tölvupósta og hringja án afláts og láta skoðanir sínar í ljósi. Veiðifélagið verður að setja ákveðnar skorður við netaveiðum félagsmanna sinna í fullu samræmi við þær skoruður sem stangaveiðimenn verða að lifa við. Þetta er eina færa leiðin til að leysa þetta stóra mál og leysa það strax.

Stefán Kristjánsson

Leave a Reply
© 2018 Skrautás Ehf. - Sími 6982844 - kt. 520799-2149 - vsk nr. 63003 [email protected] - Leiðhamrar 39 - 112 Reykjavík