Veiðin róleg í Norðurá - falleg 80 cm hrygna tók Kröflu á Brotinu
This entry was posted on 11. June 2009
.Veiðin er róleg í Norðurá í kjölfar stórstraums þessa dagana og á land eru komnir eitthvað rúmlega 20 laxar. Það er dagamunur á því hve mikið menn sjá af laxi og ljóst er að hann er að ganga í strauminn og veiðin er heldur meiri en á sama tíma í fyrra.
Á dögunum fékk Ólafur Ingvi Arnarsson mjög fallega 80 cm langa hrygnu á Brotinu neðan við Laxfoss og tók hún 1/2" svarta Kröflu keilutúpu. Fyrsti laxinn hefur veiðst við Króksbrú. Ótrúlega snemma á ferðinni sá fiskur og genginn alla leið fram að Holtavörðuheiði.
Enn hefur ekki veiðst lax á svæðinu við Munaðarnes eða í Stekknum en það hlýtur að styttast verulega í það. Vatnsmagn í Norðurá fer nú minnkandi en frekar kalt er til heiða og snjóbráð því af skornum skammti. Vatn er þó mjög gott í Norðurá ennþá og verður örugglega gott næstu daga og vikur.