Betri veiði í Norðurá en á sama tíma í fyrra
This entry was posted on 14. June 2009
.Þrátt fyrir að veiðin í Norðurá hafi kannski hingað til ekki verið sú sem bjartsýnustu menn vonuðust eftir er veiðin betri en á sama tíma í fyrra svo nemur nokkrum löxum. Stjórnarhollið byrjaði afar vel, setti í tíu laxa fyrsta daginn en síðan varla söguna meir.
Í dag er veiði ögn betri í Norðurá en í fyrra. Einn er þó afar ljós punktur. Tveggja ára laxinn virðist mun bústnari en hann var í fyrra. Þrátt fyrir að menn hafi vonast eftir heldur kröftugri göngum tveggjara ára laxins hefur það glatt hjörtun að veiðimenn hafa sett í vænni fiska en undanfarin ár.
Guðmundur Stefán Maríasson, formaður Stangaveiðifélags Reykjavíkur, setti í 12-15 punda lax á opnunardegi. Fiskurinn rauk niður Brotið og setti formann félagsins á kaf í ána.Missti hann stöngina en náði henni síðar með naumindum er hann náði að grípa í stangartoppinn áður en stöngin flaut niður ána. Skömmu síðar var fiskurinn laus en hann tók 1/2" svarta Kröflu keilutúpu á Brotinu. Veiðimenn hafa sett í fleiri laxa í vænni kantinum en þeir hafa flestir sloppið. Hvað Norðurá varðar þá bíða menn nú spenntir eftir smálaxinum og verður afar spennandi að sjá hversu öflugar göngurnar verða.