Gaukssonurinn tekinn við og engin von um batamerki hjá Veiðifélagi Árnesinga
This entry was posted on 28. June 2009
.Stangaveiðimenn og einkum og sér í lagi fluguveiðimenn, hafa árum saman rennt hýru auga austur fyrir fjall. Sérstaklega til Stóru Laxár, Sogsins og Hvítár. Vonast eftir því að menn þar tækju sönsum. Lengi vel var engin von á slíku enda réði Veiðimálastofnun öllu á svæðinu. Stofnunin hóf fyrir mörgum árum tilraunaveiði á laxi í net við Selfoss og fannst sérlega smekklegt að hefja þær veiðar 15. júní. Rétt í þann mund sem stærstu laxar Laxárstofnsins í Hreppum voru að hefja göngu sína. Netakóngurinn Gaukur Jörundsson og félagar sem stangaveiðimenn þekkja sem helstu óvini sína gegnum árin eru nú gengnir aftur. Sonurinn Jörundur Gauksson víst orðinn formaður Veiðifélags Árnesinga og því lítil von til þess að skynsemi ráði för í framtíðinni. Reyndar vantar nokkuð upp á að við trúum því að Gaukssonurinn sé orðinn formaður. Ef það er sannleikurinn í málinu má öruggt telja að stangaveiði muni ekki eiga sér framtíð á veiðisvæði félagsins meðan hann er formaður.
Staðreyndir tala sínu máli og það er sorgleg staðreynd að fjölmargir stangaveiðimenn eru að missa áhugann á stangaveiði fyrir austan fjall. Gengdarlaust dráp netaveiðibænda sem slátra á tiltölulega stuttu veiðisvæði sumaraflanum í Norðurá í Borgarfirði er að ganga af svæðinu dauðu. Ímyndin er dauðvona. Ef sannir fluguveiðimenn loka augunum og láta hugann reika í austurátt sjá þeir fyrir sér netatrossur, siðblint og stjórnlaust veiðifélag og meðlimi félagsins sem virðast ekki skilja nokkurn skapaðan hlut. Fyrr en varir vakna menn eða rumska við þá staðreynd að græðgi þeirra og skammsýni hefur eyðilagt alla möguleika þeirra.
Stefán Kristjánsson