,,Ég hef bara aldrei séð aðrar eins tökur." 7 laxar af 12 tóku Kolskegg með ótrúlegum látum
This entry was posted on 15. July 2009
.Leiðsögumennirnir Stefán Hrafnsson og Sveinn Björnsson (Denni) skruppu nýverið í laxveiði í Hölkná og Hafralónsá í Þistilfirði. Veiddu þeir eina vakt í hvorri á með hreint frábærum árangri. Við höfum áður hér á Krafla.is sagt frá mikilli veiði á flottúpuna Kolskegg sem er til sölu á Krafla.is Eftir að hafa lesið pistilinn sem þeir félagar sendu okkur í gær þarf varla frekari vitna við.
,,Við byrjuðum í Hölkná og vorum báðir að koma þar í fyrsta skipti. Við kíktum í flesta hyljina og sáum víða lax. Við lönduðum 4 löxum, misstum 2 og fengum slatta af tökum. Tveir af þessum fiskum komu á Kolskegg flottúpu. Tökurnar voru engu líkar sem ég hef áður séð í laxveiði og laxarnir komu í loftköstum á eftir Kolskeggnum," sagði Stefán Hrafnsson í pistlinum til okkar.
Daginn eftir fóru þeir félagar í Hafralónsá. Stefán segir: ,,Við byrjuðum í veiðistað númer 14. Denni missti fínan lax þar í fyrstu yfirferð. Ég fór svo yfir með Kolskegg og fékk svaka neglingu og landaði 81 cm hrygnu. Við fórum svo ofar í ána og urðum strax varir við kröftugar göngur. Fengum fljótlega tvo laxa. Lögðum okkur síðan í 3 tíma og lönduðum síðan 5 löxum, misstum nokkra og fengum fullt af tökum. Af þessum 12 löxum sem við fengum í ánum tveimur komu 7 á Kolskegg flottúðu og voru allar tökurnar alveg svakalegar og nær allir fiskarnir nýgengnar hrygnur, 10-13 pund. Ég hef bara aldrei orðið vitni að öðrum eins tökum og alveg greinilegt að Kolskeggur slær Sunray Shadow út. Laxinn fór hreinlega hamförum í yfirborðinu í árásunum á Kolskegg. Þessi fluga er hér með orðin mín uppáhaldsfluga og svínvirkar hér í Þistilfirðinum," sagði Stefán Hrafnsson.