,,Magnaðasta taka sem ég hef fengið á flugu - Kolskeggur fluga ársins"
This entry was posted on 20. August 2009
.,,Ég gat ekki hugsað mér, frekar en margir aðrir veiðimenn í sumar, að fara í veiðitúrinn án þess að hafa Kolskegg meðferðis. Ég fékk mér því nokkra á Krafla.is og sé ekki eftir því. Kolskeggurinn klikkaði ekki," sagði Eiríkur Stefán Eiríksson, stjórnarmaður í Stangaveiðifélagi Reykjavíkur, en hann var í ,,stjórnarhollinu" sem veiddi Norðurá um liðna helgi.
,,Ég setti Kolskegginn á strax á fyrstu vaktinni og var þá staddur í Krossholu neðan við Laxfoss. Skipti engum togum að lax réðst á Kolskegginn strax og hún kom í vatnið. Laxinn kom allur upp úr hylnum og þetta var magnaðasta taka sem ég hef fengið á flugu á mínum ferli sem veiðimaður. Og nú trúi ég öllum sögunum sem ég hef heyrt og lesið um þessa mögnuðu flugu. Kolskeggurinn sem Stefán Kristjánsson á Krafla.is hannaði aðeins 12 ára gamall á síðari hluta síðustu aldar er að mínu mati fluga ársins í ár," sagði Eiríkur ennfremur.
Stjórnarhollið fékk aðeins 25 laxa á 12 stengur í umræddum veiðitúr og er það mjög slök veiði enda aðstæður nánast vonlausar. Norðuráin afar vatnslítil og erfið viðureignar. En Kolskeggurinn klikkaði hins vegar ekki og af þessum 25 löxum sem hollið fékk voru 7 eða 8 á Kolskegg. Veiði í Norðurá hefur verið svakalega léleg undanfarið og dæmi um að heil vakt hafi aðeins skilað 2 löxum á 12 stengur. Núna hljóta hins vegar að vera skemmtilegir dagar framundan í Norðurá því rennsli árinnar var komið í 10 rúmmetra á miðnætti í gær og hafði vatnsmagnið þá tvöfaldast frá því sem var um liðna helgi.