Laxar á Kröflur og Kolskegg í Aðaldalnum - Norðurá lokað í flóði eftir að vatnsmagn sexfaldaðist í gær - fréttir héðan og þaðan
This entry was posted on 12. September 2009
.Veiði lauk í Norðurá í gærkvöld og þá skildi þessi mikla perla, sem verið hefur vatnslítil og vatnslaus megnið af sumrinu, við síðustu veiðimenn sumarsins í lituðu flóðvatni. Var áin orðin foráttumikil og mórauð áður en veiðitíma lauk í gær. Lokatölur úr Norðurá eru mjög nálægt 2408 löxum sem er nokkru minni veiði en í fyrra en samt merkilega góð og í raun frábær veiði miðað við aðstæður í sumar.
Svo miklir voru vatnavextir í Norðurá í gær eftir að fór að rigna að vatnsmagn árinnar sexfaldaðist á einum sólarhring. Rennsli Norðurár var um 6 rúmmetrar á miðnætti í gær en í þessum skrifuðu orðum sólarhring síðar er rennsli Norðurár 36 rúmmetrar. Sannarlega grátlegt að loksins komi ákjósanlegt vatn í ána þegar veiðitíma er lokið.Breyta
Fram á síðustu veiðidaga var nýr lax að ganga í Norðurá. Til að mynda veiddist 4 punda nýgengin hrygna í Krossholu við Laxfoss þann 7. september. Svo silfurgljáandi var laxinn að veiðimenn leituðu að lús en fundu ekki. Þá sáu veiðimenn nýgenginn og bjartan lax stökkva í Neðristreng á svæðinu í Munaðarnesi sama dag og daginn eftir. Einnig varð vart við hóp nýrra laxa í Myrkhyl.
,,Þetta var æðislegur veiðitúr. Við fengum fjóra fallega laxa á Nessvæðinu og getum ekki annað en verið ánægðir með það," sagði Stefán Hallur Jónsson í samtali við okkur á Krafla.is í gærkvöld en hann var við veiðar í Laxá í Aðaldal fyrir nokkrum dögum. ,,Heimamenn höfðu á orði að ekki væri hægt að veiða á Kröflur í Aðaldalnum en við fórum nokkuð létt með að afsanna það. Við fengum tvo laxa á blá/svarta tommulanga Kröflutúpu og tveir laxanna komu á Kolskegg," sagði Stefán Hallur.
Við höfum frétt af mjög mikilli veiði á Kröfluflugur á norðanverðu landinu í sumar. Og ekki síður á norðaustanverðu landinu. Þannig höfum við heyrt miklar sögur frá mörgum veiðimönnum sem verið hafa við veiðar í Hölkná og Hafralónsá svo ekki sé minnst á Selá.
Hollið sem tók við í Stóru Laxá og veiddi 6. til 8. september fékk 3 laxa en aðeins tvær stengur voru við veiðarnar. Greinilegt að lítið ef nokkuð er af laxi í Stóru Laxá þessa dagana en það kann að breytast eftir vatnavexti síðustu daga. Þegar vatn vex í Stóru Laxá og Hvítá fer allt af stað, lax fer í auknum mæli á hreyfingu af svæðum í Hvítá neðan við Skálholt. Þessi fiskur gengur um Iðusvæðið þar sem veiðimenn verða hans varir og veiða vel í skamman tíma. Og áður en menn depla auga er Iðusvæðið tómt, fisklaust þrátt fyrir góðar aðstæður. Þá er von á góðum dögum í Stóru Laxá í framhaldinu.
Eftir að allt fór í flóð og grugg á Iðunni um kvöldmatarleytið í kvöld má loksins búast við fjörugum dögum í Stóru Laxá þegar vatnavöxtum linnir og sjatnar í Stóru Laxá. Síðustu dagar hafa verið mjög daprir á svæði 1 og 2 í Stóru Laxá og veiðimenn sem voru á þessum svæðum um síðustu helgi fóru vonsviknir heim á leið: ,, Við veiddum svæðin samviskulega, notuðum margar flugur í öllum stærðum og spúninn í lokin á hverjum veiðistaðnum af öðrum. Uppskeran var aðeins tveir laxar sem eiga ættir að rekja til Tungufljóts og eiga ekkert skilt við stofninn í Stóru Laxá. Vatnið var afskaplega lítið og svæðin nánast steindauð og eiginlega hvergi líf að sjá," sagði veiðimaður við Krafla.is sem var í umræddu holli.