Monthly Archives: June 2010
-
Settu í 8 laxa á opnunardegi Norðurár en náðu 5 - 5 af 8 tóku Kolskegg og Kröflu
Gunnar Örn Pétursson með þrjá laxa sem hann fékk í Norðurá fyrir þremur árum. Gunnar Örn setti í 3 laxa í Stekknum á Munaðarnessvæðinu í gær en missti þá alla. Tveir þeirra tóku Kolskegg flottúpðu og sá þriðji Kröflu orange keilutúpu.
,,Þetta var mjög skemmtileg viðureign. Laxinn var búinn að vera á eftir Kolskeggnum í nokkur skipti og svo endaði hann á því að negla hann," sagði Árni Friðleifsson, stjórnarmaður í Stangaveiðifélagi Reykjavíkur, í samtali við Krafla.is í gærkvöld en þá var veiði nýlokið fyrsta veiðidaginn í Norðurá og verður að segjast eins og er að fyrsti dagurinn lofar góðu. Veiðimenn settu í 8 laxa en 5 þeirra komu á land. Árni fékk laxinn á Kolskegg í veiðistað rétt ofan við Myrkhyl sem nefnist Einbúi. Árni fékk annan lax í Myrkhyl og var því með tvo laxa í gær.
Nokkuð líf var í mörgum veiðistöðum Norðurár í gær. Greinilegt var að lax var að ganga um Munðarnessvæðið en þar voru þeir Jón G. Baldvinsson og Gunnar Örn Pétursson við veiðar. Jón setti í einn lax í Stekknum. ,,Þetta var mjög skemmtileg taka. Hann var búinn að koma nokkrum sinnum á eftir Kolskeggnum en endaði síðan á að ráðast á hann með miklum látum. Þetta var mjög skemmtilegt," sagði Jón í samtali við Krafla.is í gærkvöld. Gunnar Örn setti í þrjá laxa en heppnin var ekki með honum í gær og hann missti þá alla. Tveir laxanna tóku Kolskegg og einn Kröflu orange keilutúpu. Sannarlega líflegur dagur á Munaðarnessvæðinu í gær.
Loks veiddu hjónin Bjarni Júlíusson og Þórdís Klara Bridde fallega laxa í Myrkhyl á fyrstu vaktinni. Það var nokkuð um lax í Norðurá í gær en veiðimenn stóðu andspænis mjög erfiðum aðstæðum, mjög litlu vatni og mikilli birtu. Laxar sáust í Myrkhyl, á öllu svæðinu í nágrenni Laxfoss, í Krossholu, Klingenberg og Berghylsbroti og víðar. ,,Þetta var nokkuð líflegt og ég man ekki eftir opnun í Norðurá í fljótu bragði þar sem lax var svona dreifður um ána á þessum árstíma," sagði Guðmundur Stefán Maríasson, formaður Stangaveiðifélags Reykjavikur í samtali við Krafla.is i gærkvöld.
Það verður gaman að fylgjast með framhaldinu í Norðurá og greinilegt að flugan okkar Kolskeggur ætlar að gera það gott og byrja veiðisumarið eins og hún endaði sumarið í fyrra. Við munum áfram fylgjast með gangi mála og flytja fréttir hér á Krafla.is
Stekkurinn er glæsilegt veiðisvæði. Hér settu þeir Jón G. Baldvinsson og Gunnar Örn Pétursson í fjóra laxa í gær og þrír þeirra tóku Kolskegg flottúpu.
-
Nokkrir klukkutímar í fyrstu köstin - Kröfluævintýri formannsins í fyrra enn í fersku minni en útlitið er dökkt á Brotinu
Hér hefur bardaginn borist nokkur hundruð metra niður Norðurá. Sjá má Laxfoss í baksýn en laxinn tók Kröfluna rétt neðan við Laxfoss. Í ánni ráða æðstu stjórnendur SVFR ráðum sínum en í landi spá þeir Kjartan Þörbjörnsson (Golli á Mogganum) og Einar Páll Sveinsson Evróvisjónhöfundur í spilin.
Vatnsmagn í Norðurá er veiðimönnum sem hófu veiðar í ánni í morgun mjög óhagstætt. Stjórn Stangaveiðifélags Reykjavíkur byrjaði veiðina í morgun og útlitið var ekki alltof gott. Margir veiðistaðir eru ekki að halda fiski við þessar aðstæður en þó er vitað af fiski sem genginn er í ána þannig að einhverjir veiðimenn verða örugglega varir í opnuninni.
Veiðimönnum er enn í fersku minni ævintýri sem formaður SVFR, Guðmundur Stefán Maríasson, lenti í í fyrra. Eftir rólega byrjun á Brotinu, veiðistaðnum sem formaðurinn á alltaf fyrsta morguninn, renndi sér mjög vænn tveggja ára lax inn á Brotið og negldi hálftommu svarta Kröflu keilutúpu með það sama. Og eftirleikurinn var formanninum ekki auðveldur. Laxinn, sem talinn var 12-15 pund, teymdi formanninn mörg hundruð metra niður Norðurá og í mestu látunum for formaðurinn á bólakaf í ána. Leikurinn barst á Bryggjurnar en þar hafði laxinn betur eftir langa og stranga viðureign. Formaðurinn var ánægður með frammistöðu Kröflunnar eftir bardagann og sagði að þetta væri ekki í fyrsta skiptið sem Kröflurnar gerðu það gott í veiðinni hjá honum.
Í morgun kl. 07 kastaði Guðmundur Stefán aftur á Brotinu en nú voru aðstæður mun verri, mun minna vatn en í fyrra og samdóma álit fróðra manna að Brotið héldi alls ekki laxi við þessar aðstæður. Fiskar hafa sést á Eyrinni í morgun, en Eyrin er veiðistaður beint á móti Brotinu við hinn bakkann. Þar má reikna með að fyrsti lax sumarsins komi á land.
Kröflur og Kolskeggur, oftast í formi flottúpu long wing, voru ásamt fleiri af okkar flugum að gefa góða veiði í Norðurá í fyrra. Kolskeggurinn kom svakalega á óvart og við eigum í fórum okkar lýsingar veiðimanna sem náðu löxum í Norðurá og víðar í fyrra á Kolskegg og töldu sig aldrei hafa upplifað aðrar eins tökur í laxveiði. Suma daga var allt að helingi dagsafla í Norðurá á Kolskegg. Við segjum nánar frá þessari spútnikflugu sumarsins í fyrra mjög fljótlega hér á Krafla.is og munum einnig fylgjast vel með veiðimönnum við Norðurá og flytja fréttir hér á vefnum um leið og þær berast okkur.
Laxinn sem tók Kröflu formannsins var um 12-15 pund. Mynd Heimir Óskarsson á Vötn og veiði.
Hlutur 5 til 6 af 6
- 1
- 2