Long Wing flottúpurnar Iða, Kolskeggur og Skröggur að slá í gegn í Húseyjarkvísl - misstu risafisk á Skrögg
This entry was posted on 4. July 2010
.,,Þetta er búið að vera frábært og long wing flottúpurnar ykkar á Krafla.is eru heldur betur búnar að slá í gegn hér. Til þessa höfum við verið að veiða mest á Kolskegg og Skrögg en núna í morgun var það Iða sem sló öllum öðrum flugum við og fengum við 4 fallega laxa á Iðu flottúpuna í morgun, alveg upp í 90 cm fiska. Við erum búnir að sannreyna það hér að Iðan er rosalega sterk fluga og verður örugglega meira reynd í framtíðinni en hingað til," sagði Sævar Hafsteinsson í samtali við Krafla.is nú í hádeginu, en hann og félagar hans í Mokveiðifélaginu eru nú við veiðar í Húseyjarkvísl.
Þeir félagar í Mokveiðifélaginu hófu veiðar í Húseyjarkvísl seinni partinn í gær og voru í hádeginu í dag komnir með 7 laxa. 4 tóku Iðu og 3 fengust á Kolskegg.
Húseyjarkvísl í Skagafirði hefur verið að gefa ágæta veiði undanfarið og þar er útlit bjart eins og víða annars staðar. Holl, sem tók við á hádegi í gær, ,,skannaði" veiðisvæðið í gær og útkoman var einföld. Lax er mættur í alla veiðistaði í Húseyjarkvísl og þar er að finna verulega væna laxa.
Þorsteinn Guðmundsson setti í mikið tröll i gær og var það samdóma álit viðstaddra að þar hafi verið roskinn tuttugupundari á ferð. Eftir nokkra glímu losnaði úr tröllinu og veiðimenn voru bjartsýnir á framhaldið. Tveir laxar komu á land í Húseyjarkvísl í gær og tóku báðir Kolskegg Long wing flottúpu.
Við munum fylgjast með og birta nýjar fréttir í kvöld hér á Krafla.is og myndir líka. Og á morgun er búið að lofa okkur myndum af 23 punda tröllinu sem Elvar Örn veiddi á Skrögg í Laxá í Aðaldal.