Nýjar flugur eru mættar í 8 metra langt fluguborð - varist lélegar eftirlíkingar
This entry was posted on 13. May 2011
.Flestar flugur okkar eru komnar í hús fyrir komandi veiðivertíð en síðasta sendingin er í þann veginn að fara af stað til okkar. Við munum bæta töluvert við úrvalið hjá okkur í sumar og nú þegar eru komnar glæsilegar nýjar flugur í fluguborðið okkar í Kröfluversluninni Höfðabakka 3.
Þar ber fyrst að nefna Kolskegg long wing túpu með keilu í tveimur stærðum en sem slíkur hefur Kolskeggur aldrei verið til áður. Í Flottúpunum með langa vængnum er Skröggur einnig mættur með keilu og Iðan verður til með keilu líka. Við frumsýnum eina nýja flottúpu í sumar en í fluguborð okkar er komin flugan Úa sem Kristján Gíslason hannaði fyrir mörgum áratugum og reyndist frábærlega hér áður fyr í laxveiðinni.
Í þyngdum kopartúpum með keilu kynnum við til leiks margar flugur sem ekki hafa fengist í þeirri útgáfu áður. Þar nefnum við fyrst Kolskegg, Skrögg, Iðu og Elsu auk Elliða sem er þegar kominn í fluguborðið í þremur litum. Allar þessar flugur eru eða verða til í þremur stærðum, 1", 1/2" og 1/4".Þessar flugur hafa aldrei áður verið til í þessum útgáfum eða stærðum og þær eru þegar byrjaðar að freista fiska og við höfðum af þeim vægast sagt góðar fréttir í vorveiðinni. Allar þessar flugur voru í tilraunaveiði í fyrra og var árangurinn vægast sagt frábær. Við hjá veiðibúðinni Kröflu erum mjög ánægð með að geta boðið viðskiptavinum okkar upp á þessar frábæru flugur í sumar.
Fleiri nýjar flugur má nefna. Við erum núna búin að setja í sölu silungafluguna Loðmund eftir Gylfa heitinn Kristjánsson. Fluguna hnýtti Gylfi fyrir all mörgum árum en hún var fyrst kynnt fyrir bleikjum í Loðmundarfirði með eftirminnilegum árangri. Loðmundur var í tilraunaveiði hjá okkur í fyrra og er afar skæð silungafluga. Einnig eru komnar nýjar þríkrækju flugur í fluguborðið okkar. Þar má nefna áðurnefnda Úu sem á örugglega eftir að reynast veiðimönnum vel í sumar.
Fluguborðið okkar er nú orðið 8 metra langt og er 75% stærra en það var í fyrra. Þeir sem séð hafa fullyrða að þetta sé glæsilegasta fluguborð landsins. Við skorum á áhugasama fluguveiðimenn að kíkja til okkar og skoða það sem í boði er. Einnig viljum við ítreka við fluguveiðimenn að varast lélegar eftirlíkingar af okkar flugum sem eru í sölu í flestum veiðiverslunum á höfuðborgarsvæðinu. Kröfluflugur eins og þær eiga að vera eru aðeins til hjá okkur í Veiðibúðinni Krafla, Höfðabakka 3. Við höfum undir höndum hroðaleg eintök af flugum okkar sem keypt hafa verið í öðrum veiðiverslunum og eru þessar flugur þeim sem þær selja til ævarandi skammar. Svo ekki sé minnst á vanvirðinguna sem höfundum flugnanna er sýnd. Nánar um það fljótlega hér á Krafla.is
Við munum innan skamms birta myndir af nýju flugunum okkar sem eru í lokavinnslu og um leið setja flugurnar í sölu í netverslun okkar á Krafla.is Einnig fréttir af mjög athyglisverðum vörum sem eru að koma í sölu í verslun okkar að Höfðabkka 3. Það er því vissara fyrir áhugasma fluguveiðimenn að fylgjast vel með gangi mála hér á Krafla.is á næstunni og í allt sumar.
Einnig munum við um helgina og á allra næstu dögum birta mjög athyglisverðar fréttir af flugumálum og birta myndir úr verslun okkar að Höfðabakka 3 sem er óðum að taka á sig endanlega mynd.