Tveir fyrstu laxar sumarsins í Þrastarlundi tóku báðir Kolskegg í gær
This entry was posted on 20. July 2011
.Tveir fyrstu laxar sumarsins veiddust í gær á svæðinu við Þrastarlund í Soginu. Ekki var sjáanlegur mikill lax í Þrastarlundi í gær en báðir laxarnir komu á land um morguninn.
,,Aðstæður til veiða voru frekar erfiðar, mikil birta og nánast stafalogn. Ég ákvað að byrja með Kolskegg og það var strax í þriðja kasti sem hann var tekinn af miklum áhuga. Reyndar var áhuginn svo mikill að Kolskeggurinn var magagleyptur," sagði Guðjón Gunnar Ögmundsson í gær.
Félagi hans fór með Kolskegginn skömmu síðar og eftir nokkur köst kom lax með miklum látum af fimm metra færi og negldi Kolskegginn með miklum látum. Laxarnir voru báðir grálúsugir, 6 og 7 pund. Skömmu eftir að sá síðari var kominn á land sást lax stökkva í Kúagilinu.
Við minnum veiðimenn á að Kolskeggur og aðrar Kröfluflugur eins og þær eiga að vera fást einungis í Veiðibúðinni Kröflu Höfðabakka 3. Við vörum veiðimenn við lélegum eftirlíkingum sem eru til sölu á einhverjum stöðum og oftar en ekki undir fölskum nöfnum.