Rosaleg ganga í Sogið og góð veiði á Selfossi
This entry was posted on 27. July 2011
.,,Þetta var rosaleg taka og ég hef aldrei áður séð magnaðri töku hjá laxi. Hann kom upp og sótti Kolskegginn með þvílíkum látum og hreinsaði sig síðan i beinu framhaldi. Þetta var hrikaleg sjón sem ég mun aldrei gleyma enda var laxinn mjög stór," sagði Þórir Traudstason en hann var ásamt félögum sínum við veiðar í Soginu um liðna helgi á Alviðru svæðinu.
Það var rosaleg ganga í Sogið þessa helgi og fiskur alls staðar. Þórir setti í þennan risafisk á Öldunni við brúna við Þrastarlund og við tók rosaleg barátta í 20 mínútur en þá sleit laxinn. ,,Það er erfitt að segja til um hve stór þessi fiskur var en hann var örugglega um meterinn," sagði Þórir.
Þeir félagarnir settu í um 30 laxa þessa helgi en takan var afar grönn og misstu þeir mjög marga. Aðeins náðu þeir 8 löxum á land. Allir komu laxarnir á Kröfluflugur en flestir tóku Skrögg. Sogið er því dottið í gírinn og verður fróðlegt að fylgjast með gangi mála þar á næstunni.
Mikil veiði hefur verið undanfarna daga í Ölfusá við Selfoss. Ljóst er að mikil ganga kom í ána um liðna helgi og víst að veiðimenn á veiðisvæðum á vatnasvæði Hvítár hugsa sér gott til glóðarinnar. Við flytjum ykkur nýjar fréttir af svæðinu ásamt myndum eftir verslunarmannahelgina.