Velkomin(n) á vefverslun Kröflu

Cart:

0 item(s) - 0 kr
Það eru engar vörur í körfunni þinni.

0

Þríkrækjan sat fremst í báðum skoltum og lokaði kjaftinum - Saga 28-30 pundarans í Aðaldal í smáatriðum

Björn Magnússon þreytir hrygnuna stóru á Spegilflúðinni.

Björn Magnússon þreytir hrygnuna stóru á Spegilflúðinni.

Tíðindin frá Laxá í Aðaldal á dögunum, þegar Björn Magnússon veiddi stærsta lax sumarsins til þessa og stærsta lax sem veiðst hefur á Íslandi í mörg herrans ár á Kolskegg keilutúpu frá Veiðibúðinni Kröflu, hafa vakið gríðarlega athygli meðal veiðimanna, en mismikla athygli meðal fjölmiðla, hver svo sem ástæðan er. Nánar um það síðar hér á Krafla.is

Laxinn sem Björn veiddi á veiðistaðnum Spegilflúð var 110 cm langur. Þetta var hrygna sem gerir laxinn mun áhugaverðari en ef hængur hefði verið hér á ferð. Hrygnur eru jafnan bústnari en hængar og þyngri miðað við lengd. Þannig sýnir viðmiðunartafla, sem ku vera ættuð frá Veiðimálastofnun, að hængur sem er 110 cm langur ,,á að vera 26 pund" . Hrygna í sömu lengd á samkvæmt mati margra sérfróðra manna að vera töluvert þyngri. Fróðustu spekingar á Laxársvæðinu vilja meina að 110 cm löng nýgengin hrygna sé aldrei minna en 28 pund og líklega nærri 30 pundum.

Áður en lengra er haldið viljum við segja frá því að veiðimaðurinn Björn Magnússon er bróður mágs undirritaðs og notaði við veiðarnar Echo 2 tvíhendu og hjól og línu sem hann fékk að láni hjá okkur í Veiðibúðinni Kröflu.

Björn Magnússon togast á við hrygnuna stóru.

Björn Magnússon togast á við hrygnuna stóru.

Röð atvika réði því að því miður náðist ekki mynd af þessari rosalegu hrygnu. Menn munu sakna þeirra mynda lengi og sárt en því verður ekki breytt að engin mynd var tekin af þessum risalaxi. Veiðimaðurinn og aðstoðarmaður hans, sem lentu í þessu mikla ævintýri, eru annálaðir heiðursmenn. Hinn almenni lesandi og veiðimaður verður hins vegar að gera það upp við sig hverju hann trúir eða trúir ekki í eftirfarandi frásögn.

Við tókum veiðimanninn, Björn Magnússon, tali þegar hann kom ,,til byggða" úr veiðitúrnum í Laxá í Aðaldal og fer spjall okkar hér á eftir.

,,Þetta var afar minnisstæður veiðitúr enda ekki á hverjum degi sem maður kemst í kynni við svona stórlaxa. Eftir að laxinn tók Kolskegg keilutúpuna varð mér strax ljóst að þetta var mjög stór lax. Fyrst hélt ég reynar að ég hefði fest í botni. Síðan fór botninn af stað. Laxinn var mjög þungur en mér fannst fljótlega frekar skrítið að laxinn var ekkert sérlega fjörugur. Mér fannst vanta þessi læti og hamagang sem oft einkennir slaginn við stóra laxa. Eftir mikla baráttu í um það bil tuttugu og fimm mínútur fannst mér mjög dregið af laxinum. Félagi minn, Hákon Ólafsson, lagði frá sér myndavélina eftir að hafa myndað mig við að þreyta laxinn og óð út í ána til að aðstoð mig við löndunina. Við vorum ekki með háf og það voru mjög mikil læti í gangi. Það gekk mikið á og Hákon missti símann sinn í ána ásamt einhverjum fluguboxum.  Að lokum náðum við að koma laxinum upp á bakkann og mæla hann og losa fluguna. Þá kom í ljós að þríkrækjan var á kafi í bæði efra og neðra skolti þannig að munnurinn á laxinum var lokaður allan tímann. Þar var þá komin skýringin á frekar stuttri viðureign við laxinn miðað við stærð hans," sagði Björn.

,,Þegar hér var komið sögu var farið að leita að myndavélinni. Hákon hafði lagt hana frá sér á árbakkanum um 30 metra frá löndunarstaðnum og fór að leita að myndavélinni. Fljótlega lét ég laxinn í ána og hélt honum þar í örugglega 15 mínútur á meðan Hákon leitaði að myndavélinni. Hún fannst ekki og með hverri mínútunni færðist meira líf í laxinn. Spennann var rosaleg og mér leist ekki á blikuna. Ég var mjög spenntur enda hef ég aldrei komist í kynni við svona skepnu. Að lokum var laxinn orðinn það fjörugur í höndunum á mér að mér fannst ekki forsvaranlegt að halda honum lengur. Þetta voru orðin töluverð átök og því sleppti ég honum á því augnabliki. Eftir á að hyggja má vel segja að það hafi verið mistök en mér fannst ég ekki geta haldið honum lengur," sagði Björn.

Þeir félagar leituðu myndavélarinnar lengi eftir löndunina og um 15 mínútum síðar fannst hún á árbakkanum.

Leave a Reply
© 2018 Skrautás Ehf. - Sími 6982844 - kt. 520799-2149 - vsk nr. 63003 [email protected] - Leiðhamrar 39 - 112 Reykjavík