,,Við vonumst svo sannarlega til að Veiðifélag Norðurár ræði við okkur," segir Bjarni Júlíusson
This entry was posted on 25. January 2013
.Tilboð hafa verið opnuð í Norðurá í Borgarfirði og bárust þrjú tilboð í ána. Tvö tilboðanna komu frá Stangaveiðifélagi Reykjavíkur og eitt tilboð frá ónefndum aðila sem Gestur Jónsson lögmður skrifaði undir.
Hæsta tilboðið var frá sölufyrirtæki Stangaveiðifélags Reykjvíkur, SVFR ehf. og hljóðaði það upp á 83,5 milljónir. Stangaveiðifélag Reykjavíkur var með tilboð upp á 76,5 milljónir. Þriðja tilboðið var afar undarlegt. Þar voru reifaðar ýmsar hugmyndir varðandi framtíð Norðurár en engar tölur nefndar.
Við höfum heimildir fyrir því að þessi niðurstaða úr útboðinu hafi komið stjórn Veiðifélags Norðurár í opna skjöldu og valdið henni og fleiri landeigendum við Norðurá gríðarlegum vonbrigðum. Það virðist nefnilega staðreynd að margir landeigendur og fulltrúar í Veiðifélagi Norðurár geri sér enga grein fyrir stöðu veiðileyfamarkaðarins í dag.
Við höfðum samband við Bjarna Júlíusson, formann SVFR og spurðum hann út í stöðuna í dag:
,,Við vonumst svo sannarlega til að Veiðifélag Norðurár ræði við okkur í kjölfar útboðsins. Við vissum auðvitað ekki hvað kæmi upp úr umslögunum, en það er ljóst að aðrir veiðileyfasalar eiga greinilega nóg með sitt. Við teljum Norðurá félaginu ákaflega mikilvæga og gerðum eins gott tilboð og við treystum okkur til. Ákváðum einfaldlega að bjóða á okkar forsendum og ef einhverjir aðrir teldu sig geta gert betur, þá yrði bara að hafa það! En vonandi getum við sest fljótlega niður með Veiðifélagi Norðurár og rætt framhaldið. Við erum búin að eiga samstarf í nærri 67 ár og ég vil sjá það verða að minnsta kosti 100 ára," sagði Bjarni í samtali við Krafla.is
- Af hverju var Stangaveiðifélag Reykjvíkur að senda inn tvö tilboð í Norðurá?
,,Það er aðeins blæbrigðamunur á tilboðunum tveimur. Við stöndum að sjálfsögðu við bæði tilboðin en helsti munurinn á þeim er að þau taka mið af mismunandi útfærslu húsaskosts. En ég ítreka að bæði eru þau í takt við útboðsgögn og eru gild tilboð."
- Nú er stjórn Veiðifélags Norðurár að hugsa næsta leik í stöðunni? Hvað mun gerast næst?
,,Ég trúi því ekki að þeir byrji á að tala við manninn með ógilda tilboðið! Það væri andstætt öllum leikreglum. Þeir eiga kost á að hafna öllum tilboðum, en það finnst mér langsótt. Eðlilegar leikreglur eru á þann veg að þeir ræði fyrst við aðilann sem var með besta tilboðið," sagði Bjarni Júlíusson.
Þessi staða sem komin er upp við Norðurá er merkileg fyrir margra hluta sakir. Það að enginn veiðileyfasali nema SVFR sendi inn tilboð í Norðurá endurspeglar stöðuna á veiðileyfamarkaðnum í dag. Rétt er að hrósa stjórn SVFR fyrir framgöngu hennar í útboðsmálunum. Félagið hélt sig við skynsamlegar og raunhæfar tölur og nú hefur það gerst að tölurnar í tilboðum SVFR í Norðurá hafa nú þegar sett ný viðmið á markaðnum og gefið tóninn. Ljóst er að leiguupphæðir í samningum sem gerðir verða vegna margra annarra áa á næstu misserum og árum munu lækka stórlega.
Við fylgjumst áfram með framvindu mála og flytjum ykkur nýjar fréttir um leið og þær berast okkur.