Velkomin(n) á vefverslun Kröflu

Cart:

0 item(s) - 0 kr
Það eru engar vörur í körfunni þinni.

0

Mikið ævintýri í Blöndunni - Fréttir héðan og þaðan

Veiðimaður sleppir laxi sem hann fékk í Soginu.

Veiðimaður sleppir laxi sem hann fékk í Soginu.

Veiðimaður sem var að veiða í Blöndu nýverið lenti í miklu ævintýri á Breiðunni á neðsta svæði árinnar. Veiðimaðurinn hafði gert stutt hlé á veiðiskapnum og lafði taumendinn niður í ána og flugan þar skammt frá á taumendnum. Engum togum skipti að lax réðst á fluguna sem var Kröfluflugan Iða sem þung keilutúpa.

Upphófst nú mikið ævintýri og varð úr mikil skemmtun fyrir viðstadda enda kostulegt að sjá veiðimanninn reyna að þreyta laxinn á taumnum einum saman. Synti laxinn ótt og títt í kringum veiðimanninn og höfðu viðstaddir af þessu mikla ánægju. Að lokum náði veiðimaðurinn að komast í eðlilegt samband við laxinn og landaði honum með hefðbundnum hætti skömmu síðar. Að sögn Höskuldar Erlingssonar leiðsögumanns í Blöndu er Iða mjög sterk fluga í Blöndu og einkum þegar líður á sumarið. ,,Þá svínvirkar hún hér og skilar mönnum mjög góðri veiði," sagði Höskuldur. Iðuna og aðrar Kröfluflugur fá veiðimenn aðeins í Veiðibúðinni Kröflu, Höfðabakka 3.

Holl sem var við veiðar við Iðu í tvo og hálfan dag og lauk veiðum sl. mánudagskvöld landaði 8 löxum og var laxinn frekar tregur. Mikil hlýindi hafa dregið mjög úr veiði við Iðu síðustu daga og þess má geta að vatnshitinn í Stóru Laxá var 21 gráða sl. laugardag. Þann dag kom einn fiskur á land við Iðu. 101 lax hefur verið færður í veiðibókina í veiðihúsinu þannig að líkast til eru komnir um 200 laxar á land á svæðinu það sem af er sumri.

Veiðin í Flókadalsá í Borgarfirði er dottin niður og nokkuð er síðan að reyndir veiðimenn við ána greindu að laxagöngum væri nánast lokið þetta sumarið. Laxinn gekk mjög snemma í Flóku í sumar og erlendir veiðimenn sem voru við veiðar þar um miðjan júlí fengu 99 laxa. Þá þegar var greinilegt að göngur voru mjög minnkandi og ekki bættist lengur við nýr lax í ána. Næsta holl fékk enda aðeins 22 laxa sem er ekki góð veiði á þessum tíma sumars. Ljóst er þó að veiðin í Flóku verður mun betri í sumar en í fyrra þegar hún var reyndar afar léleg.

Enn er að veiðast vel í netalagnir í Hvítá og þegar við sáum menn vitja fyrir nokkrum dögum síðan við Laugardæli í tvær lagnir var spriklandi lax um öll netin. Sorglegt að horfa á þessar netaveiðar en því miður virðist engin leið að stöðv þessar veiðar og samstaðan um slíkar aðgerðir engin.

Veiði er að glæðast í Soginu og við erum með nýja frétt í vinnslu um Sogið og segjum þar frá veiðimönnum sem hreinlega mokveiddu í Soginu fyrir nokkrum dögum. Fréttin er væntanleg hér á Krafla.is mjög fljótlega.


Leave a Reply
© 2018 Skrautás Ehf. - Sími 6982844 - kt. 520799-2149 - vsk nr. 63003 [email protected] - Leiðhamrar 39 - 112 Reykjavík