Velkomin(n) á vefverslun Kröflu

Cart:

0 item(s) - 0 kr
Það eru engar vörur í körfunni þinni.

0

Monthly Archives: July 2013

  • Mikið ævintýri í Blöndunni - Fréttir héðan og þaðan

    Veiðimaður sleppir laxi sem hann fékk í Soginu.

    Veiðimaður sleppir laxi sem hann fékk í Soginu.

    Veiðimaður sem var að veiða í Blöndu nýverið lenti í miklu ævintýri á Breiðunni á neðsta svæði árinnar. Veiðimaðurinn hafði gert stutt hlé á veiðiskapnum og lafði taumendinn niður í ána og flugan þar skammt frá á taumendnum. Engum togum skipti að lax réðst á fluguna sem var Kröfluflugan Iða sem þung keilutúpa.

    Upphófst nú mikið ævintýri og varð úr mikil skemmtun fyrir viðstadda enda kostulegt að sjá veiðimanninn reyna að þreyta laxinn á taumnum einum saman. Synti laxinn ótt og títt í kringum veiðimanninn og höfðu viðstaddir af þessu mikla ánægju. Að lokum náði veiðimaðurinn að komast í eðlilegt samband við laxinn og landaði honum með hefðbundnum hætti skömmu síðar. Að sögn Höskuldar Erlingssonar leiðsögumanns í Blöndu er Iða mjög sterk fluga í Blöndu og einkum þegar líður á sumarið. ,,Þá svínvirkar hún hér og skilar mönnum mjög góðri veiði," sagði Höskuldur. Iðuna og aðrar Kröfluflugur fá veiðimenn aðeins í Veiðibúðinni Kröflu, Höfðabakka 3.

    Holl sem var við veiðar við Iðu í tvo og hálfan dag og lauk veiðum sl. mánudagskvöld landaði 8 löxum og var laxinn frekar tregur. Mikil hlýindi hafa dregið mjög úr veiði við Iðu síðustu daga og þess má geta að vatnshitinn í Stóru Laxá var 21 gráða sl. laugardag. Þann dag kom einn fiskur á land við Iðu. 101 lax hefur verið færður í veiðibókina í veiðihúsinu þannig að líkast til eru komnir um 200 laxar á land á svæðinu það sem af er sumri.

    Veiðin í Flókadalsá í Borgarfirði er dottin niður og nokkuð er síðan að reyndir veiðimenn við ána greindu að laxagöngum væri nánast lokið þetta sumarið. Laxinn gekk mjög snemma í Flóku í sumar og erlendir veiðimenn sem voru við veiðar þar um miðjan júlí fengu 99 laxa. Þá þegar var greinilegt að göngur voru mjög minnkandi og ekki bættist lengur við nýr lax í ána. Næsta holl fékk enda aðeins 22 laxa sem er ekki góð veiði á þessum tíma sumars. Ljóst er þó að veiðin í Flóku verður mun betri í sumar en í fyrra þegar hún var reyndar afar léleg.

    Enn er að veiðast vel í netalagnir í Hvítá og þegar við sáum menn vitja fyrir nokkrum dögum síðan við Laugardæli í tvær lagnir var spriklandi lax um öll netin. Sorglegt að horfa á þessar netaveiðar en því miður virðist engin leið að stöðv þessar veiðar og samstaðan um slíkar aðgerðir engin.

    Veiði er að glæðast í Soginu og við erum með nýja frétt í vinnslu um Sogið og segjum þar frá veiðimönnum sem hreinlega mokveiddu í Soginu fyrir nokkrum dögum. Fréttin er væntanleg hér á Krafla.is mjög fljótlega.


  • Sá stærsti í Jöklunni í sumar tók Ólsen Ólsen

    Ólsen Ólsen er falleg og gjöful fluga og skilar veiðimönnum gjarnan góðum árangri.

    Ólsen Ólsen er falleg og gjöful fluga og skilar veiðimönnum gjarnan góðum árangri.

    Við vorum að fá fréttir af því að öflug veiðikona frá Reykjavík hefði sett í og landað stærsta laxi sumarsins til þessa á Jöklusvæðinu um síðustu helgi. Veiddist laxinn í Jöklu sjálfri.

    Laxinn var 88 cm og 16 pund og tók laxinn Kröflufluguna Ólsen Ólsen sem oft hefur gefið þeim veiðimönnum sem hafa reynt hana stóra laxa. Veiði er eitthvað að braggast á Jöklusvæðinu eftir rólega byrjun en mikil hlýindi og leysingar hafa gert veiðimönnum afar erfitt fyrir.

    Til gamans má geta þess að það var eiginmaður umræddrar konu sem brá sér í Veiðibúðina Kröflu fyrir veiðitúrinn á Jöklusvæðið og keypti hjá okkur flugur. Við laumuðum Ólsen Ólsen túpunni með í pokann sem kaupbæti, eins og við gerum gjarnan, með þessum afar skemmtilega árangri.

  • Frábær veiði á Kröflufluguna Kolskegg í Blöndu

    ,,Það er mjög góður gangur í veiðinni í Blöndu og svakalega mikið líf á neðsta svæðinu. Ég hef aldrei áður séð svona mikið líf á Breiðunni og menn eru að fá mjög góða veiði," sagði Höskuldur Erlingsson leiðsögumaður við Blöndu í samtali við Krafla.is núna rétt áðan.

    ,,Það voru menn að hætta núna eftir tvo daga og þeir fengu rúmlega 40 laxa. Tæplega helmingurinn af þeim kom á flugu, 14 laxar og af þessum 14 komu 8 laxar á Kolskegg sem er hreinlega frábær fluga hér sem annars staðar og í miklu uppáhaldi hjá mér og mörgum fleirum. Ég nota mikið Kolskegginn og auðvitað eingöngu frá ykkur í Veiðibúðinni Kröflu. Ég nota hann í öllum útgáfum og hann er að gefa mér svakalega fína veiði, sérstaklega

    Gylfi Kristjánsson með glæsilegan 13 punda Maríulax sem hann veiddi á þunga Kolskegg túpu í Blöndu.

    Gylfi Kristjánsson með glæsilegan 13 punda Maríulax sem hann veiddi á þunga Kolskegg túpu í Blöndu.

    þyngdu útgáfurnar. Einnig nota ég líka flottúpuna mikið með sökktaumum í mismunandi sökkhraða og svo er Kolskeggurinn með keilunni einnig mjög öflugur," sagði Höskuldur.

    Við minnum veiðimenn á að Kolskegginn er einungis hægt að fá í Veiðibúðinni Kröflu, Höfðabakka 3.

  • Hljóp á milli manna og ,,reddaði" 5 löxum í lokin

    Fallegur smálax á bakkanum við Hítará. Laxinn tók svarta Kröflu.

    Fallegur smálax á bakkanum við Hítará. Laxinn tók svarta Kröflu.

    ,,Þetta var skemmtilegt þarna í lokin. Það var búið að vera frekar rólegt og langmest af fiski á neðsta svæðinu við veiðihúsið. Síðasta morguninn var ákveðið að skipta neðsta svæðinu jafnt milli manna og síðasta klukkutímann eða svo voru tvær stangir á neðsta svæðinu. Sá klukkutími var mjög skemmtilegur hjá þessum veiðimönnum," sagði heimildamaður okkar sem var við veiðar í Hítará fyrir nokkru.

    Erlendu veiðimennirnir sem hér um ræðir voru með sínar eigin flugur. Aðkomumaður lumaði hins vegar á Kolskegg í sínum fórum og að sjálfsögðu frá Veiðibúðinni Kröflu. Eftir að hafa hnýtt Kolskegginn á taumendann hjá öðrum þeirra greip hana lax í fyrsta kasti með miklum látum eins og venjulega. Þá þegar tók aðstoðarmaðurinn til fótanna til félaga síns í næsta hyl fyrir neðan og sama sagan endurtók sig þar. Kolskeggurinn hnýttur á taumendann og fallegum lúsugum laxi landað skömmu síðar. Þegar upp var staðið voru félagarnir búnir að fá 5 laxa á Kolskegginn og það voru ánægðir veiðimenn sem kvöddu Hítará þennan daginn og ekki í fyrsta skipti sem Kolskeggur bjargar veiðitúrum hjá veiðimönnum. Um það gætum við nú orðið skrifað margar greinar en látum þessa nægja í bili.

Hlutur 1 til 4 af 7

Síða:
  1. 1
  2. 2
© 2018 Skrautás Ehf. - Sími 6982844 - kt. 520799-2149 - vsk nr. 63003 [email protected] - Leiðhamrar 39 - 112 Reykjavík