Fréttir - Krafla.is
-
Miklar breytingar fyrirhugaðar á veiðisvæðinu við Iðu - garðurinn hverfur jafnvel fyrir sumarið
Garðurinn sem reistur var því miður fyrir mörgum árum. Nú eru dagar hans senn taldir og mun jafnvel hverfa fyrir komandi veiðitímabil.
Samningar eru nánast í höfn á milli veiðirétthafa við Iðu í Biskupstungum um gríðarlegar breytingar á veiðisvæðinu sem miða að því að beina farvegum Hvítár og Stóru Laxár í gamla farveginn sem þornaði upp í kjölfar þess að reistur var mikill varnargarður út í Stóru Laxá efst á veiðisvæðinu við Iðu. Þá færðist farvegur Sóru Laxár langt frá bakkanum og gamla góða veiðisvæðið eyðilagðist samstundis og er nú auð sandeyri. Er í dag ekið á bifreiðum yfir gamla veiðisvæðið þegar farið er á núverandi svæði.
Veiðiréttur við Iðu er í höndum eigenda á Iðu 1 og Iðu 2. Þessir aðilar eru ákveðnir í að taka grjótgarðinn sem ráðist var í að gera fyrir áratugum. Þetta hefur verið rætt manna á meðal árum saman en ekkert verið aðhafst fyrr en nú að ákveðið er að ráðist verði í það verkefni að taka garðinn. Áður en það verður gert verður farið með stórvirkar vinnuvélar og búin til rás fyrir Stóru Laxá niður gamla svæðið og mun það án efa flýta því að gamla svæðið myndist á ný. Stóra Laxá grafi sér þá farveg við háa grasbakkann eða nágrenni hans og Hvítá komi til móts við hana þar fyrir utan.
,,Það er ekkert því til fyrirstöðu að hefjast handa. Öll leyfi eru til staðar og ekki eftir neinu að bíða enda allir sem nálægt Iðu koma sammála um að sjálfsagt sé að taka garðinn og koma ánum aftur í sinn gamla farveg. Ég get ekki séð neitt sem ætti að geta komið í veg fyrir að þetta verði gert áður en veiðitímabilið byrjar í sumar," sagði Birgir Sumarliðason í samtali við Krafla.is en hann hefur unnið ötullega í málinu fyrir veiðiréttareigendur ásamt Helga Ágústssyni, fyrrverandi sendiherra.
Veiðisvæðið við Iðu. Veiðimenn veiða í dag frá stóru eyrinni sem ber í trjátoppinn. Þar fyrir ofan er garðurinn sem mun hverfa fljótlega og þá færist veiðisvæðið væntanlega inn fyrir stóru eyrina á ný.
Landeigendur í Laugarási, gegnt veiðisvæðinu við Iðu, hafa lengi haft af því miklar áhyggjur að Hvítá sé að sækja mjög að heitum hverum á landi þeirra og að heita vatnið sé í stórhættu. Þeir tóku því fegins hendi boði veiðiréttarhafa við Iðu þess efnis að öllu grjótinu úr garðinum í Stóru Laxá yrði ekið í Hvítá fyrir landi Laugaráss á því svæði sem húm sameinast Stóru Laxá. Myndi það líkast til hafa í för með sér að breytingar á Iðusvæðinu myndu ganga mun hraðar fyrir sig en ella og Hvítá verða mun öflugri liðsmaður Stóru Laxár í því að vinna sig í gegnum gamla farveginn á ný.
Afar fróðlegt verður að fylgjast með framgangi mála við Iðu næstu vikurnar. Er vonandi að nú verði hendur látnar standa fram úr ermum og eitthvað gert í málunum. Verður þá mjög forvitnilegt að sjá hvernig veiðisvæðið mun líta út í sumar en reikna má með gríðarlegum breytingum strax í kjölfar þess að garðurinn hverfur á braut, mörgum veiðimanninum til mikillar ánægju.
Við munum fylgjast með og greina frá gangi mála hér á Krafla.is
-
Frábær veiði í Vatnamótum - fékk 7 af 10 á Kröfluflugur
Georg Garðarsson með glæsilegan sjóbirting sem hann fékk á Krafla Eldur, tommulanga keilutúpu.
,,Þetta var hrikalega skemmtileg veiðiferð. Við fengum 52 fiska og ef veðrið hefði verið betra hefðum við fengið mun meira," sagði Georg Garðarsson en hann var ásamt félögum sínum í opnunarhollinu í Vatnamótum í Skaftafellssýslu.
,,Ég fékk 4 fiska á Ólsen Ólsen og 3 á aðrar flugur frá Kröflu. Það var mikið fjör þarna þegar veðrið var í lagi og um tíma vorum við fjórir með fiska á í einu. Við veiddum föstudaginn 1. apríl og til hádegis á laugardeginum. Margir fiskarnir voru vænir og birtingarnir mjög vel haldnir," sagði Georg ennfremur.
Ólsen Ólsen túpan á réttum stað í fallegum spikfeitum birtingi.
Það var fjör í opnun Vatnamótanna. Hér eru þrjár stangir bognar.
-
Ágætt kropp í Húseyjarkvísl - Kröfluflugurnar stóðu sig frábærlega í birtingnum
Sævar Örn Hafsteinsson með gullfallegan sjóbirting sem tók Krókinn í Húseyjarkvísl um helgina.
,,Þetta hefur verið ágætt kropp en oft höfum við veitt miklu meira í Húseyjarkvísl. Við fengum nokkra mjög skemmtilega fiska en enga mjög stóra, það var enginn yfir 10 pundum," sagði Sævar Örn Hafsteinsson en félagar í Mokveiðifélaginu opnuðu Húseyjarkvísl um helgina.
Það viðraði sæmilega á föstudeginum, 1. apríl, en síðan fór kólnandi. ,,Enn og aftur voru Kröfluflugurnar að virka frábærlega. Við fengum fiska á Grýlu, Iðu, Kolskegg, bláa Kröflu, Skrögg og Krókinn svo einhverjar séu nefndar," sagði Sævar Örn.
Víða hefur sjóbirtingsveiði verið með miklum ágætum og nokkuð um fallega geldfiska. Þar má nefna Tungufljót og Vatnamótin. Vonandi hafa veiðimenn verið duglegir við að sleppa veiddum fiskum enda engin ástæða til að hirða fiska sem veiðast í vorveiði.
Krókurinn pikkfastur á góðum stað.
Þorsteinn Guðmundsson fékk þennan fallega birting á bláa Kröflu í Húseyjarkvísl um helgina.
-
Margar nýjar flugur í sumar og miklar breytingar á veiðibúðinni Höfðabakka 3
Veiðibúðin Krafla, Höfðabakka 3.
Veiðimenn eru orðnir frekar óþolinmóðir enda vorlykt í lofti og fyrstu farfuglarnir þegar lentir á Íslandi. Við hjá Veiðibúðinni Kröflu, Höfðabakka 3, höfum staðið í ströngu í vetur við að verða okkur út um góðar vörur fyrir sumarið og munum eftir sem áður stefna að því að gera sem allra best við okkar viðskiptavini, bæði hvað gæði og þjónustu varðar.
Hvað flugurnar varðar þá aukum við enn úrvalið og fluguborð okkar mun stækka um 33% á næstu dögum og var það að okkar mati mjög veglegt fyrir. Nýjar flugur eru væntanlegar og aðrar vinsælar flugur frá okkur í nýjum búningi. Viljum við geta þess sérstaklega að þær flugur okkar sem koma nýjar í verslun okkar fyrir sumarið hafa þegar verið reyndar í ám hér á landi af nokkrum hópi veiðimanna. Það gerðist síðasta sumar og var árangurinn vægast sagt magnaður. Við munum á næstunni segja frá þessum prófunum í máli og myndum og hvetjum við veiðimenn til að fylgjast með hér á Krafla.is
Við munum á næstunni greina frá nýungum okkar fyrir veiðisumarið. Á meðal þess sem við kynnum nýtt til sögunnar eru tvær nýjar flugur eftir Gylfa heitinn Kristjánsson. Báðar flugurnar hafa reynst frábærlega í silungsveiði og alls ekki síður en þær flugur sem við erum með í sölu eftir Gylfa í dag. Þær eru nokkuð frábrugðnar fyrri flugum Gylfa og reiknum við með að frumsýna þær hjá okkur fljótlega. Þá munum við fá margar nýjar útfærslur af ýmsum flugum eftir Kristján Gíslason og Stefán Kristjánsson og eina flugu alveg nýja sem gaf mönnum feiknagóða veiði hér á árum áður.
Þá erum við að vinna að ýmsum nýungum í flugumálum og er víst að þær eiga eftir að koma mörgum verulega á óvart.
Við erum að vinna að miklum breytingum á verslun okkar að Höfðabakka 3 og verður verslunin komin í endanlegt útlit fyrir laxveiðivertíðina. Við munum segja nánar frá þessu á næstu dögum.