Fréttir - Krafla.is
-
Nokkrir góðir dagar lausir í Djúpadalsá í sumar
Nokkrir dagar eru lausir í Djúpadalsá í sumar en Djúpadalsá er skemmtileg og falleg bleikjuveiðiá með góðri laxavon í Reykhólasveit. Í fyrra veiddust í ánni 660 bleikjur og 35 laxar.
Dagarnir sem eru lausir eru þessir: 27.-29. júlí, 23.-25. ágúst, 25.-27. og 29.-31. ágúst.
Allar nánari upplýsingar eru gefnar hjá [email protected] og í síma 698-2844. Þá bendum við á að allar upplýsingar um ána er að finna hér til hliðar undir Djúpadalsá.
-
Fréttir héðan og þaðan - Kröfluflugur að gefa góða veiði um allt land
Eftir að við fluttum í nýja húsnæðið okkar að Höfðabakka 3 hefur sögum af mikilli veiði á okkar flugur fjölgað mjög. Hjá okkur í Höfðabakka 3 eru sagðar margar veiðisögur dag hvern á meðan veiðimenn fá sér nýlagað kaffi og kex af bestu gerð þegar best lætur. Ekki er leiðinlegt að greina frá heimsóknum tveggja fyrrum formanna Stangaveiðifélsgs Reykjavíkur í okkar verslun. Hér tölum við um Bjarna Júlíusson og Friðrik Þ. Stefánsson og vildu báðir óska okkur góðs gengis í baráttunni. Þökkum við fyrir það. Báðir hafa veitt vel á okkar flugur og ekki síður synir þessara merkismanna sem eru aflaklær miklar þrátt fyrir ungan aldur. Er skemmst að minnast þess að Elvar Örn Friðriksson fékk 23ja punda hæng á Skrögg long wing flottúpu á dögunum á Nessvæðinu. Júlíus Bjarnason hefur einnig veitt vel á okkar flugur.
Veiði hefur verið mjög góð í Miðfjarðará undanfarið. Til okkar kom snjall fluguveiðimaður sem hafði lent í magnaðri veiði síðasta morguninn í hans veiðitúr fyrir nokkrum dögum í Miðfjarðará. Okkar maður var ekki búinn að fá mjög marga laxa en ákvað síðasta morguninn að gefa Kolskegg long wing góðan séns. Á hádegi, klukkan tólf, var okkar maður búinn að fá nóg. Hann setti í 8 laxa á Kolskegginn og náði 6. ,,Kolskeggur er alveg mögnuð fluga. Ég er enn alveg rasandi yfir því sem þessi fluga gerði fyrir mig þennan síðasta morgun í Miðfjarðará. Og ég var ekki síst hissa á því að Kolskeggurinn var að virka svona svakalega þegar aðrar flugur voru ekki að gefa neina veiði. Núna er ég að fara í Hofsá og þangað fer ég ekki nema að hafa nóg meðferðis af flugunum frá Krafla.is" , sagði veiðimaðurinn er hann lagði í hann austur á land.
Hér er mögnuð saga frá veiðitúr veiðifélaga í veiðihópi einum á dögunum. Ferðinni var heitið í á norður í landi. Félagar í veiðihópnum hafa veitt mjög vel á ýmsar flugur frá okkur á Krafla.is undanfarin ár og með í för var landsfrægur skemmtikraftur og átti hann nú loksins að kynnast þessum gullmola norðursins fyrir alvöru. Skemmtikrafturinn var með í farteski sínu aðrar flugur en þorri félaga í veiðihópnum. Þrjóskaðist hann lengi við og var staðan þannig þegar kom að lokum veiðitúrsins að skemmtikrafturinn var fisklaus. Nýja flugan Avatar var aðalvopn skemmtikraftsins en hafði alls ekki virkað þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Aðrar flugur skemmtikraftarins voru alls ekki að skila árangri. Það var svo um það leyti að menn voru að huga að heimför að skemmtikrafturinn lét loks undan og hnýtti Kolskegg long wing flottúpu á taumendann. Til að gera langa sögu stutta þá fór skemmtikrafturinn heim stuttu síðar með lax i skottinu. Kolskeggur hafði bjargað enn einum veiðitúrnum.
,,Ég lagði leið mína í netverslun Krafla.is í Höfðabakka 3 fyrir veiðitúrinn framundan sem var í Svalbarðsá í Þistilfirði. Aðallega til að svala forvitni minni sem voru engin takmörk sett. Til að gera langa sögu stutta þá fékk ég 4 laxa á flugurnar sem ég hafði keypt hjá Krafla.is og ég missti mjög marga laxa. Hollið fékk 12 laxa þannig að ég var í sjöunda himni. Kolskeggur og Iða voru að svínvirka og þegar stóru útgáfurnar voru ekki að gera sig setti ég undir míkró útgáfu af Iðu gárutúpunni. Þá skellti sér á hana stórlax. Hann reif út alla flugulínuna og ég mátti hlaupa á eftir honum langt niður eftir ánni. Löngu neðar stökk fiskurinn með miklum tilþrifum og skilaði litlu gárutúpunni. Þrátt fyrir þessi endalok var ég ánægður með það sem litla Iðan gerði fyrir mig. Þetta eru frábærar flugur."
Við erum að vinna nýja frétt þar sem Iða sem long wing flottúpa kemur mikið við sögu. Sjón er sögu ríkari hér á Krafla.is fljótlega.
-
Elvar Örn rauf múrinn - 23 punda tröll tók Skrögginn í Kirkjuhólmakvíslinni
,,Þetta var alveg ógeðslega gaman. Ég var búinn að sjá að hann hafði mikinn áhuga á flugunni. Hann var búinn að koma 4-5 sinnum á eftir Skröggnum og sýna honum mjög mikinn áhuga. Ég hélt mínu striki, kastaði alltaf eins og þar kom að hann réðst á Skrögginn og var fastur," sagði Elvar Örn Friðriksson, sem veiddi 23 punda lax á Skrögg Long wing flottúpu í Laxá í Aðaldal um liðna helgi.
Þetta var tímamótafiskur hjá þessum unga og snjalla veiðimanni, sem segja má að hafi alist upp á bökkum Norðurár undir öruggu eftirliti föðurins, Friðriks Þ. Stefánssonar, fyrrverandi formanns Stangaveiðifgélags Reykjavíkur. ,,Ég notaði tommulanga Skrögg flottúpuna sem gárutúpu og það var mjög flott að sjá þegar hann tók fluguna. Strax á eftir tók hann 3-4 mjög ákveðnar rokur og ég réð ekki neitt við neitt. Viðureignin tók rúmar 30 mínútur og það var mjög notaleg tilfinning að sjá tröllið í háfnum hjá Júlíusi Bjarnasyni sem aðstoðaði mig við löndunina. Hængurinn var 102 cm langur og vigtaður 23 pund," sagði Elvar Örn
Elvar Örn fékk annan lax á Skrögg á Nessvæðinu, 11 punda lax. ,,Það er samdóma álit manna hér að mun meira sé hér af stórlaxi núna en áður. Heimamenn segja að ekki hafi sést meira magn af stórlaxi í 30 ár," sagði Elvar Örn.
Flottúpurnar okkar á Krafla.is eru að slá í gegn. Við vitum af veiðimönnum sem eru að veiða vel á flottúpurnar og aðrar flugur frá okkur í Húseyjarkvísl þessa dagana og einnig höfum við heyrt af mikilli veiði í Norðurá undanfarna daga á Kolskegg.
-
Long Wing flottúpurnar Iða, Kolskeggur og Skröggur að slá í gegn í Húseyjarkvísl - misstu risafisk á Skrögg
,,Þetta er búið að vera frábært og long wing flottúpurnar ykkar á Krafla.is eru heldur betur búnar að slá í gegn hér. Til þessa höfum við verið að veiða mest á Kolskegg og Skrögg en núna í morgun var það Iða sem sló öllum öðrum flugum við og fengum við 4 fallega laxa á Iðu flottúpuna í morgun, alveg upp í 90 cm fiska. Við erum búnir að sannreyna það hér að Iðan er rosalega sterk fluga og verður örugglega meira reynd í framtíðinni en hingað til," sagði Sævar Hafsteinsson í samtali við Krafla.is nú í hádeginu, en hann og félagar hans í Mokveiðifélaginu eru nú við veiðar í Húseyjarkvísl.
Þeir félagar í Mokveiðifélaginu hófu veiðar í Húseyjarkvísl seinni partinn í gær og voru í hádeginu í dag komnir með 7 laxa. 4 tóku Iðu og 3 fengust á Kolskegg.
Húseyjarkvísl í Skagafirði hefur verið að gefa ágæta veiði undanfarið og þar er útlit bjart eins og víða annars staðar. Holl, sem tók við á hádegi í gær, ,,skannaði" veiðisvæðið í gær og útkoman var einföld. Lax er mættur í alla veiðistaði í Húseyjarkvísl og þar er að finna verulega væna laxa.
Þorsteinn Guðmundsson setti í mikið tröll i gær og var það samdóma álit viðstaddra að þar hafi verið roskinn tuttugupundari á ferð. Eftir nokkra glímu losnaði úr tröllinu og veiðimenn voru bjartsýnir á framhaldið. Tveir laxar komu á land í Húseyjarkvísl í gær og tóku báðir Kolskegg Long wing flottúpu.
Við munum fylgjast með og birta nýjar fréttir í kvöld hér á Krafla.is og myndir líka. Og á morgun er búið að lofa okkur myndum af 23 punda tröllinu sem Elvar Örn veiddi á Skrögg í Laxá í Aðaldal.