Fréttir - Krafla.is
-
Krafla Eldur og Skröggurinn skiluðu stórum fiskum og mörgum í Húseyjarkvísl
Holl sem lauk veiðum í Húseyjarkvísl í Skagafirði á hádegi í gær náði 11 löxum og álíka mörgum sjóbirtingum þrátt fyrir mjög erfiðar aðstæður. Mikið rok og norðan kuldi gerðu veiðimönum lífið leitt en hér voru kunnigir menn í Mokveiðifélaginu á ferð
,,Ef við hefðum ekki verið mjög duglegir og með frábærar flugur meðferðis þá hefðum við ekki náð þessum fiskum. Við fengum þetta nánast allt á Kröflutúpur og síðan var Skröggurinn Long Wing að gefa mjög vel. Það er greinilegt að sú fluga gefur Kolskegg ekkert eftir," sagði Sævar Örn Hafsteinsson í samtali við Krafla.is
Nánari fréttir og myndir frá veiðitúrnum má sjá á www.veidimenn.com
-
6 laxar á Iðu í gær og allir á Kröflur - 2 laxar í Húseyjarkvísl í gær á Kröflu og Kolskegg
Við heyrðum í gærkvöldi að veiðitíma loknum af ferðum veiðimanna á tveimur veiðisvæðum sem hafa verið að gefa góða veiði í sumar. Og þar hafa Kröfluflugur verið að gera góða hluti.
Þriggja stanga holl við Iðu sem lauk veiðum á hádegi í gær fékk 6 laxa. Hollið var við veiðar seinni part fimmtudags og fyrri part föstudags. Nokkuð sást af laxi á svæðinu en flestir voru utan kastfæris, langt úti í jökli. Allir laxarnir sem náðust tóku Kröflur í ýmsum stærðum og litum. Og nánast allir laxarnir tóku á sama blettinum, skáhalt upp af stólunum. Þetta skilja vanir menn við Iðu.
Við heyrðum einnig í veiðimönnum í gærkvöldi sem voru við veiðar í Húseyjarkvísl og eru mjög kunnugir á þeim slóðum.
Þeir höfðu aðeins veitt seinni part föstudags og eiga að ljúka veiði á hádegi á mánudag. ,,Þetta voru mjög erfiðar aðstæður í dag. Mikið rok og aðeins 6 stiga hiti. Þetta eru ekki kjöraðstæður en við náðum samt tveimur löxum. Annar tók Kolskegg og hinn Kröflu Eld. Við erum að vona að aðstæður lagist og þá mun þetta ganga betur," sagði heimildamaður okkar við Húseyjarkvísl í gærkvöldi. Við munum fylgjast með og birta hér nýjar fréttir um leið og þær berast okkur.
-
Á eftir Maríulaxinum negldi 12 pundari orange Kröfluna í fyrsta kasti
,,Þetta var mjög skemmtilegt. Ég var lengi að ákveða hvaða flugu ég ætlaði að byrja með en á endanum var það Kolskeggur sem fór á taumendann. Eftir nokkur köst var lax búinn að taka Kolskegginn en hann slapp. Skömmu síðar tók 6 punda lax og viðureignin var mjög skemmtileg,"" sagði Hilmir Jensson í samtali við Krafla.is en hann var á dögunum við veiðar í Eystri Rangá og upplifði eftirminnilegan dag.
Aðstæður hjá Hilmi og félögum voru nokkuð erfiðar, mikið rok en undir kvöldið var veður orðið skaplegt. ,,Ég hafði séð nokkra laxa og auðvitað langaði mig mikið í annan alx. Það var skammt eftir af veiðitímanum þegar ég ákvað að setja ,,aggresívustu" Kröfluna sem ég var með í boxinu á tauminn. Tommulöng orange Krafla varð fyrir valinu og laxinn negldi hana í fyrsta kasti. Þetta var rosalega skemmtileg viðureign og þessi dagur verður mér auðvitað lengi minnisstæður. Og ekki skemmdi fyrir að þetta var stærsti laxinn úr Rangánni þennan daginn," sagði Hilmir Jensson.
-
Fékk nokkra sjóbirtinga og 9 punda lax á Kolskegginn - Fréttir héðan og þaðan
,,Það má með sanni segja að flugurnar frá Krafla.is hafi svo sannarlega slegið í gegn í sumar, í það minnsta hefur undirritaður tekið miklu ástfóstri við þær enda hafa þær sannað sig sem afar sterkar og gjöfular flugur," sagði Steinar Guðmundsson en hann hefur veitt vel á flugurnar frá okkur á Krafla.is í sumar.
Steinar fékk nokkra sjóbirtinga, staðbundinn urriða og 9 punda lax á dögunum er hann var við veiðar í Eldvatni austur undir Kirkjubæjarklaustri. ,,Viðureignin við laxinn var afar skemmtileg og takan var ekki síðri. Sannaðist þar einu sinni enn hve flugur Kristjáns Gíslasonar eru sterkar í sjóbirtingi.
Við höfðum spurnir af norskum veiðimönnum sem voru á dögunum við veiðar í Rangánum. Veiddu þeir vel í fyrra en komu við hjá okkur á Krafla.is fyrir túrinn skömmu áður en þeir lögðu í hann austur fyrir fjall. Er skemmst frá því að segja að Norðmennirnir veiddu fimm sinnum meira núna en í fyrra. Helmingur laxanna kom á spón en allir flugulaxarnir á Kröfluflugur af ýmsum stærðum og gerðum.
Í sumar höfum við heyrt hreint magnaðar sögur af flugum okkar frá veiðimönnum sem þær hafa reynt. Höfum við meðal annars verið að heyra svakalegar sögur af flottúpunum Kolskeggi, Skröggi og Iðu. Sumar þessar lýsingar eru alveg magnaðar og margir sem trúa þeim mátulega. Við getum sagt frá stjórnarmani í SVFR sem leit við hjá okkur á dögunum er hann var á leið í Norðurá. Hlustaði hann á sögur af Kolskeggi og var greinilegt að honum fannst alveg nóg um. Við hjá Krafla.is báðum veiðimanninn að hringja í okkur þegar sá fyrsti væri kominn á land. Nokkrum klukkutímum síðar hringdi stjórnarmaðurinn. Hann hafði þá sett Kolskegginn á og landað fiski á hann í Krossholunni við Laxfoss í Norðurá. Og að hans sögn var takan sú magnaðasta sem hann hafði upplifað á ferli sínum sem fluguveiðimaður. Já, stundum eiga svakalegar veiðisögur við rök að styðjast.