Velkomin(n) á vefverslun Kröflu

Cart:

0 item(s) - 0 kr
Það eru engar vörur í körfunni þinni.

0

Aðeins einn og einn ,,orginall" var eftir

Sælir bræður og innilega til hamingju með síðuna til heiðurs gamla höfðingjanum.

Þegar ég byrjaði að selja veiðivörur og flugur í gamla KEA þá fylltist ég skelfingu þegar ég uppgötvaði að ég þyfti að læra nöfnin á öllum þessum "pöddum" sem til sölu voru í borðinu. Ég var ekki fluguveiðimaður þá en það átti eftir að breytast fljótlega.
Á þessum tíma var Einar heitinn Long greinilega í viðskiptum við föður ykkar því að allt moraði í flugum frá KG í borðinu....Kröflur, Skröggar, Rafþórar og hinar yndisfríðu Iður.....jú jú, þær voru þarna allar og smám saman fór ég að þekkja þetta allt.

Árin liðu og KEA hætti að selja veiðidót, sameinaðist Húsasmiðjunni og Þórður í Sjóbúðinni keypti lagerinn af veiðidótinu og ég fylgdi með.

Smám saman urðu flugurnar eftir pápa ykkar sjaldséðari í borðinu þangað til svo bar við að aðeins einn og einn "orginall" var eftir.

Ég man eftir atviki sem átti sér stað skömmu eftir að faðir ykkar var fallinn frá. Einn morgun þegar ég stóð vaktina í Sjóbúðinni (fyrsta sumarið mitt þar) þá vindur sér inn maður (sem ég kann ekki að nafngreina) og spyr mig óþolinmóður hvort að ég eigi nokkurar flugur eftir Kristján Gíslason? Ég taldi afar ólíklegt að það væri eitthvað sem orð væri á gerandi en þó væru kannski til ein og ein fluga á stangli.

Það er skemmst frá því að segja að maðurinn var þarna í tvo tíma að vinsa úr gersemarnar frá hisminu og hafði á brott með sér flest allar ef ekki allar flugurnar, túburnar og lúrurnar sem hann fann.

Þá skildi ég hvaða sess, handverk KG skipaði hjá mörgum veiðimanninum. Þessi tjáði mér að hann hefði farið víða í leit sinni að þessum djásnum, veiðiflugum eftir Kristján Gíslason.

Aldrei var ég nú svo lánsamur að hitta karlinn og finnst mér það miður. Berglind mágkona mín hefur sagt mér aðeins frá afa sínum og lánað mér bækur eftir hann til að glugga í og ljóst að þar gekk mikill náttúruunnandi um bakkana og flinkur veiðimaður.

Gangi ykkur sem allra bezt með þessa laglegu síðu.

Með ósk um gott veiðisumar og að Gylfi veiði ekki stærri bleikju en ég í Eyjafjarðará!

Jón Gunnar Benjamínsson

Myndin er af Jóni Gunnari með 9,2 punda bleikju úr Eyjafjarðará sem hann veiddi á kúluhaus árið 2001 á Jökulbreiðunni.

Leave a Reply
© 2018 Skrautás Ehf. - Sími 6982844 - kt. 520799-2149 - vsk nr. 63003 [email protected] - Leiðhamrar 39 - 112 Reykjavík