Velkomin(n) á vefverslun Kröflu

Cart:

0 item(s) - 0 kr
Það eru engar vörur í körfunni þinni.

0

Krókur og Krafla

Fyrr rétt um tíu árum var ég við miðsumarsveiðar í Hítará á Mýrum. Ég hafði einungis einu sinni áður farið svona fínt í lax og átti einungis eitt lítið flugubox sem hentaði fyrir laxveiðar. Boxið hafði ég fengið sent frá góðum vin fyrr um vorið. Líklega voru um 20-25 flugur í fluguboxinu, allar sannkölluð listasmíð og gæddar vandaðri hönnun hins eina sanna arkitekts, Kristjáns Gíslasonar. Á sex stangir veiddust 13 laxar þessa daga í Hitará, allir nema einn féllu fyrir flugum frá Kristjáni. Voru þar rauð lítil Krafla og Analíus hvað sterkastar. Skal engan undra, en allar götur síðan hef ég veitt lax á flugur frá Kristjáni.

Iða hefur reynst mér vel í Elliðaánum. Þá hefur rækjuflugan verið sterk í Kjósinni og alltaf set ég Grænfriðunginn undir þegar heimsóttar eru vatnsmiklar ár á borð við Stóru Laxá og Sogið. Skröggur er sannkölluð laxafluga og á heima í boxum alvöru veiðimanna.

Áfram um laxveiðar og spennandi flugur.

Sonur Kristáns, Gylfi, er hægt og rólega að stimpla sig inn sem einn af okkar öflugustu hönnuðum á silungaflugum. Hann er einmitt vinurinn sem sendi mér boxið um árið. Fyrir nokkrum árum renndi ég í Laxá í Kjós í blíðskaparveðri. Reyndar of góðu veðri en hitinn lá yfir 20 gráðum, stillt og þurrt og áin vatnslítil eftir langvarandi þurrka. Staðarhaldarinn hafði hringt í mig og boðið mér einn og hálfan dag á góðum kjörum því losnað hafði um tvær stangir í miðju holli. Akandi Hvalfjörðinn hugsaði ég ákaft um hvernig ég skyldi bera mig við veiðarnar. ÚItlitið var slæmt en engu að síður bærðist innra með mér ákveðið veiðihungur sem fékk hugann til að reika og finna út rétta taktinn áður en veiðar myndu hefjast. Ég fékk Káranesfljótið og Bugðu á fyrstu vaktinni. Ég ákvað að reyna við Káranesfljótið, örlitil gola læddist yfir en ekki dró fyrir. Ég hafði ákveðið að veiða á flugurnar hans Gylfa. Mýslan fór fyrst undir. Tökuvari settur á og kastað rétt upp fyrir þvert. Ég leyfði mér ekki að blikka augum, fylgdist vandlega með öllum breytingum á yfirborði árinnar og umfram allt fylgdist ég með tökuvaranum. Yfir mig læddist einhver dulin vissa um að fiskur tæki fluguna strax í fyrsta rennsli. Ég hafði gert allt rétt enda ákveðnari en oftast áður að setja í fisk. Hafði virt öll minnstu smáatriði út í hörgul enda kunnugur staðnum sem oft geymir mikið af laxi og rígvænum sjóbirtingi. Það var rifið í og hann var á. Stuttu síðar var óvenju sprækum 5 punda sjóbirtingi landað nokkru neðar. Í næsta kasti tók 6 punda lax. Báðir fiskarnir tóku sömu fluguna, Krókinn. Á einum og hálfum degi veiddi ég 11 eða 12 fiska og alla nema tvo á Mýslu og Krók. Ofarlega í ánni fékk 3 laxa um eða yfir tíu pundum. Þetta var það eina sem kom upp úr ánni. Hægar hreyfingar, læðst aftan að fiski og kastað upp fyrir án þess að vera með buslugang, þverköst eða eitthvað þaðan af verra. Allt verður að vera á hægagangi við aðstæður sem þessar. Þetta var stórkostleg upplifun. Síðan hef ég margoft veitt lax andstreymis og oft gengið vel. Einu sinnu fékk ég 12 punda nýgenginn lax á Mýslu í Hitará. Laxinn var æði sterkur en flugan litla hélt. Ég hef reynt aðrar silungaflugur við laxveiðar en ekki með sama árangri. Mýslan og Krókurinn er eru þær sem gefa við réttar aðstæður.

Ég gæti haldið áfram að minnast veiðiferða þar sem flugur frá þeim feðgum koma við sögu en kýs að staldra við að sinni. Næst verður gaman að minnast veiðiferða þar sem stæltur urriðinn og bústin bleikjan koma við sögu. Þar er af mörgu að taka.
Ég vil nota tækifærið og þakka þeim bræðrum fyrir frábært framtak. Flugurnar hans Kristjáns munu án efa gleðja margan ungan veiðimanninn í framtíðinni.
Gunnar Örlygsson

Myndin er af flugunni Krókurinn eftir Gylfa Kristjánsson. Sterk laxafluga eins og Mýslan ekki síður en silungafluga.

Leave a Reply
© 2018 Skrautás Ehf. - Sími 6982844 - kt. 520799-2149 - vsk nr. 63003 [email protected] - Leiðhamrar 39 - 112 Reykjavík