Velkomin(n) á vefverslun Kröflu

Cart:

0 item(s) - 0 kr
Það eru engar vörur í körfunni þinni.

0

Eigum við að banna netaveiðina?

Senn líður að framsetningu frumvarps frá landbúnaðarráðuneytinu
um breytingu á lögum um lax og silungsveiði. Í því skyni vil ég upplýsa um eftirfarandi :

Í núgildandi lögum um lax og silungsveiði er að finna kafla um matsaðgerðir og skaðabætur. Í 102 grein sama kafla, segir eftirfarandi :

,,Nú hefur veiðieigandi, er veiði átti áður en lög þessi komu til framkvæmda, misst hana að mestu eða öllu fyrir þá sök, að lögin fyrirmuna honum að nota þá veiðiaðferð, er hann áður mátti einni við koma, og á hann þá kröfu til skaðabóta eftir mati
Matsmenn skv. 1. mgr. skulu leita umsagnar veiðimálastjóra og veiðimálanefndar. Skaðabætur greiðast að hálfu úr ríkissjóði og að hálfu úr hlutaðeigandi sveitarsjóði eða -sjóðum.
Nú hefur maður í öðrum tilvikum en í 1. mgr. segir orðið að mun öðrum fremur fyrir tjóni vegna ákvæða og framkvæmdar laga þessara, og á hann kröfu til skaðabóta eftir mati. Skaðabætur skulu greiða eigendur veiðiréttar í fiskihverfi því, sem í hlut á, eftir ákvörðun matsnefndar, og má taka þær lögtaki. Ákveða má þeim, er tjón hefur beðið, bætur með því að úthluta honum arði í arðskrá. Stjórn veiðifélags er skylt að annast innheimtu bóta á félagssvæði sínu.
Um fjárhæð og greiðslu bóta eða endurgjald, er greinir í lögum þessum, fer eftir lögum um framkvæmd eignarnáms."

Í framhaldi er rétt að upplýsa vefslóð laga um framkvæmd eignarnáms en hún er : http://www.althingi.is/lagas/131b/1973011.html

Ef svo fallega skyldi viðra að netaveiði í íslensku straumvatni yrði alfarið bönnuð skv. lögum, er vert að gaumgæfa hvort sú breyting yrði ríkissjóði til hagsbóta. Þrátt fyrir bótaskyldu ríkisins , er ég sannfærður um að ríkið hagnist til lengri tíma litið með banni á netaveiðum. Skýringuna er helst að finna í miklum hvata sem mun skapast innan ferðaþjónustunnar með upptöku netanna. Hvata til frekari uppbyggingar á ferðaþjónustu tengdri stangveiði á tilheyrandi vatnasvæðum. Tel ég víst, að innan skamms tíma muni eiga sér stað frekari uppbygging á veiðihúsum og gistiaðstöðu en einnig mun mikill kraftur skila sér til ræktunarátaks á tilheyrandi vatnasvæðum.
Sem dæmi má nefna að tekjur ríkissjóðs af netaveiði í dag eru óverulegar. Í annan stað má nefna að þó bætur verði greiddar til eignarnámsþola er eingöngu um að ræða bætur sem greiddar verða einu sinni. Skv. lögum eru bótafjárhæðir ákvarðaðar af matsnefnd eignarnámsbóta en í þeim úrskurði er gerð grein fyrir þeim atvikum og réttarreglum, sem liggja til grundvallar niðurstöðum mats. Bótafjárhæð á að vera sundurliðuð og lýst á grundvelli útreikninga en jafnan á þó að taka afstöðu til ágreiningsatriða. Í þessu ljósi er vert að benda á ársveltu í sölu netaveiddra laxa af vatnasvæði Hvítár og Ölfussár, en einungis um örfáar milljónir króna er að ræða í söluverðmætum á ársgrundvelli. Sú upphæð er hlægileg í samanburði við þann efnahagslega ávinning sem stangveiðin getur skilað í hús, þá ekki eingöngu til bænda heldur einnig þjónustuaðila sem starfa í grennd við þetta víðfemasta vatnasvæði landsins.
Skv. skýrslu Atvinnuþróunarsjóðs Suðurlands kemur fram, að með kraftmiklu ræktunar -og markaðsátaki geti stangveiðin á vatnasvæði Hvítár og Ölfusár orðið eitt það eftirsóknasta og besta í heimi í hugum stangaveiðimanna. Í skýrslunni kemur einnig fram að markaðssetning á öllu svæðinu verði samræmd, bæði hvað varðar stangveiði og aðra ferðaþjónustu á svæðinu öllu, sem og aðra þjónustu og verslun á tilheyrandi svæði. Þá er einnig mikilvægt að félagskerfi landeiganda verði samræmt með heildarhagsmuni þeirra allra í huga. Með þessum hætti sé hægt að tífalda arðgreiðslur til landeigenda á umræddu vatnasvæði en skv. skýrslunni gætu þær á skömmum tíma orðið yfir 250 milljónum króna á ári og að heildarvelta stangveiðinnar gæti farið yfir 600 milljónir króna árlega á sama svæði.

Að þessu sögðu er því rétt að spurt sé eigum við að banna netaveiðar í íslenskum ám?

Gunnar Örn Örlygsson, alþingismaður

Leave a Reply
© 2018 Skrautás Ehf. - Sími 6982844 - kt. 520799-2149 - vsk nr. 63003 [email protected] - Leiðhamrar 39 - 112 Reykjavík