Velkomin(n) á vefverslun Kröflu

Cart:

0 item(s) - 0 kr
Það eru engar vörur í körfunni þinni.

0

Monthly Archives: March 2008

  • Laxness fluguhnýtinganna?

    Já, krafla púnktur is

    Það er sérstakt gleðiefni að opnuð hefur verið heimasíða með heiti þessarar merku flugu Kristjáns Gíslasonar; Kröflu. Og vonandi verða alltaf til snillingar sem hafa getu til að hnýta hana rétt og veiðilega. Sjálfur er ég ekki í þeim hópi.

    Ég hef stundum keypt þessa flugu í verslun en ekki oft. Hún þarf að vera rétt hnýtt. Ég hef auðvitað misnotað tengsl mín við Gylfa Kristjánsson til að nálgast eintök og fengið hjá honum Kröflur sem hann hnýtti sjálfur. En auk þess hef ég fengið nokkur eintök sem pabbi hans gerði, meistarinn sjálfur. Það eru náttúrulega gersemar.

    Margt er óvenjulegt í kringum flugurnar hans Kristjáns. Það sem mér hefur oft fundist athyglisvert við þær er hversu aggresívar þær eru í útliti. Allavega margar þeirra. Ef þetta væru manneskjur þá myndu þær tilheyra pönkinu; ýfðar, gaddaðar og árásarkenndar. Dálítið merkilegt að bera þær saman við höfundinn sjálfan; hann sem var sjálfur svo meinhægur og lambrólegur. Ekkert nema kurteisin og geðprýðin. En þannig var t.d. Halldór Laxness líka. Eins og í mótsögn við hrikaleg átökin í bókum sínum. Sjálfur snyrtilegur í sínum stífpressuðu buxum, en böðaföllin á blaðsíðunum hreint ótrúleg. Hvaðan kemur þetta eiginlega? Kannski er Kristján Gíslason eins konar Laxness fluguhnýtinganna? Hefði reyndar verið alveg kjörið að biðja hann að hanna flugu með þessu nafni; Laxness. Kannski búið að því? Best ég skori hér með á Gylfa son hans að hnýta flugu með heitinu Laxness. Ég vil verða vitni að hönnuninni frá byrjun og hafa tillögurétt. Það er krafa.

    Ég hef séð nokkrar flugur verða til hjá Gylfa. Það er býsna sérkennilegt að sjá það gerast. Sjálfur hef ég t.d. hannað straumflugu sem hefur gefið mér góða veiði; hún heitir Rakki. Ég hannaði hana út frá pælingum um aðrar þekktar flugur og blandaði saman hinu og þessu sem mér fannst gáfulegt. Hélt að þannig að ætti að gera þetta. En hjá Gylfa er þetta einhvern veginn öðruvísi. Stundum liggja þrjár eða fjórar nýjar útgáfur á borðinu þegar ég kem inn í herbergið til hans. Og allt er rólegt. Hann segir ekkert. Ég horfi á flugurnar. Hann horfir á mig. Ég bendi á eina þeirra og segi; ,,Það er eitthvað við þessa.'' Hann svarar engu fyrst, en bendir svo á aðra flugu og segir; ,,Já, ég er svo sem alveg sammála, en finnst þér ekki magnað hvernig liturinn í vængnum á þessari virkar með vafningnum svona aftarlega?''. Þá segi ég kannski; ,,Tja...ég var nú ekki alveg að pæla í því.... er þetta ekki eitthvað skrýtið?'' Svo förum við út úr herberginu og snúum okkur að leiknum í sjónvarpinu. Næst þegar ég kem í heimsókn er bara ein fluga á borðinu. Hún er venjulega einhver blanda af hinum fyrri. Og hún er ekki endilega lík neinu í dýraríkinu... en það er eitthvað mikið við hana. Svo er henni kastað í næsta veiðitúr og oftar en ekki verður allt vitlaust.

    Það er einhver nettur galdur á bak við það að búa til góða veiðiflugu. Þegar t.d. Krókurinn varð til fannst mér hún strax veiðileg. En samt asnaleg að sjá í fyrsta sinn; einhvern veginn svo öfug eitthvað. Og við fórum saman suðrí Eyjafjarðará þar sem Jón Ágúst Bjarnason, föðurbróðir minn sem stundum er kallaður Krókurinn, var látinn vígja hana. Og guð minn góður. Hann gersamlega hreinsaði allt af veiðisvæðinu. Flugan var skírð í hausinn á honum.

    Já, hæfileikinn til að hanna veiðiflugur getur greinilega gengið í erfðir. En það er fyrst og fremst gaman að þessu öllu saman. Eða eins og einn lífsglaður vinur minn segir stundum og hefur sem nokkurs konar mottó í lífinu: ,,Þetta er best sem vitlausast!''

    Bjarni Hafþór Helgason

  • Eiga heiðursstað í mínum boxum

    Hvaða flugur koma fyrst upp í hugann er maður leitar í smiðju Kristján Gíslasonar? Jú, auðvitað er það Kraflan, Skröggur líka, Gríma má ekki gleymast og svo auðvitað Analíus. Allar eiga þessar flugur heiðursstað í mínum fluguboxum.

    Síðan ég hóf mína laxveiði fyrir alvöru veiðandi með flugustöng þá hef ég veitt á flugur hans. Ég verð að hafa þær með er ég fer í veiðitúr, annars líður mér einfaldlega ekki nógu vel. Maður verður nefnilega að trúa á þær flugur sem maður hefur undir og með árangrinum eflist trúin.

    Það er dálítið sérstakt með flugur hans að ég það til að binda ákveðinn veiðistað við eina eða fleiri. Til að mynda þegar ég veiði Kálfahagahyl Stóru-laxá að hausti til. Þar nota ég Kröflu, verður að vera rauð, tommu-löng. Þegar ég er með hana undir í Stóru er ég ávallt meira en viðbúinn töku. Þegar ég fer í Hítará í júlí eða ágúst verð að ég vera með Analíus og Skrögg og þá í litlum stærðum, # 12 og minni. Man eftir júlí-veiði fyrir um 8 árum, var að veiðum í Túnstreng 3. Flotlína, mikið vatn, dumbungur, topp-aðstæður. Ég reyndi ýmsar flugur með litlum árangri. Opnaði svo síðasta boxið í vestinu og Analíus # 14 varð fyrir valinu. Skömmu seinna var ég búinn að landa 5 löxum. Síðustu ár hef ég tekið marga laxa á hana.

    Ég varð það lánsamur að hitta Kristján áður en hann féll frá. Ég hef lesið allar hans bækur. Það er og verður alltaf heiður að hnýta hans flugur undir og leggja fyrir lónbúann.

    Kær kveðja, Sturla Örlygsson

Hlutur 5 til 6 af 6

Síða:
  1. 1
  2. 2
© 2018 Skrautás Ehf. - Sími 6982844 - kt. 520799-2149 - vsk nr. 63003 [email protected] - Leiðhamrar 39 - 112 Reykjavík