Velkomin(n) á vefverslun Kröflu

Cart:

0 item(s) - 0 kr
Það eru engar vörur í körfunni þinni.

0

Stærðin skipti öllu máli

Fyrir þá fjölmörgu fluguveiðimenn sem stunda bleikjuveiði er fátt skemmtilegra en að lenda í fjörugri töku þegar veitt er með þurrflugu. Þetta vita þeir auðvitað best sem reynt hafa.
Fluguveiði kallar jafnan á vandvirkni og þolinmæði eins og allur annar veiðiskapur. Flestir eru sammála um að þurrfluguveiði kalli á sérstaklega mikla athygli veiðimannsins og viðbragðsflýti.
Fyrir nokkrum árum var ég staddur við afar laglega bergvatnsá. Áin er í nágrenni Gufudalsár sem margir félagar í Stangaveiðifélagi Reykjavíkur þekkja vel.
Þessi snotra á geymir jafnan mikið magn af bleikju. Þegar ég hóf veiðarnar um morguninn varð ég strax var við töluvert af fiski. Veiddi fljótlega nokkrar fallegar bleikjur á sjö feta stöngina sem er 40 grömm að þyngd. Þrátt fyrir að bleikjurnar væru ekki eins og þær gerast stærstar bognaði stöngin upp í skaft. Maður gat hreinlega ekki verið í nánara sambandi við þessa skemmtilegu fiska.
Eftir hádegið hlýnaði skyndilega í veðri og um miðjan daginn var allt orðið löðrandi í litlum fiðrildum. Ég tók mér stöðu vel fyrir neðan mjög fallegan veiðistað. Bleikjan var svo sannarlega í essinu sínu. Hvert fiðrildið af öðru var tekið. Rólegt yfirborð vatnsins nánast einn hringur og það slapp varla padda fram af brotinu neðst í hylnum.
Eftir að hafa sett flotlínuna á hjólið, langan og grannan taum og hnýtt á fallega ,,beislitaða'' þurrflugu gerði ég mig kláran. Úðaði á þurrfluguna þar til gerðum efnum og þóttist nú fær í flestan sjó. Skríðandi á hnjánum nálgaðist ég heppilegan stað við bakkann. Náði þá að kasta mjög varlega á réttan stað. Spennan var í hámarki. Ég sá fluguna mína greinilega. Hægt og rólega dansaði hún niður hylinn. Ekkert gerðist. Ég kastaði aftur og aftur þar til ég var þess fullviss að bleikjan vildi ekki fluguna.
Ég mjakaði mér hægt og rólega frá staðnum. Fékk mér kaffisopa í bílnum og hugsaði málið.
Hvað gat ég verið að gera vitlaust? Ég gat ekki betur séð en þurrflugan væri sömu stærðar og fiðrildin og liturinn alveg sá sami.
Það hlaut að vera eitthvað að stærðinni. Ekki kom til greina að stækka fluguna um eitt númer og flugu í þessum lit átti ég ekki minni. Ég greip fluguskærin og tók nú við klipping og snyrting. Eftir dágóða stund hafði ég minnkað ummál flugunnar um hálfan til einn millimeter, allan hringinn.
Aftur var haldið af stað. Kom mér fyrir á sama stað og áður og kastaði á sama stað. Flugan hafði ekki snert yfirborðið þegar hún var tekin. Í stuttu máli mátti þessi nýklippta fluga ekki vera í vatninu. Ég veiddi þarna margar bleikjur en eftir rúman hálftíma ákvað ég að yfirgefa þennan skemmtilega veiðistað sem hafði svo sannarlega gefið mér þá skemmtun sem ég vonaðist eftir.
Þetta atvik sannaði fyrir mér í eitt skipti fyrir öll að stærð flugunnar skiptir öllu máli. Reyndar skiptir stærð flugunnar alltaf miklu máli en ég er þeirrar skoðunar eftir þessa skemmtilegu reynslu að hún skipti meira máli þegar þurrfluga á í hlut en hefðbundin fluga.
Umrædda flugu klippti ég svo sáralítð að ég trúði því reyndar ekki sjálfur að það gæti skipt máli. Vildi hins vegar hafa vaðið fyrir neðan mig og byrja á því að minnka hana eins lítið og ég gat. Það var jú auðveldara að klippa hana aftur en að bæta við lengd háranna.
Önnur atriði mætti nefna en stærð flugunnar sem ég held að skipti miklu máli í þurrfluguveiði. Það að fara mjög varlega er lykilatriði. Að standa vel fyrir neðan hylinn er annað atriði og síðan verða menn að gæta þess að flugan hreyfist ekki á yfirborðinu umfram eðlilegan yfirborðsdansinn niður hylinn. Öll hreyfing flugunnar umfram þær hreyfingar sem náttúrulegu fiðrildin iðka vekja strax grunsemdir og þá eru þurrflugur veiðimanna samstundis teknar af matseðlinum. Eitt atriðið enn er að kasta mjög varlega. Bleikjan er stygg þegar hún er að éta í yfirborðinu og allur buslugangur og óþarfa köst minnka möguleika veiðimannsins verulega. Þá er rétt að minna á að betra er að láta lélegt kast fara niður hylinn en að kasta strax aftur.
Loks má geta þess að bleikjan er hreint ótrúlega fljót að spýta út úr sér þurrflugu sem hún finnur að er ekki eins og hún á að vera. Það er því mikilvægt að hafa sem minnstan slaka á línunni og vera fljótur að taka við sér þegar það sem fram er borið vekur hrifningu við hinn enda línunnar.
Undirritaður er ekki sérfræðingur í þurrfluguveiði frekar en öðru. Þetta er hins vegar að mínu mati skemmtilegasta útgáfan af fluguveiðinni ásamt því að veiða á gárutúpur.
Gaman væri að heyra sögur af fluguveiði frá öðrum veiðimönnum.
Stefán Kristjánsson

Leave a Reply
© 2018 Skrautás Ehf. - Sími 6982844 - kt. 520799-2149 - vsk nr. 63003 [email protected] - Leiðhamrar 39 - 112 Reykjavík