Velkomin(n) á vefverslun Kröflu

Cart:

0 item(s) - 0 kr
Það eru engar vörur í körfunni þinni.

0

Maðkur eða fluga?

Langflestir stangaveiðimenn hérlendis eru annað tveggja fluguveiðimenn eða maðkamenn. Þeir eru svo auðvitað til sem nota spón en líklegast eru þeir fámennasti hópurinn.
Síðan eru þeir sem nota þetta þrennt jöfnum höndum eftir aðstæðum hverju sinni. Veiða þeir menn jafnan vel og stundum betur en aðrir.
Líkast til eru fluguveiðimenn langfjölmennasti hópurinn. Flest öllum finnst fluguveiðin skemmtilegust og þeir eru margir sem telja að það sé mun erfiðara að veiða á flugu en maðk og spón.
Í gegnum árin og áratugina hef ég orðið var við vaxandi óvild fluguveiðimanna í garð þeirra sem nota maðkinn. Óvild er kannski of sterkt orð en óhætt er að fullyrða að fluguveiðimenn eigi það til í nokkrum mæli að líta niður á þá sem veiða á maðk.
Sjálfur veiði ég ekki á maðk nema lífið liggi við og aðstæður séu með þeim hætti að ógerlegt sé að koma flugu að fiskum. Reyni ég gjarnan að verða mér úti um veiðileyfi á svæðum þar sem svo háttar ekki til. Ástæðan er sú að mér finnst mun skemmtilegra að veiða á flugu en maðk. Þrátt fyrir að ég teljist til fluguveiðimanna hvarflar þó ekki að mér eitt augnablik að líta niður á þá fjölmörgu sem nota maðk og hafa mesta trú á honum þegar agnið er annars vegar.
Til að vera algjörlega hreinskilinn hef ég reyndar aldrei getað skilið maðkamenn sem sjónrenna eins og sagt er. Stýra maðkinum upp í laxinn með 5-10 sökkur og nota oftar en ekki við þessa athöfn tveggja handa flugustöng. Þetta finnst mér lítill veiðiskapur og byggist að mínu mati meira á því að skarta góðri sjón og gleraugum en miklum hæfileikum með veiðistöngina. Ég tel að þessum sjónrennslisköllum hafi snarfækkað síðustu árin. Bæði er að þeim fer fjölgandi íslensku ánum þar sem eingöngu er leyfð fluguveiði og svo held ég að þetta sé algjörlega dottið úr tísku. Allavega vona ég það.
Sé veitt með maðki á hefðbundinn hátt getur það oft verið mikil kúnst. Og þeir sem stunda það mest eru oft bráðflínkir veiðimenn.
Maðkaveiði í silungsveiði er að mínu mati alveg réttlætanleg í vatnaveiði eða þar sem vitað er af miklu magni af fiski. Í minni ám þar sem stofnar eru ekki mjög sterkir er maðkaveiði í silungi alveg skelfilegt fyrirbrigði. Bleikjan má ekki maðk sjá þá er hún rokin á hann. Þannig er hægt að tæma hyl eftir hyl í maðkaveiði og skilja eftir sig svöðusár hvað ána varðar.
Mér er enn minnisstætt atvik sem átti sér stað fyrir mörgum árum. Ég var þá staddur við litla bleikjuá og hafði veitt alveg þokkalega á fluguna. Séð töluvert af fiski og náð um 10 bleikjum. Aðstæður höguðu því þannig til að ég var staddur í sumarhúsi við þessa á daginn eftir. Annar veiðimaður hafði þá fengið leyfi til að veiða í ánni. Ég tók eftir því þegar hann lagði af stað upp í gljúfrið um morguninn að þar var maðkamaður á ferð. Ég ákvað því að fylgjast vel með gangi mála seinni part dagsins þegar von var á veiðimanninum til byggða. Og þegar hann birtist var hann með tvo stóra plastpoka fulla af bleikju og stóðu sporðarnir upp úr pokunum. Ég gaf mig á tal við manninn og sagði hann mér að hann hefði getað veitt helmingi meira en treysti sér engan veginn til að bera meiri afla. Í pokunum voru milli 30 og 40 bleikjur.
Oftar en ekki heyrir maður á samtölum við veiðimenn að þeir séu nú ,,bara" í maðkinum en séu að byrja í flugunni. Fylgir þá jafnan með að þeir hafi heyrt að fluguveiðin sé til muna skemmtilegri.
Og vissulega er hún skemmtilegri. Þeir veiðimenn sem skipt hafa úr maðki í flugu er langflestir sammála um þetta.
Stefán Kristjánsson

Leave a Reply
© 2018 Skrautás Ehf. - Sími 6982844 - kt. 520799-2149 - vsk nr. 63003 [email protected] - Leiðhamrar 39 - 112 Reykjavík