Velkomin(n) á vefverslun Kröflu

Cart:

0 item(s) - 0 kr
Það eru engar vörur í körfunni þinni.

0

79 vænir birtingar á tvær stangir í tæpa tvo daga

Ég undirritaður, sem ekki hef gert garðinn frægan í sjóbirtingsveiði, var afar spenntur þegar ég og mágur minn, Guðjón Gunnar Ögmundsson, lögðum af stað austur snemma sl. mánudagsmorgun. Við höfðum haft af því fréttir að veiðimenn höfðu veitt mjög vel nokkrum dögum áður og séð mikið af fiski.
Þegar á veiðisvæðið var komið var enginn fiskur bókaður á sunnudeginum og fimm á laugardeginum. Við hugsuðum með okkur að réttast væri að skrúfa allar væntingar niður á skynsamlegt stig.
Eftir að hafa sett saman, spáð mikið í línu og taum, var ferðinni heitið á miðin neðarlega á svæðinu. Þar háttar svo til að allar þrjár ár veiðisvæðisins, tvær bergvatnsár og ein jökulá, hafa fléttað sig saman í töluvert vatnsfall. Þessi veiðistaður er um 100 metra langur.
Ég ákvað að freista gæfunnar með flotlínu og mjög sökkvandi enda. Girnistaumurinn var síðan um meters langur. Þetta taldi ég geta verið vænlega samsetningu miðað við allt vatnið sem við blasti, nokkurn straum og skollitað vatnið. Á endann hnýtti ég rauða Kröflu í túpuformi, tommulanga.
Við hófum veiðar klukkan ellefu. Í öðru kasti þreif stór fiskur fluguna og ljóst af tökunni að merkja að áhuginn var mikill. Þessi fiskur var sjö pund, örlítið leginn hængur og gefið líf. Mágur minn var fyrir ofan mig og hafði hnýtt Snældu á hjá sér. Undarlegt fannst okkur að hann varð ekki var á þessa þekktu flugu.
Eftir tveggja klukkutíma veiði var kominn hvíldartími og þá höfðum við sett í 20 boltafiska. Ég fékk 8 fiska í beit á rauðu Kröfluna og sá stærsti var 9 pund, sá minnsti 5 pund. Mágur minn skipti fljótlega yfir í Kröfluna og setti í 10 fiska á þessum tveimur tímum á ýmsar af okkar flugum á krafla.is en flesta þó á rauðu Kröfluna.
Eftir hvíldina ákváðum við að gera alls kyns tilraunir með flugur, línur og stangir enda í raun búnir að veiða nóg þennan daginn. Á rúmum þremur tímum settum við í 15 fiska til viðbótar. Við slepptum flestum fiskunum en kvótinn á þessu skemmtilega svæði er 5 fiskar á stöng á dag.
Um kvöldið og nóttina rigndi heil ósköp. Bergvatnsárnar tvær þrefölduðu sig að vatnsmagni og voru nú verulega girnilegar. Við ákváðum að hefja leikinn við brúna á annarri þeirra en þar höfðum við séð 2-3 fiska daginn áður. Okkur hafði verið sagt að ef vatn myndi aukast í bergvatnsánum legði birtingurinn það í vana sinn að mjaka sér upp úr litaða vatninu neðar á veiðisvæðinu. Og það var nákvæmlega það sem gerðist um nóttina.
Þegar við komum að brúarhyljunum fyrir neðan og ofan brúna voru fiskar á lofti um allt. Nú var ákafinn svo mikill í birtingnum að við sáum til að byrja með tvo og þrjá fiska slást um að taka fluguna nánast um leið og hún lenti í vatninu. Þvílík og önnur eins læti höfum við ekki upplifað áður.
Þegar klukkan var rúmlega fjögur þótti okkur nóg komið. Settum í 44 fiska þennan dag og slepptum þeim flestum.
Alls fengum við 79 fiska. Allir voru þeir 5-9 pund, að stærstum hluta nýr fiskur en hinir lítið legnir. Flestir tóku fiskarnir Kröflutúpur í öllum litum, flestir þó þessa rauðu. Einnig veiddum við mjög vel á Skrögg, Rafþór, Randalín og fleiri þekktar flugur Kristjáns Gíslasonar. Þá fengust nokkrir birtingar á Beyglu sem straumflugu, en það er nýjasta fluga Gylfa Kristjánssonar sem verður til sölu á krafla.is næsta vor sem silungafluga.
Það voru eins og gefur að skilja úrvinda veiðimenn sem yfirgáfu svæðið eftir hreint ótrúlega veiði. Upp úr stóðu allar tökurnar, fallegt umhverfið og baráttuvilji birtinganna sem var með hreinum ólíkindum svo hvein í léttum græjunum.
Sigurvegarar veiðitúrsins að mínu mati voru þó flugur föður míns, Kristjáns Gíslasonar. Ég hef verið þungt haldinn af veiðidellu til nokkuð margra ára en aldrei gefið mér tíma til að kynna þær fyrir sjóbirtingum áður. Þeir kunnu svo sannarlega gott að meta. Með þessari frammistöðu sinni sönnuðu flugurnar svo eftir verður munað að þær eru með allra frambærilegustu sjóbirtingsflugum svo ekki sé sterkara til orða tekið.
Stefán Kristjánsson

Leave a Reply
© 2018 Skrautás Ehf. - Sími 6982844 - kt. 520799-2149 - vsk nr. 63003 [email protected] - Leiðhamrar 39 - 112 Reykjavík