Velkomin(n) á vefverslun Kröflu

Cart:

0 item(s) - 0 kr
Það eru engar vörur í körfunni þinni.

0

Metfluguveiði við Iðu á einum degi í sumar - 15 laxar og 14 á Kröflur

Vaskur hópur fluguveiðimanna sem hefur nokkra reynslu af veiðum við Iðu í Biskupstungum átti þar hreint frábæran dag í upphafi september, nánar tiltekið seinni part 1. september og fyrri part 2. september. Alls veiddi hollið 15 laxa og 3 væna sjóbirtinga og tóku allir laxarnir flugur.

Hrein tilviljun réði því að við fengum úthlutað 1. september en það er fæðingardagur Kristjáns Gíslasonar sem þessi síða er tileinkuð. Í tilefni af því ákvað ég að prufukeyra nokkra nýja liti af Kröflu túpum og árangurinn var hreint magnaður. Sumar af þessum Kröflum eru nú þegar til sölu í netverslun okkar en aðrar verða komnar þar innan skamms þegar ný vefsíða okkar verður formlega opnuð.

Skilyrði voru mjög góð við Iðu þessa hálfu daga. Skýjað og vatnið í rúmu meðallagi. Fannst okkur félögunum kominn tími til að heppnin væri með í för en oftar en ekki höfum við mörg undanfarin ár verið í miklu sólbaði við Iðu og í mjög litlu vatni. Nú var sem sagt öldin önnur og við urðum strax varir við fiska. Sáum þó ekki mikla hreyfingu en þess eru mörg dæmi við Iðu að þó nokkuð sé af fiski á svæðinu án þess að hann sýni sig. Fimm laxar voru færðir til bókar að kvöldi 1. september.

Um nóttina bætti enn í vatnsbúskapinn og um morguninn var svæðið gullfallegt. Strax tókum við til við að landa löxum og þegar tíminn var úti var aflinn orðinn 15 laxar og 3 vænir sjóbirtingar. Mesta fluguveiði á einum degi á Iðunni í sumar. Laxarnir sýndu Kröflunum okkar mikinn áhuga. Komu laxar á land á hefðbundna liti en einnig nýja liti. Tveir laxar tóku ljósbláu/svörtu Kröflutúpuna í tommustærð og einnig fengust laxar á gráa Kröflu, Kröflu orange/svarta og hinn nýja lit hot orange sem á eftir að verða mjög skæður í framtíðinni. Alls komu 14 laxar á land á Kröflurnar en einn tók Kolskegg Long Wing. Sjóbirtingarnir tóku allir Kröflur, rauða, orange og svarta.

Í fyrstu yfirferð minni með ljósbláu/svörtu Kröfluna var hún í öðru eða þriðja kasti tekin af laxi en eftir nokkrar sekúndur var allt laust. Ég kastaði þá eins á ný og á sama stað var þessi nýja Krafla negld með miklum látum og ljóst að árs gamli hængurinn ætlaði ekki að missa af henni aftur.

Þessi skemmtilegi dagur verður okkur lengi minnisstæður. Ekki síst vegna þess að þarna upplifðum við á ný aflabrögð sem einkenndu Iðusvæðið fyrir nokkrum árum. Þó vantaði nokkuð á hefðbundna þyngd fiskanna en þeir stærstu voru 7-8 pund. Voru þar á ferð Iðuhængar af ,,gömlu" gerðinni, ótrúlega sterkir og vel haldnir. Héldu veiðimenn jafnan að um verulega stærri fiska væri að ræða. Þessir hængar göbbuðu gamla veiðimenn við Iðu í gamla daga ekki síður en í dag. Voru þeir gjarnan kallaðir plathængar og minnist ég ummæla eins og ,,hann er nærri 17 en 7 pundum" þegar þessir hængar voru annars vegar.

Í veiðibók við Iðu voru skráðir 122 laxar á hádegi 2. september. Má þá reikna með annarri eins veiði sem hvergi er til á blaði. Er þetta nokkuð minni veiði en í fyrra en þó eru enn eftir góðir dagar þannig að lokatalan gæti hækkað talsvert.

-sk

Á efstu mynd er Jens Magnússon með tvo rígvæna ársgamla Iðuhænga og næstur er fallegur sjóbirtingur. Annar laxinn og sjóbirtingurinn tóku Kröflu Hot orange og hinn laxinn tók Kolskegg Long Wing plast-túpu.

Steinar Petersen við hið einstaka borð sem er á eyrinni við Iðusvæðið. Steinar fékk fjóra laxa umræddan dag og allir tóku tommulanga rauða Kröflutúpu með keilu.

Jens Magnússon landar laxi við Iðu.

Steinar Petersen heldur hér á tveimur löxum sem tóku Kröflu keilutúpu, ljósbláa/svarta. Þetta eru fyrstu laxarnir sem veiðast á þennan nýja lit í Kröflulínunni og í fyrsta skipti sem ljósbláa/svarta Kraflan var sýnd löxum.

Leave a Reply
© 2018 Skrautás Ehf. - Sími 6982844 - kt. 520799-2149 - vsk nr. 63003 [email protected] - Leiðhamrar 39 - 112 Reykjavík