Velkomin(n) á vefverslun Kröflu

Cart:

0 item(s) - 0 kr
Það eru engar vörur í körfunni þinni.

0

Fréttir héðan og þaðan

Við á Krafla.is höfum frumsýnt margar nýjar flugur í sumar og árangurinn hefur verið framar vonum. Hér eigum við að sjálfsögðu við nýja liti og ný afbrigði af Kröflunum, bæði í lax- og silungsveiði.
Hefjum leikinn í silungsveiðinni. Um mitt sumarið, eða rúmlega það, mætti ég fullur eftirvæntingar með nokkra nýja liti af SilungaKröflum, þar á meðal ólifugræna og hvíta. Reyndust þessir litir mjög vel og stóðust svo sannarlega prófið. Sú hvíta hafði þó vinninginn í þessum veiðitúr. Ég kom mér fyrir í hæfilegri fjarlægð frá veiðistað nr. 11 í Djúpadalsá í Reykhólahreppi. Það var greinilega mikið af fiski í hylnum og mikið var af nýjum fiski þegar aðeins voru 10 dagar eftir af ágúst. Vænar bleikjur ,,flössuðu" kviðnum er sjávarlúsin kitlaði og bleikjurnar gerðu hvað þær gátu til að losa sig við kvikindin. Minnugur þess að lax á ekki að vera á bleikjuslóð, eða því hefur verið haldið fram um langt skeið, kom það mér nokkuð á óvart er 6 punda lax hreinlega negldi hvítu SilungaKröfluna, beint fyrir framan nefið á bleikjunum. 7 feta stöngin bognaði í hring, öll 42 grömmin í notkun og löndunin var svo sannarlega þolinmæðisverk. Ekki leyfilegt að beita átökum og í hvert sinn sem laxinn tók roku þurfti að beita 7 fetunni rétt, leggja hana lárétta og njóta augnabliksins. Afar skemmtilegt og Shakespeare stöngin fær 11 í einkunn eftir viðureignina. Og hugsa sér, við hér á Krafla.is bjóðum veiðimönnum sem áhuga hafa þennan pakka á aðeins 20 þúsund, stöngina, hjól með diskabremsu og aukaspólu og flotlínu að auki. Nánar síðar.

Nokkuð marga liti og stærðir í Kröflu keilutúpunum höfum við kynnt til leiks í sumar. Allir hafa gefist vel. Ein athyglisverðasta nýungin í sumar voru Kröflu tungsten keilutúpur í örstærðum, Mikró og Nanó. Nokkuð var um að veiðimenn misskildu málið og mátti sjá fiska bókaða í veiðibókum á Nanó og Míkró. Hér er að sjálfsögðu verið að tala um stærð túpunnar en ekki heiti. Þessar Kröflu örkeilur skiluðu alveg ótrúlegri veiði. Og eru menn að velkjast í vafa um að þessi litlu kvikindi haldi stórum löxum? Í blálok veiðitímans í Norðurá fengu veiðimenn sem við rákumst á 4 laxa á græn/svarta Kröflu nano, sem sagt allra minnstu útgáfuna af keilutúpunum þegar aðrir veiðimenn á svæðinu voru alls ekki að verða varir. Og á krók nr. 16. Tæplega 10 punda hrygna og nýleg skildi eftir sig mest af minningum.

Ógleymanlegt holl í sumar er holl sem við áttum þátt í að skipa við Norðlingafljót um mánaðamótin júlí/ágúst. 70 laxar komu á land og 63 laxanna tóku flugur frá Krafla.is Vitanlega notuðum við mikið bestu flugurnar á markaðnum sem enn og aftur sönnuðu gildi sitt. Þó voru menn inn á milli að reyna Snælduna og Frances en með litlum árangri. 3 laxar tóku þó Collie Dog. Og alveg sérstaklega athygli vakti ending flugnanna frá Krafla.is Besta dæmið um góða endingu var að tveir veiðimenn með eina stöng notuðu sömu fluguna allan síðasta morguninn og fékk hvor um sig 5 laxa á fluguna. Sá ekki á svörtu Kröflunum eftir átökin.

Elliði rauður hefur skilað mörgum veiðimanninum góðri veiði í sumar. Þar má nefna Rafn Hafnfjörð en hann hefur lengi haft mikla trú á þessari gjöfulu flugu og hún gefið honum margan laxinn. Við bendum lesendum á frétt um Rafn og stórlax hans úr Víðidalsá hér að framan og nú birtum við mynd af Rafni og 95 cm löngum laxi (18 pund?) sem hann veiddi í Húseyjarkvísl tveimur vikum eftir túrinn í Víðidalsána. Rafn veiddi einnig mikið af sjóbirtingi í kvíslinni í umræddum veiðitúr og flestir þeirra tóku Kröflu orange.

Við vorum við veiðar í Norðlingafljóti síðasta veiðidag sumarsins, 30. september. Þegar við mættum um morguninn um kl. tíu var hitastig við frostmark, nokkur vindur og varla verandi utan við bílinn. Ekki lagaði það aðstæður að vatn var mjög mikið í Norðlingafljóti og áin nokkuð skoluð. Þrátt fyrir þessar erfiðu aðstæður vorum við duglegir og um miðjan daginn gerðust þau undur og stórmerki að lax tók tommulanga keilutúpu, svarta Kröflu. Var það lokatilraun hjá mér að láta svörtu Kröfluna sökkva nokkra stund og síðan tók við strippið af nokkrum ákafa. Skipti engum togum að undurfalleg 5 punda hrygna réðst á svörtu Kröfluna og kom mér mjög á óvart í þeim fimbulkulda sem var.

Efri myndin: Laxinn hefur tekið hvítu Kröfluna og 7 feta stöngin er vitanlega alveg kengbogin, þolinmæðisvinna framundan og viðureignin tók 30 mínútur. Á neðri myndinni er Rafn Hafnfjörð með 95 cm laxinn sem tók rauða Elliðann í Húseyjarkvísl. Ekki fyrsti og ekki síðasti stórlaxinn sem þessi snjalli fluguveiðimaður yfirbugar á ferlinum.

Leave a Reply
© 2018 Skrautás Ehf. - Sími 6982844 - kt. 520799-2149 - vsk nr. 63003 [email protected] - Leiðhamrar 39 - 112 Reykjavík