Met-tölur úr Djúpadalsá - 1007 fiskar
This entry was posted on 4. October 2008
.Djúpadalsá í Reykhólahreppi skilaði mjög góðri veiði í sumar en veiði lauk í ánni þann 30. september sl. og aldrei hefur Djúpadalsáin skilað meiri veiði. Lokatölur úr Djúpadalsá voru upp á 959 bleikjur, 26 laxa og 22 sjóbirtinga. Samtals 1007 fiska. Þessi afli fékkst á 2-3 stengur í sumar og er hér um frábæra veiði að ræða og met eins og víðast hvar.
Lítið vatn var í Djúpadalsá lengst af sumri og hamlaði það veiði að einhverju leyti en alltaf var þó góð veiði í ánni. Rétt eftir miðjan ágúst fóru leigutakar með fiskifræðingi í ána og verður afar fróðlegt að sjá skýrslu hans eftir tveggja daga rannsóknarvinnu við ána.
Kvóti á dag í Djúpadalsá var 30 fiskar í sumar sem mörg undangengin ár og gilti þá einu hvort veiðimenn veiddu á 2 eða 3 stengur. Eins og jafnan bókuðu veiðimenn aðeins hluta aflans og því ljóst að heildarafli úr Djúpadalsá var mun meiri en veiðibók gefur til kynna.
Hugur leigutaka stóð til tilraunaveiði á sjóbirtingi í Djúpadalsá eftir að hefðbundnum veiðitíma lauk um miðjan september. Miklir vatnavextir gerðu út um þær áætlanir, annað haustið í röð. Þó voru sumir heppnari en aðrir. Veiðimenn sem veiddu í ánni upp úr 21. september veiddu 10 sjóbirtinga, allt að 4 pundum. Komust þessir veiðimenn ekki akandi með allri ánni sökum vatnavaxta en lentu engu að síður í góðri veiði. Við bíðum eftir myndum frá þessum veiðitúr og munum birta þær hér um leið og þær berast okkur.
Á myndinni er Oddrún Bjarnadóttir með Maríulax sinn úr Djúpadalsá í sumar ásamt dóttur sinni.