Brjáluð aðsókn í Kolskegg - 3 laxar komnir á land úr Djúpadalsá
This entry was posted on 26. July 2009
.Flottúpan Kolskeggur er enn að gera það gott víða um land og aðsókn í þessa frábæru flottúpu er mikil. Við á Krafla.is höfum ekki undan að afgreiða Kolskegginn til viðskiptavina okkar og ef fram heldur sem horfir gæti svo farið að þessi vinsæla fluga verði uppseld hjá okkur síðar í sumar.
,,Ég var í Hofsá í Vopnafirði á dögunum og að sjálfsögðu með Kolskegginn meðferðis. Ég þurfti að leita að laxi og setti því Kolskegginn undir á flottúpu. Það var ekki að sökum að spyrja. Hvar sem ég renndi Kolskeggnum tóku hann laxar eða reyndu sig við túpuna. Kolskeggur er besta leitartækið sem ég hef reyunt í laxveiðinni," sagði Teitur Örlygsson við okkur á Krafla.is á dögunum.
Veiði í Djúpadalsá í Reykhólahreppi hófst þann 12. júlí sl. Ekki höfum við nákvæmar fréttir af veiði í ánni það sem af er en þó getum við sagt frá því að þrír laxar eru komnir á land og um 25 bleikjur að auki. Bleikjan virðist ganga síðar á þessum slóðum en í fyrra og nægir í því sambandi að nefna Fjarðarhornsá og Skálmardalsá.
Í frétt í dag á veiðivefnum Vötn og Veiði segir: ,,Sjóbleikjuveiði fyrir vestan fer fremur rólega af stað, en fiskur er þó eitthvað byrjaður að ganga. Í holli númer tvö í Skálmardalsá veiddust ekki margar bleikjur, en hins vegar kom mönnum nokkuð á óvart að sjá tvo laxa í ánni og náðist annar þeirra."