Velkomin(n) á vefverslun Kröflu

Cart:

0 item(s) - 0 kr
Það eru engar vörur í körfunni þinni.

0

Vigtin á að ráða en ekki málbandið

Hörður Hafsteinsson með rígvænan lax sem tók svarta Kröflu í Húseyjarkvísl.

Hörður Hafsteinsson með rígvænan lax sem tók svarta Kröflu í Húseyjarkvísl.

Það eru nýir tímar í laxveiðinni á Íslandi. Hér áður fóru menn í veiðitúr, veiddu laxa og vigtuðu og fiskar voru metnir í pundum. Laxarnir voru skráðir samviskulega í veiðibækur. Í dag heimtar ný kynslóð að allir fiskar séu mældir í bak og fyrir í centimetrum og almættið, Veiðimálastofnun, gefur út lista fyrir veiðimenn þar sem hver centimetri gefur fyrirheit um ákveðin grömm. Öll þessi nýju viðmið koma í stað ákveðinna staðreynda sem ekki voru véfengdar áður fyrr og ekki var hægt að draga í efa. Í dag er leikur einn að draga allt í efa sem lítur að laxveiðinni. Efinn og óvissan hafa tekið völdin.

Í gamla daga, þegar allir hlutir er varða stangaveiðina voru einfaldir og skírir, var öll skráning einföld og örugg. Menn drápu stóra fiska sem þeir veiddu á efstu svæðum ánna. Komu með þá ,,til byggða" og sýndu félögunum og þeir voru vigtaðir. Í dag nægir að koma í hús og segja sögur. ,,Við náðum einum sem var 108 cm og hann var svakalega sver. Gott ef hann var ekki óvenjulangur líka." Þegar hér er komið sögu spyrja æstir veiðifélagar hvort að myndavélin hafi ekki verið meðferðis. Þá kemur það alltof oft fyrir að myndavélin gleymdist. Varð eftir í veiðihúsinu eða að hún var víðs fjarri í bílnum.

Þessum frásögnum er betur trúað í dag en sögum veiðimanna áður fyrr þegar komið var í veiðihús með sönnunargögnin í skottinu.  Án nokkurra sannana eru þessir fiskar skráðir í veiðibækur og oftar en ekki skotið á þyngdina. Auðvitað er ekkert er að marka þær tölur. Eins og reyndir veiðimenn vita þá er 102 cm langur lax ekki það sama og 102 cm langur lax. Ekki frekar en að tveir karlmenn sem eru 1,86 metrar á hæð eru ekki undantekningarlaust 95 kg að þyngd. Annar gæti verið 96 kg en hinn hæglega yfir 120 kg eða eitthvað ennþá meira.

Þorsteinn F. Guðmundsson með lax sem hann veiddi á Kolskegg í veiðiferð á austari bakka Hósár.

Þorsteinn F. Guðmundsson með lax sem hann veiddi á Skrögg flottúpu í veiðiferð á vestari bakka Hósár sl. sumar.

Að veiða og sleppa er mjög göfugt markmið hvers veiðimanns. Þessu fylgja hins vegar stórir kostir og gallar. Að sleppa fiski í ána aftur eftir skemmtilega viðureign er  veiðimönnum kærkomin athöfn. Með tilkomu veiða og sleppa var tilgangurinn fyrst og fremst sá að efla getu ánna til sjálfbærni. Að laxarnir sem stæðu að hrygningu í ánum væru þess megnugir að ,,framleiða" nægilega mörg seiði árlega til að viðhalda stofni árinnar án utanaðkomandi aðstoðar eða sleppingu seiða.

Stærstu gallarnir við að sleppa veiddum fiskum aftur í árnar eru augljóslega þeir að allar skráningar eru í kjölfarið nánast marklausar enda oftar en ekki háðar ágiskunum eða  löskuðu hugmyndaflugi veiðimanna. Þetta eru stórir gallar þar sem rétt skráning afla er algjört grundvallaratriði og afar mikilvægt að allar tölur séu réttar en ekki ágiskanir út í loftið.

Leave a Reply
© 2018 Skrautás Ehf. - Sími 6982844 - kt. 520799-2149 - vsk nr. 63003 [email protected] - Leiðhamrar 39 - 112 Reykjavík