Settu í 8 laxa á opnunardegi Norðurár en náðu 5 - 5 af 8 tóku Kolskegg og Kröflu
This entry was posted on 5. June 2010
.,,Þetta var mjög skemmtileg viðureign. Laxinn var búinn að vera á eftir Kolskeggnum í nokkur skipti og svo endaði hann á því að negla hann," sagði Árni Friðleifsson, stjórnarmaður í Stangaveiðifélagi Reykjavíkur, í samtali við Krafla.is í gærkvöld en þá var veiði nýlokið fyrsta veiðidaginn í Norðurá og verður að segjast eins og er að fyrsti dagurinn lofar góðu. Veiðimenn settu í 8 laxa en 5 þeirra komu á land. Árni fékk laxinn á Kolskegg í veiðistað rétt ofan við Myrkhyl sem nefnist Einbúi. Árni fékk annan lax í Myrkhyl og var því með tvo laxa í gær.
Nokkuð líf var í mörgum veiðistöðum Norðurár í gær. Greinilegt var að lax var að ganga um Munðarnessvæðið en þar voru þeir Jón G. Baldvinsson og Gunnar Örn Pétursson við veiðar. Jón setti í einn lax í Stekknum. ,,Þetta var mjög skemmtileg taka. Hann var búinn að koma nokkrum sinnum á eftir Kolskeggnum en endaði síðan á að ráðast á hann með miklum látum. Þetta var mjög skemmtilegt," sagði Jón í samtali við Krafla.is í gærkvöld. Gunnar Örn setti í þrjá laxa en heppnin var ekki með honum í gær og hann missti þá alla. Tveir laxanna tóku Kolskegg og einn Kröflu orange keilutúpu. Sannarlega líflegur dagur á Munaðarnessvæðinu í gær.
Loks veiddu hjónin Bjarni Júlíusson og Þórdís Klara Bridde fallega laxa í Myrkhyl á fyrstu vaktinni. Það var nokkuð um lax í Norðurá í gær en veiðimenn stóðu andspænis mjög erfiðum aðstæðum, mjög litlu vatni og mikilli birtu. Laxar sáust í Myrkhyl, á öllu svæðinu í nágrenni Laxfoss, í Krossholu, Klingenberg og Berghylsbroti og víðar. ,,Þetta var nokkuð líflegt og ég man ekki eftir opnun í Norðurá í fljótu bragði þar sem lax var svona dreifður um ána á þessum árstíma," sagði Guðmundur Stefán Maríasson, formaður Stangaveiðifélags Reykjavikur í samtali við Krafla.is i gærkvöld.
Það verður gaman að fylgjast með framhaldinu í Norðurá og greinilegt að flugan okkar Kolskeggur ætlar að gera það gott og byrja veiðisumarið eins og hún endaði sumarið í fyrra. Við munum áfram fylgjast með gangi mála og flytja fréttir hér á Krafla.is