Bjarni lenti í ótrúlegri veiði á Beygluna
This entry was posted on 4. July 2010
.,,Þetta var svakalega skemmtileg veiði. Það er mikill silungur í Selvallavatni og gaman að veiða þar. Það er líka gaman þegar nýjar flugur stimpla sig inn með eftirminnilegum hætti. Beyglan kom svo sannarlega skemmtilega á óvart og við höfum einnig veitt mjög velæ á Beygluna í Hraunsfirðinum. Fyrir mér er það ekki vafamál lengur að Beyglan er afburða sterk fluga í silungsveiði," sagði Bjarni Júlíusson, fyrrverandi formaður Stangaveiðifélags Reykjavíkur, í samtali við okkur á Krafla.is
,,Ég var við veiðar í Selvallavatni á Snæfellsvatni á dögunum með syni mínum Hafþóri Bjarna. Ég fékk strax fisk í fyrsta kasti á Krókinn. Þegar leið nokkur tími án þess að ég yrði var setti ég Beyglu undir. Það var eins og við manninn mælt. Það varð allt vitlaust. Ég landaði 8 fallegum urriðum og missti annað eins. Þetta var alveg mögnuð reynsla því nálægt mér voru menn að veiða á hinar og þessar flugur en ekkert gekk. Beyglan er nokkuð sérstök silungapúpa og efnið í vængjunum sérstakt í meira lagi. Það getur verið að það hafi skipt sköpum því mjög mikið magn var af fiðrildum á svæðinu. Allavega var þetta ótrúlega skemmtileg veiði á Beygluna sem verður lengi í minnum höfð," sagði Bjarni Júlíusson.
Beyglan er silungafluga eftir Gylfa heitinn Kristjánsson . Með síðustu flugum sem sá mikli snillingur hannaði. Beyglan hefur verið vanmetin en hún er gríðarlega sterk silungafluga. Við erum sem aldrei fyr að heyra sögur af mikilli veiði á þessa sérstöku flugu og þær eiga örugglega eftir að verða mun fleiri í framtiðinni.