Fyrstu tveir laxar sumarsins í Hítará tóku Kröfluflugur
This entry was posted on 18. June 2011
.Hítará var opnuð í gær, laugardag og tókst veiðimönnum að landa tveimur löxum þrátt fyrir erfiðar aðstæður en mjög mikið rok var við Hítará í gær og gerði mönnum lífið leitt.
Björn Bergsteinn Guðmundsson veiddi fyrsta lax sumarsins á 1/2" þyngda Skröggtúpu með keilu á Breiðinni. Var fiskurinn mjög sprækur enda 11 punda tveggja ára fiskur á ferðinni. Annar fiskur kom á land á sama stað í gær. Guðbjörg Alfreðsdóttir veiddi hann á sama stað og tók fiskurinn Iðu túpu. Var um smálax að ræða en áður hafði Guðbjörg misst vænan tveggja ára lax sem einnig tók Iðuna.
,,Þetta var mjög erfitt og rokið var mikið. Það er eitthvað komið af laxi í Hítará og ef rokið minnkar verður þetta viðráðanlegra," sagði Sigurður Hauksson í samtali við Krafla.is í gærkvöldi en hann er í opnunarhollinu sem lýkur veiði á hádegi á mánudag.
Kröfluflugurnar voru því að gera það mjög gott í gær í Hítará og Flóku eins og sjá má hér á síðunni.
Við eigum von á myndum frá opnun Hítarár og birtum þær um leið og tækifæri gefst.