Fyrsti laxinn í Dunká tók Iðuna hjá Róberti
This entry was posted on 6. July 2012
.
Grétar Þorgeirsson leiðsögumaður og sonur hans Róbert með fyrstu tvo laxana sem komu á land í Dunká á Skógarströnd þann 1. júlí sl..
,,Þetta var mjög skemmtileg taka. Ég sá þegar hann kom og tók Iðuna með miklum látum." sagði veiðimaðurinn Róbert Grétarsson í samtali við Krafla.is en Róbert setti í og landaði fyrsta laxi sumarsins í Dunká á Skógarströnd. Áin var opnuð 1. júlí sl. og veiðimenn sem opnuðu ána í einn og hálfan dag fengu 3 laxa og misstu einn.
Lítið vatn var í Dunká í opnuninni þrátt fyrir að áin hafi enn óvenjumikil mikil snjóalög til fjalla. Stangaveiðifélag Reykjavíkur er nú með ána á leigu í fyrsta skipti og veitt er á tvær stengur. Áin býður upp á fallega flugustaði en einnig eru í ánni kjörnir staðir til maðkaveiði. Strax og vatn eykst í Dunká má reikna með að veiði taki verulega við sér, hafi það ekki þegar gerst. Töluvert er til af óseldum leyfum í Dunká í ágúst og september.
Aðstaða við Dunká í veiðihúsi er til mikillar fyrirmyndar. Smíðaður hefur verið nýr pallur við húsið. Í því eru 3 herbergi og þar er allt til alls.

Hér er Róbert nýbúinn að landa 5 punda hrygnu á litla þunga Iðu keilutúpu.

Fyrstu tveir laxarnir komu úr efri veiðistaðnum á myndinni. Eins og sjá má var vatn lítið í ánni en það stendur eflaust til bóta.