Vörumerkjalögin þverbrotin - Eigendur veiðibúða selja flugur án leyfis og virða alls ekki höfundarréttinn
This entry was posted on 7. September 2012
.Árum saman hefur það viðgengist hér á landi að eigendur margra veiðiverslana hafa selt og látið framleiða fyrir sig íslenskar flugur eftir íslenska fluguhönnuði án þess að hafa til þess leyfi frá höfundum flugnanna. Einnig hafa þessir aðilar breytt mörgum flugum og látið framleiða fyrir sig hin ýmsu afbrigði án þess að fá til þess leyfi höfunda. Hér er vitaskuld um að ræða lögbrot og algjöra lítilsvirðingu við höfunda flugnanna og þeirra verk.
Við í Veiðibúðinni Kröflu seljum og látum framleiða fyrir okkur flugur eftir feðgana Kristján heitinn Gíslason, Gylfa heitinn Kristjánsson og Stefán Kristjánsson. Á meðan að Kristján hafði heilsu til hnýtti hann flugur sínar fyrir verslanir hérlendis ásamt Gylfa og Stefáni. Kristján Gíslason lést árið 1999. Árið 2004 fórum við, aðstendendur Kristjáns Gíslasonar, af stað í þá vinnu að láta framleiða fyrir okkur flugur Kristjáns erlendis og um mitt ár 2005 var framleiðslan orðin það góð að við töldum flugurnar mjög fallegar og sterkar, nokkuð sem alla tíð einkenndi flugur Kristjáns. Höfðum við þá einnig skráð Kröflu sem vörumerki.
Fljótlega eftir að Kröfluflugurnar fóru að ná fótfestu á markaðnum á ný og vekja mikla athygli fiska og veiðimanna buðum við öllum verslunum í veiðigeiranum að kaupa okkar flugur af okkur í heildsölu og selja í verslunum sínum. Örfáar verslanir þáðu þetta boð okkar. Aðrar báru fyrir sig of háu verðlagi. Þessar verslanir ákváðu síðan að láta framleiða flugurnar okkar fyrir sig erlendis fyrir slikk í mun minni gæðum og selja undir okkar nöfnum án leyfis okkar og brjóta þar með vörumerkjalögin.
Einn stærsti söluaðilinn á markaðnum í dag sem rekur verslanirnar Veiðihornið í Síðumúla, Sportbúðina Krókhálsi, Veiðibúðina við Lækinn og netverslanirnar Flugan.is og Veiðimaðurinn.is sagði við okkur fyrir nokkrum árum að hann mæti mjög mikils framlag Kristjáns Gíslasonar í flugumálum og það sem við hjá Kröflu værum að gera og að hann myndi aldrei nokkurn tíman trufla okkar starfsemi hjá Kröflu með því að selja okkar flugur í sínum verslunum og kaupa þær frá öðrum en okkur. Þar sem ég stóð í verslun Ólafs Vigfússonar í Krókhálsi, anspænis eigandanum sjálfum, kom ekki annað til greina en að trúa því sem hann sagði. Í dag kannast þessi verslanaeigandi auðvitað ekki við þessi orð og sakar okkur um lygar og að tala gegn betri vitund. Um nokkurt skeið hefur hann látið framleiða fyrir sig og selt margar af okkar flugum undir okkar nöfnum án þess að hafa til þess leyfi frá okkur. Eigandi þessara verslana hefur því þverbrotið vörumerkjalög og ráðskast með eigur annarra eins og honum sýnist. Er rétt að veiðimenn viti að okkar flugur eru til sölu í þessum verslunum án okkar leyfis og þær eru alls ekki frá okkur komnar. Við höfum fengið margar kvartanir vegna þessara lélegu eftirlíkinga. Við tökum hins vegar enga ábyrgð á hrikalega lélegum eftirlíkingum á Kröfluflugum, að okkar mati, sem þarna eru seldar.
Eigandi ofangreindra verslana er fjarri því að vera eini aðilinn á markaðnum sem er að selja okkar flugur án leyfis frá okkur. Flestar verslanir í Reykjavík, að Veiðiflugum, Vesturröst og Ellingsen undanskildum, eru að selja einhverjar Kröfluflugur án þess að hafa til þess leyfi. Veiðiflugur hafa aldrei selt okkar flugur og yfirmaður veiðideildar Ellingsen sagði okkur á dögunum, þegar hann kom í verslun okkar til okkar að kaupa flugur, að Ellingsen seldi ekki lengur okkar flugur og hefði í raun hætt því í fyrra. Vesturröst kann að eiga einhverjar gamlar flugur frá okkur séu þar enn í fluguborðinu. Þær ættu að vera auðþekktar enda eftirlíkingarnar afar illa hnýttar og endast mjög illa. Sumar verslanir, eins og til dæmis Veiðiportið, hafa leyft sér að breyta flugum okkar í algjöru leyfisleysi en selja þær áfram undir okkar nöfnum. Oftast er í eftirlíkingunum notað kolrangt efni og snarvitlausir litir og undarlegt að verslunareigendurnir skuli ekki hafa meiri metnað í flugumálum. Svo ekki sé talað um siðferði þessara kaupmanna sem virðist ekki lítið heldur ekkert. Rétt er að taka fram að Hlað á Húsavík er að selja okkar flugur með okkar leyfi.
Í fyrra sendi lögfræðistofa okkar mjög ítarlegt bréf til allra veiðiverslana í Reykjvík þar sem þeim var tilkynnt að þær væru að selja flugur okkar í leyfisleysi og brjóta vörumerkjalög. Ein verslun, Ellingsen, hefur brugðist við bréfinu og hætt að selja flugurnar. Biðjum við veiðimenn að láta okkur vita ef þeir sjá þær þar í borðum. Við munum fljótlega birta umrætt bréf hér á Krafla.is
Við treystum á stuðning veiðimanna og vitum reyndar að lang stærstur hluti þeirra vill ekki versla hjá aðilum sem fara ekki að lögum og reglum. Allir þeir veiðimenn sem við höfum rætt við um þessi mál fordæma og fyrirlíta þá aðila sem taka flugur hinna ýmsu hönnuða og selja þær og breyta þeim án leyfis í verslunum sínum.
Við hjá Veiðibúðinni Kröflu höfum leitað til virtrar lögfræðistofu og niðurstaða lögfræðinga þar er eindregin og afdráttarlaus, allur réttur í þessum málum sé okkar megin. Við vitum að framundan eru mjög merkilegir hlutir í haust varðandi réttindamál allra fluguhönnuða og við hjá Kröflu erum alls ekki þeir einu sem blöskrar framkoma lögbrjótanna. Nú verður látið sverfa til stáls í þessum málum og tekið af fullri hörku á lögbrotum þar til sigur vinnst.
Við hvetjum veiðimenn til að fylgjast með.