Allt annar lax á ferðinni nú en í fyrra
This entry was posted on 20. June 2013
.Miklar fréttir berast þessa dagana frá mörgum laxveiðiám og í þeim öllum er sami tónninn, mikill lax að ganga og þetta lítur mjög vel út. Og einnig eru menn sammála um að laxinn sem veiðst og sést hefur sé óvenju feitur og pattaralegur og mun betur á sig kominn en til að mynda í fyrra.
Þrátt fyrir að nokkur öflug teikn séu á lofti um góða veiði í sumar er rétt að hafa vaðið fyrir neðan sig. Varla eru menn búnir að gleyma byrjun laxveiðitímabilsins í fyrra. Hvernig þetta allt leit svo stórkostlega út um mánaðamótin júní/júlí og hrundi svo gjörsamlega á nokkrum dögum í upphafi júlí.
Veiðin sjálf virðist byrja álíka vel og í fyrra, eilítið betur ef eitthvað er. Næstu dagar eða tvær vikur í mesta lagi skera úr um það hvort sumarið verður gott eða slæmt. Afar fróðlegt verður að sjá hvernig göngur verða í Jónsmessustrauminn sem er núna um helgina.
Farið er að bera á töluverðu magni af smálaxi í flestum þeim ám sem opnað hafa og vitrir menn segja það ávísun á sterkar göngur smálaxa. Laxá í Kjós, Straumfjarðará, Laxá í Leirársveit, Hítará, Fnjóská, Laxá í Aðaldal og eflaust einhverjar fleiri hafa allar gefið fallega laxa í upphafi vertíðar og Guð láti gott á vita.
Varðandi Norðurá má benda á ágæta veiði í Straumunum þar sem Norðurá rennur í Hvítá. Þessir sömu vitru menn segja að ef vatn er mikið í Norðurá eins og verið hefur frá upphafi veiðitíma þá eigi lax alls ekki að stoppa í Straumunum heldur ganga rakleitt í Norðurá. Þrátt fyrir þetta mikla vatn í Norðurá hefur veiði verið ágæt í Straumunum og menn halda að það viti á meiri umferð laxa en til að mynda í fyrra.