Velkomin(n) á vefverslun Kröflu

Cart:

0 item(s) - 0 kr
Það eru engar vörur í körfunni þinni.

0

Sögur af fluguveiði

  • Eg bíð spenntur

    Það er ánægjulegt til þess að vita að aðstandendur Kristjáns Gíslasonar ætli að opna heimasíðu og netverslun á vefnum með fréttum og myndum af veiðiflugum föður síns og gefa þar með fólki kost á að sjá þær og kaupa.

    Eflaust fagna margir þessu frábæra framtaki, því flugurnar hans Kristjáns Gíslasonar hafa verið ófáanlegar til fjölda ára.

    Ég veiddi mest megnis á flugur Kristjáns í ein 30 ár og bíð því spenntur eftir að reyna á ný gömlu góðu gersemarnar: Rækjuna, Hairy Mary (rauðbrúna), Eldrössu, Grímurnar í ýmsum litum, Kolskegg, Skrögg, Arnæus og allar marglitu Kröflunar.

    Með þakklæti fyrir framtakið,
    Rafn Hafnfjörð

  • Laxness fluguhnýtinganna?

    Já, krafla púnktur is

    Það er sérstakt gleðiefni að opnuð hefur verið heimasíða með heiti þessarar merku flugu Kristjáns Gíslasonar; Kröflu. Og vonandi verða alltaf til snillingar sem hafa getu til að hnýta hana rétt og veiðilega. Sjálfur er ég ekki í þeim hópi.

    Ég hef stundum keypt þessa flugu í verslun en ekki oft. Hún þarf að vera rétt hnýtt. Ég hef auðvitað misnotað tengsl mín við Gylfa Kristjánsson til að nálgast eintök og fengið hjá honum Kröflur sem hann hnýtti sjálfur. En auk þess hef ég fengið nokkur eintök sem pabbi hans gerði, meistarinn sjálfur. Það eru náttúrulega gersemar.

    Margt er óvenjulegt í kringum flugurnar hans Kristjáns. Það sem mér hefur oft fundist athyglisvert við þær er hversu aggresívar þær eru í útliti. Allavega margar þeirra. Ef þetta væru manneskjur þá myndu þær tilheyra pönkinu; ýfðar, gaddaðar og árásarkenndar. Dálítið merkilegt að bera þær saman við höfundinn sjálfan; hann sem var sjálfur svo meinhægur og lambrólegur. Ekkert nema kurteisin og geðprýðin. En þannig var t.d. Halldór Laxness líka. Eins og í mótsögn við hrikaleg átökin í bókum sínum. Sjálfur snyrtilegur í sínum stífpressuðu buxum, en böðaföllin á blaðsíðunum hreint ótrúleg. Hvaðan kemur þetta eiginlega? Kannski er Kristján Gíslason eins konar Laxness fluguhnýtinganna? Hefði reyndar verið alveg kjörið að biðja hann að hanna flugu með þessu nafni; Laxness. Kannski búið að því? Best ég skori hér með á Gylfa son hans að hnýta flugu með heitinu Laxness. Ég vil verða vitni að hönnuninni frá byrjun og hafa tillögurétt. Það er krafa.

    Ég hef séð nokkrar flugur verða til hjá Gylfa. Það er býsna sérkennilegt að sjá það gerast. Sjálfur hef ég t.d. hannað straumflugu sem hefur gefið mér góða veiði; hún heitir Rakki. Ég hannaði hana út frá pælingum um aðrar þekktar flugur og blandaði saman hinu og þessu sem mér fannst gáfulegt. Hélt að þannig að ætti að gera þetta. En hjá Gylfa er þetta einhvern veginn öðruvísi. Stundum liggja þrjár eða fjórar nýjar útgáfur á borðinu þegar ég kem inn í herbergið til hans. Og allt er rólegt. Hann segir ekkert. Ég horfi á flugurnar. Hann horfir á mig. Ég bendi á eina þeirra og segi; ,,Það er eitthvað við þessa.'' Hann svarar engu fyrst, en bendir svo á aðra flugu og segir; ,,Já, ég er svo sem alveg sammála, en finnst þér ekki magnað hvernig liturinn í vængnum á þessari virkar með vafningnum svona aftarlega?''. Þá segi ég kannski; ,,Tja...ég var nú ekki alveg að pæla í því.... er þetta ekki eitthvað skrýtið?'' Svo förum við út úr herberginu og snúum okkur að leiknum í sjónvarpinu. Næst þegar ég kem í heimsókn er bara ein fluga á borðinu. Hún er venjulega einhver blanda af hinum fyrri. Og hún er ekki endilega lík neinu í dýraríkinu... en það er eitthvað mikið við hana. Svo er henni kastað í næsta veiðitúr og oftar en ekki verður allt vitlaust.

    Það er einhver nettur galdur á bak við það að búa til góða veiðiflugu. Þegar t.d. Krókurinn varð til fannst mér hún strax veiðileg. En samt asnaleg að sjá í fyrsta sinn; einhvern veginn svo öfug eitthvað. Og við fórum saman suðrí Eyjafjarðará þar sem Jón Ágúst Bjarnason, föðurbróðir minn sem stundum er kallaður Krókurinn, var látinn vígja hana. Og guð minn góður. Hann gersamlega hreinsaði allt af veiðisvæðinu. Flugan var skírð í hausinn á honum.

    Já, hæfileikinn til að hanna veiðiflugur getur greinilega gengið í erfðir. En það er fyrst og fremst gaman að þessu öllu saman. Eða eins og einn lífsglaður vinur minn segir stundum og hefur sem nokkurs konar mottó í lífinu: ,,Þetta er best sem vitlausast!''

    Bjarni Hafþór Helgason

  • Eiga heiðursstað í mínum boxum

    Hvaða flugur koma fyrst upp í hugann er maður leitar í smiðju Kristján Gíslasonar? Jú, auðvitað er það Kraflan, Skröggur líka, Gríma má ekki gleymast og svo auðvitað Analíus. Allar eiga þessar flugur heiðursstað í mínum fluguboxum.

    Síðan ég hóf mína laxveiði fyrir alvöru veiðandi með flugustöng þá hef ég veitt á flugur hans. Ég verð að hafa þær með er ég fer í veiðitúr, annars líður mér einfaldlega ekki nógu vel. Maður verður nefnilega að trúa á þær flugur sem maður hefur undir og með árangrinum eflist trúin.

    Það er dálítið sérstakt með flugur hans að ég það til að binda ákveðinn veiðistað við eina eða fleiri. Til að mynda þegar ég veiði Kálfahagahyl Stóru-laxá að hausti til. Þar nota ég Kröflu, verður að vera rauð, tommu-löng. Þegar ég er með hana undir í Stóru er ég ávallt meira en viðbúinn töku. Þegar ég fer í Hítará í júlí eða ágúst verð að ég vera með Analíus og Skrögg og þá í litlum stærðum, # 12 og minni. Man eftir júlí-veiði fyrir um 8 árum, var að veiðum í Túnstreng 3. Flotlína, mikið vatn, dumbungur, topp-aðstæður. Ég reyndi ýmsar flugur með litlum árangri. Opnaði svo síðasta boxið í vestinu og Analíus # 14 varð fyrir valinu. Skömmu seinna var ég búinn að landa 5 löxum. Síðustu ár hef ég tekið marga laxa á hana.

    Ég varð það lánsamur að hitta Kristján áður en hann féll frá. Ég hef lesið allar hans bækur. Það er og verður alltaf heiður að hnýta hans flugur undir og leggja fyrir lónbúann.

    Kær kveðja, Sturla Örlygsson

  • Iða - "Stærri sporð hef ég aldrei séð"

    Skilin á réttum stað, en kannski helst til of bjart yfir. Í það minsta tók enginn lax fyrr en rökkvaði.

    Skilin á réttum stað, en kannski helst til of bjart yfir. Í það minsta tók enginn lax fyrr en rökkvaði.

    Sumir segja að Iða megi muna sinn fífil fegri og víst era ð veiði hefur minnkað þar og staðurinnhefur breyst, en hann er eigi að síður sveipaður dulúð og einn af þeim stöðum þar sem menn búast hvað helst við stórlaxi, á sama tíma og þeim fiski fækkar óðum hér á landi. Stefán Kristjánsson hjá www.krafla.is er með kunnugri mönnum á Iðu og það er fjölskyldumál.hann kynnir svæðið hér fyrir okkur og segir hrikalegar veiðisögur.

    Á nokkur hundruð metra löngum kafla liðast þær saman, Hvítá og Stóra Laxá í Hreppum. Þetta er veiðisvæðið við Iðu í Biskupstungum. Iðan lætur ekki mikið yfir sér, séð úr fjarlægð. Yfir að líta, einkum í vænu vatni, eru sérstakir veiðistaðir vandséðir enda má segja að allt svæðið sé einn samfelldur veiðistaður. Þegar komið er á svæðið blasir fegurðin við sem einkum lýsir sér í mismunandi strumlagi og fjölbreytileika sem jafnnan ræðst þó af aðstæðum hverju sinni.

    Guðjón G. Ögmundsson með 20 pundara af Iðu sem hann tók á rauða Kröflu

    Guðjón G. Ögmundsson með 20 pundara af Iðu sem hann tók á rauða Kröflu

    Iðan er rómað stórfiskasvæði. Óvíða hafa veiðst fleiri vænir laxar í gegnum áratugina. Hin síðari ár hefur þeim þó fækkað verulega á Iðunni sem annars staðar. Á Iðunni veiddi ég minn stærsta lax. Þar hef ég sett í stærstu laxa sem ég hef komist í kynni við. Þar hef ég orðið vitni að gífurlegum bardögum við stórlaxa. Átökum sem eiga sér vart hliðstæður. Á Iðunni hef ég misst 10 laxa á einum og sama deginum. Iðan er krefjandi veiðisvæði og alls ekki sama hvernig staðið er að veiðunum. Af þessum ástæðum og mörgum öðrum er veiðisvæðið við Iðu uppáhaldsveiðistaðurinn minn.

    Nokkru fyrir fermingu naut ég þeirra forréttinda að vera fastagestur með föður mínum, Kristjáni Gíslasyni og veiðifélögum hans við Iðu. Varð mér snemma ljóst að þar fóru engir venjulegir veiðimenn. Félagar okkar voru jafnan þeir Gunnlugur Pétursson og bræðurnir Ragnar og Pétur Georgssynir. Þegar mætt var á árbakkann í litla veiðikofann var jafnan byrjað á því að kanna aðstæður. Snemma lærði ég að draga mig út úr hópnum og leggja við hlustir. Einkum var þetta spennandi í fyrsta veiðitúr hvers sumars. Þá upphófust miklar samræður og spekúlasjónir. Alveg merkilegt hvernig þessi einstöku náttúrubörn gátu séð og munað hreyfingar sandeyra í þessu mikla vatni. Hversu langt hin og þessi eyrin hefði náð í fyrra og hvar nýjar eyrar hefðu myndast, straumlag breyst frá fyrra ári.

    Á þessum árum rann Stóra Laxá að öllu leyti með bakkanum og veiðisvæðið því á allt öðrum stað en í dag. Eftir að stórslysið átti sér stað, þegar bændur ákváðu að byggja gríðarmikinn grjótgarð efst á svæðinu, beindu þeir Stóru Laxá frá bakkanum og veiðisvæðið allt færðist mun utar. Gamli farvegur Stóru Laxár fylltist af sandi og í dag er ekið yfir gamla veiðisvæðið til veiða á nýju svæði.

    Einar Birnir með 16 pundara af Iðu. Þessi tók Rauða Kröflu eins og svo margir aðrir á Iðu

    Einar Birnir með 16 pundara af Iðu. Þessi tók Rauða Kröflu eins og svo margir aðrir á Iðu

    Veiðin við Iðu gat verið ævintýraleg. Mitt hlutskipti fyrstu árin var að aðstoða menn við löndun, fara með laxana að veiðihúsinu, plasta og setja síðan hvern fisk á réttan stað. Til að vera nú alveg viss um hver ætti hvaða afla raðaði ég löxunum út frá dekkjum bílsins sem næstur stóð veiðihúsinu. Voru þessar raðir oft langar og glæsilegar á að líta í lok veiðidaga enda 30-40 laxa dagar algengir á þessum árum. Oft veiddist vel fyrri partinn og morgnarnir voru oft ævintýralegir. Var alls ekki óalgengt að allar þrjár stangirnar væru kengbognar rúmlega sjö að morgni.

    Um þetta leyti voru 15-20 punda laxar sjálfsagður hlutur í aflanum. Menn kipptu sér ekkert sérstaklega upp við slíka fiska og síður en svo þóttu þeir frétaefni. Það var ekki fyrr en laxarnir voru komnir fast að 25 pundum og þar yfir að þeir vöktu sérstaka athygli og umtal. Og eins og alltaf réðu menn illa við þá stærstu.

    Ég man eftir fiski sem faðir minn setti í einn daginn. Veður var þungbúið og nokkur vindur stóð niður veiðisvæðið. Laxinn tók Skrögg og tók þegar á rás langt út í Hvítá, langt niður á undirlínu. Síðan synti hann hægt en örugglega upp Hvítá gegn þungum straumi jökulárinnar og fullu átaki tveggja handa flugustangarinnar sem var bogin upp í skaft. Eftir allt þetta puð gaf hann loks eftir og lét sig sakka niður Hvítána. Um leið og hann nálgaðist vatnaskil ánna hélt hann aftur af stað og endurtók þetta afrek tvívegis. Í miðri fjórðu ferðinni var allt laust. Þessi fiskur sást aldrei, hélt sig alltaf fast við botninn. Faðir minn taldi nokkuð víst að þar hefði verið stærsti fiskur sem hann hefði komist í kynni við á löngum ferli.

    Kristján heitinn Gíslason með stórlax af Iðu, 16 punda, einn af ellefu löxum sem tóku fluguna Garp þennan eina stórveiðidag.

    Kristján heitinn Gíslason með stórlax af Iðu, 16 punda, einn af ellefu löxum sem tóku fluguna Garp þennan eina stórveiðidag.

    Það er af nógu að taka þegar rifjaðir eru upp gamlir tímar við Iðu. Eftir að veiðisvæðið færðist frá árbakkanum á núverandi stað hefur að vísu dregið úr ævintýrum við Iðu en engu að síður er margs að minnast.

    Nú er ekið á bílum út að stólum og borði sem eru bækistöðvar veiðimanna á miðju svæðinu. Efsti hluti veiðisvæðisins er mjög laglegur. Þar er straumur einstaklega veiðilegur í góðu vatni en betra að fara varlega vegna sandbleytu. Í raun er ekki nema fyrir fullvaxna ,,vaðfugla" að veiða þennan hluta svæðisins, sérstaklega í góðu vatni. Yfirleitt fara menn ekki ofar en að svokallaðri efri eyri.

    Frá efsta hluta stóru eyrarinnar, þar sem bækistöðin er að efri eyrinni, slitnar eyrsvæðið í sundur á nokkrum kafla. Er þá nokkur vaðall frá efsta odda stóru eyrarinnar að neðri hluta efri eyrar. Við efri eyri getur fiskur verið um allt og langt inn á Laxárvatni ef því er að skipta, sérstaklega snemma morguns. Gildir þetta raunar um allt veiðisvæðið og því alltaf betra að fara afar varlega fyrst á morgnana enda getur lax þá legið á mjög grunnu vatni við landið. Hefur það oft gerst að lax hefur tekið í fyrsta kasti og áður en menn hafa komið sér upp hæfilega langri línu.

    Frá efri hluta stóru eyrarinnar, skáhalt upp frá bílunum, og nokkuð niður fyrir bíla er einn fallegasti bletturinn á svæðinu. Þar er gríðarlega fallegur straumur og kanturinn, sem að allt gengur út á, sérlega fallegur. Neðsti hluti svæðisins köllum við Flatann. Hin síðari ár er hann nánast óveiðandi nema í mjög góðu vatni.

    Þrátt fyrir allt þetta mikla vatn við Iðu eru ekki mörg veiðisvæði sem eru viðkvæmari fyrir veðri og vatnsmagni. Kann mörgum að finnast þetta skrítið en staðreynd er þetta engu að síður. Bjart veður er helsti óvinurinn. Þá færir laxinn sig vel út og undir jökulkápuna, er mjög var um sig og erfitt reynist að ná til hans. Rétt utan við stóru eyrina er brattur kantur. Öllu máli skiptir að skil ánna séu vel utan við kantinn. Heppilegast að skilin séu um það bil 10-15 metra utan við kantinn. Við Iðu velta aðstæður á vatnsmagni í tveimur ám. Ef mikið vatn er í Hvítá og lítið í Stóru Laxá geta skilin færst inn fyrir kantinn og þá er hægt að pakka saman og halda heimleiðis. Einnig ef Stóra Laxá tekur upp á því að vaxa mikið og litast. Þá er slýrek í Stóru Lxá í hópi skæðustu óvina veiðimanna.

    Jón Hilmarsson í pásu. Þetta eru sérkennileg skilyrði, borð og stólar og jeppi út í miðju stórfljóti....

    Jón Hilmarsson í pásu. Þetta eru sérkennileg skilyrði, borð og stólar og jeppi út í miðju stórfljóti....

    Þann 19. september 1994 vorum við búnir að veiða ágætlega við góðar aðstæður. Fljótlega upp úr kvöldmat tók að skyggja og þegar klukkan var rúmlega áttta var orðið mjög rökkvað. Og það get ég sagt að rökkurveiði við Iðu í september, þegar eitthvað er af fiski á svæðinu, er spennandi. Þú veist alltaf af þessum drekum sem þarna eru á sveimi. En þú veist aldrei hversu stór fiskur getur áður en varir gripið fluguna. Við Iðu getur þú átt von á 5 punda fiski og 25 punda fiski. En áfram með smjörið. Það var komið að mér og klukkan hálf níu sá ég ekki lengur hvað klukkan var. Við þessar aðstæður kastar maður eftir minni og það er betra að vera með allt sitt á hreinu. Flækjur á taumi eða óreiða á flugulínu eru ekki vinsælar. Ég man að ég hugsaði um það hvernig það væri að fá vænan fisk við þessar aðstæður. Og þá gerðist það. Ég var kominn að því að taka fluguna upp og kasta þegar allt var fast. Línan var þrifin út og ég mátti þakka fyrir að brenna mig ekki, slík voru lætin þegar hver hönkin af annarri rann úr höndum mér. Ég fann á hegðun fisksins að hann var vænn. Tvíhendan vel bogin upp í skaft og ákveðin frekja sem einkenndi alla hreyfingar laxins. Þung högg og rykkir og allar rokur ákveðnar og einbeittar. Það var afskaplega undarleg tilfinning að glíma við svo stóran fisk við þessar aðstæður. Ég sá ekki neitt en það sem bjargaði málunum var að mikil og skær ljós loguðu í gróðurhúsum á árbakkanum hinu megin. Ég lét því stöngina bera við ljósin og gat þannig séð annað slagið í hvaða stefnu línan lá. Náði ég að mestu að fylgja laxinum eftir en til allrar lukku var hann aldrei í miklum ferðahug. Er skemmst frá því að segja að eftir að við höfðum togast á í rúman hálftíma fann ég að fiskurinn var farinn að gefa verulega eftir. Mér bárust skilaboð um að bakka ákveðið og skömmu síðar var viðureigninni lokið. Fiskurinn var 18 pund og tók appelsínugula Kröflu.

    Flottur lax.

    Flottur lax.

    Skemmtilegum veiðidegi man ég eftir ári síðar. Við feðgarnir sátum þá á eyrinni og sáum til Péturs Georgssonar þar sem hann var að kasta utan við efri eyrina. Fljótlega tókum við eftir því að Pétur óð mjög ákveðið í land og mikill gusugangur er í vatnaskilunum. Við sáum að stöngin var í keng og gusugangurinn færðist utar og utar.

    Eftir skamma stund var allt búið. Pétur kom gangandi til okkar, sagði ekki orð. Þegar hann var spurður út í baráttuna kom hann að til okkar með stöngina og sýndi okkur fluguhjólið. Um 15 cm langur stubbur af undirlínunni stóð út af hjólinu. Laxinn hafði rokið út með flugulínuna, alla undirlínuna og slitið. Hér ber að geta þess að menn eru alltaf með mun lengri undirlínu við Iðu en gengur og gerist. Fullvaxnir laxar hafa þar meira svigrúm til að athafna sig en víða annars staðar og oft ráða menn ekki neitt við neitt eins og dæmin sanna.

    Eitt sinn var faðir minn að enda fyrri part dags og kominn að Flatanum neðst á svæðinu. Ég rölti til hans og þegar 5 mínútur voru eftir af veiðitímanum krafðist hann þess að ég tæki við. Í fyrstu tók ég það ekki í mál en fljótlega sá ég að undan því varð ekki vikist. Faðir minn stóð við hlið mér þegar lax hrifsaði fluguna í þriðja kasti með þvílíkum látum og djöfulgangi. Ég man enn svipinn á föður mínum þegar ég leit á hann. Fljótlega var ljóst að ég réð engu í þessari viðureign. Mér leist hreinlega ekki á blikuna. Fyrst strikaði laxinn út í Hvítá og hélt svo niður ána. Ég tók á rás og óð allt hvað af tók. Bilið lengdist á milli okkar og góður partur undirlínunnar farinn út. Þannig háttar til neðan við Flatann að þar er löng og mjó malareyri. Skilja þar leiðir ánna og heldur Stóra Laxá í beygju ofan við eyrina með landinu en Hvítáin heldur sínu striki utan við eyrina og sameinast árnar síðan undir Hamrinum við brúna. Ég var kominn út á eyrina miðja og enn var fiskurinn á niðurleið. Þegar ég stóð neðst á eyraroddinum komst ég ekki lengra nema leggjast til sunds. Og viti menn, fiskurinn stöðvaði. Toguðumst við á nokkra stund og náði ég inn töluverðri línu. Eftir um 15 mínútur kom fiskurinn upp í vatnsskorpuna, sveiflaði sporðinum í kveðjuskyni og allt var laust. Fiskurinn, sem tók rauðan Elliða, hélt sína leið en stærri sporð hef ég aldrei séð á laxi.

    Og flottir laxar.

    Og flottir laxar.

    Og ein frásögn til viðbótar frá þessu stórbrotna veiðisvæði. Talandi um að missa laxa. Það var líklega 1995 sem við vorum í góðri veiði við Iðu í ágúst. Komnir voru á land rúmlega 20 laxar. Mönnum gekk yfirleitt vel að halda sínum fiskum ef ég er undanskilinn. Þennan dag setti ég í 12 laxa, missti 10 en náði tveimur.

    Og flottir laxar.

    Beitti jafnan sama handbragðinu og ég var vanur með þessum líka árangri. Eftir að hafa misst nokkra fiska stækkaði ég fluguna. Einnig reyndi ég að taka seinna á móti fiskum sem tóku og að beita mismunandi köstum í þeirri von að flugan kæmi með breyttum hætti að fiskunum. Ekkert af þessu virkaði. Þetta var bara einn af þessum dögum. Fiskarnir sem ég missti voru af ýmsum stærðum og gerðum, á að giska frá 6-8 pundum og einn var örugglega í næsta nágrenni við 20 pundin. Lengi var ég hissa og hugsandi yfir þessari frammistöðu. Mér var því nokkuð létt þegar ég frétti skömmu síðar af reyndum veiðimanni við Iðu sem hafi lent í nákvæmlega sömu hlutum og ég. En gaman var þetta engu að síður enda stóðu sumar af þessum viðureignum í 10-15 mínútur.

    Nú er mál að linni. Iðan er og verður veiðisvæði númer eitt í mínum huga. Þrátt fyrir mögur ár undanfarið hef ég og mínir félagar haldið tryggð við svæðið og munum gera svo áfram og vonandi sem lengst.

    Stefán Kristjánsson

Hlutur 9 til 12 af 12

Síða:
  1. 1
  2. 2
  3. 3
© 2018 Skrautás Ehf. - Sími 6982844 - kt. 520799-2149 - vsk nr. 63003 [email protected] - Leiðhamrar 39 - 112 Reykjavík