Fréttir - Krafla.is
-
Metfluguveiði við Iðu á einum degi í sumar - 15 laxar og 14 á Kröflur
Vaskur hópur fluguveiðimanna sem hefur nokkra reynslu af veiðum við Iðu í Biskupstungum átti þar hreint frábæran dag í upphafi september, nánar tiltekið seinni part 1. september og fyrri part 2. september. Alls veiddi hollið 15 laxa og 3 væna sjóbirtinga og tóku allir laxarnir flugur.
Hrein tilviljun réði því að við fengum úthlutað 1. september en það er fæðingardagur Kristjáns Gíslasonar sem þessi síða er tileinkuð. Í tilefni af því ákvað ég að prufukeyra nokkra nýja liti af Kröflu túpum og árangurinn var hreint magnaður. Sumar af þessum Kröflum eru nú þegar til sölu í netverslun okkar en aðrar verða komnar þar innan skamms þegar ný vefsíða okkar verður formlega opnuð.
Skilyrði voru mjög góð við Iðu þessa hálfu daga. Skýjað og vatnið í rúmu meðallagi. Fannst okkur félögunum kominn tími til að heppnin væri með í för en oftar en ekki höfum við mörg undanfarin ár verið í miklu sólbaði við Iðu og í mjög litlu vatni. Nú var sem sagt öldin önnur og við urðum strax varir við fiska. Sáum þó ekki mikla hreyfingu en þess eru mörg dæmi við Iðu að þó nokkuð sé af fiski á svæðinu án þess að hann sýni sig. Fimm laxar voru færðir til bókar að kvöldi 1. september.
Um nóttina bætti enn í vatnsbúskapinn og um morguninn var svæðið gullfallegt. Strax tókum við til við að landa löxum og þegar tíminn var úti var aflinn orðinn 15 laxar og 3 vænir sjóbirtingar. Mesta fluguveiði á einum degi á Iðunni í sumar. Laxarnir sýndu Kröflunum okkar mikinn áhuga. Komu laxar á land á hefðbundna liti en einnig nýja liti. Tveir laxar tóku ljósbláu/svörtu Kröflutúpuna í tommustærð og einnig fengust laxar á gráa Kröflu, Kröflu orange/svarta og hinn nýja lit hot orange sem á eftir að verða mjög skæður í framtíðinni. Alls komu 14 laxar á land á Kröflurnar en einn tók Kolskegg Long Wing. Sjóbirtingarnir tóku allir Kröflur, rauða, orange og svarta.
Í fyrstu yfirferð minni með ljósbláu/svörtu Kröfluna var hún í öðru eða þriðja kasti tekin af laxi en eftir nokkrar sekúndur var allt laust. Ég kastaði þá eins á ný og á sama stað var þessi nýja Krafla negld með miklum látum og ljóst að árs gamli hængurinn ætlaði ekki að missa af henni aftur.
Þessi skemmtilegi dagur verður okkur lengi minnisstæður. Ekki síst vegna þess að þarna upplifðum við á ný aflabrögð sem einkenndu Iðusvæðið fyrir nokkrum árum. Þó vantaði nokkuð á hefðbundna þyngd fiskanna en þeir stærstu voru 7-8 pund. Voru þar á ferð Iðuhængar af ,,gömlu" gerðinni, ótrúlega sterkir og vel haldnir. Héldu veiðimenn jafnan að um verulega stærri fiska væri að ræða. Þessir hængar göbbuðu gamla veiðimenn við Iðu í gamla daga ekki síður en í dag. Voru þeir gjarnan kallaðir plathængar og minnist ég ummæla eins og ,,hann er nærri 17 en 7 pundum" þegar þessir hængar voru annars vegar.
Í veiðibók við Iðu voru skráðir 122 laxar á hádegi 2. september. Má þá reikna með annarri eins veiði sem hvergi er til á blaði. Er þetta nokkuð minni veiði en í fyrra en þó eru enn eftir góðir dagar þannig að lokatalan gæti hækkað talsvert.
-sk
Á efstu mynd er Jens Magnússon með tvo rígvæna ársgamla Iðuhænga og næstur er fallegur sjóbirtingur. Annar laxinn og sjóbirtingurinn tóku Kröflu Hot orange og hinn laxinn tók Kolskegg Long Wing plast-túpu.
-
323 laxar á land við Selfoss - Grýlan í sérflokki og lax enn að ganga
Rétt tæplega 60 laxar eru komnir á land við Syðri Brú í Soginu. Veiðimenn sem voru við veiðar þar í gær nýttu daginn illa, voru aðeins við veiðar í tvo tíma fyrir hádegi og ekkert eftir hvíld en fengu samt tvo laxa á Landaklöppinni. Annar laxinn tók svarta Kröflu keilutúpu, 1/4" en hinn 1/2" rauða Kröflu keilutúpu. Laxar voru að sýna sig á klöppinni annað slagið og eitthvað um nýjan fisk á þessu litla en snotra veiðisvæði sem aðeins telur þennan eina veiðistað.
Veiðitímabilinu í Norðurá lýkur þann 12. september en þá lýkur viku framlengingu á hefðbundnu veiðitímabili í ánni. Í gær, 5. september, veiddust 9 laxar á jafn margar stengur sem telja verður mjög dapra veiði þegar tillit er tekið til þess að aðstæður voru þokkalegar og áin að sögn kunnugra kjaftfull af laxi. Við birtum ítarlega frásögn af veiðinni í Norðurá í máli og myndum næsta þriðjudag.
Efsta myndin er frá Syðri Brú í Soginu og var tekin í gær. Fallegt en afar viðkvæmt veiðisvæði þar sem laxarnir tveir á neðri myndinni tóku Kröflur í gær.
Á hádegi í gær, 5. september, var búið að færa 323 laxa til bókar í veiðihúsinu við Pallinn á Selfossi. Er þetta metveiði á Selfoss svæðinu og í raun mjög góð veiði. Hvað flugur varðar þá er Grýlan okkar í algjörum sérflokki og virðist flugan mjög sterk á þessum slóðum. Einn lax veiddist fyrir hádegi í gær en síðustu daga hafa verið að veiðast nokkrir lúsugir laxar á svæðinu þannig að laxinn er enn að ganga í einhverjum mæli.
Grýlan hefur verið verið í sérflokki hvað
vinsældir varðar hjá laxinum við Selfoss
í sumar.
Frétt okkar um maðkaveiðimenn í Norðurá á dögunum í svonefndu Fjaðrafoksholli og nafnbirting okkar á þessum veiðidónum vakti mikla athygli. Við höfðum strax afar sterkar heimildir um atburðarásina. Ef satt skal segja áttum við von á sterkum viðbrögðum og þá á báða vegu. Staðreyndin er sú að yfir okkur hefur rignt heillaóskum fyrir nafnbirtinguna en aðeins tveir veiðimenn, tveir veiðimenn hafa sett sig í samband við okkur og talið það ,,forkastanlega ákvörðun" hjá okkur að birta nöfn veiðidónanna. Margir veiðimenn hafa sagt okkur frá fleiri dæmum um ósæmilega hegðun umræddra maðkadorgara sem eiga greinilega alls staðar betur heima en í Norðurá. Veiðimaður sem var í umræddu Fjaðrafoksholli hafði samband við okkur á dögunum og þakkaði okkur fyrir nafnabirtinguna. ,,Þið gerðuð hið eina rétta. Þegar svona hlutir koma upp og viðkomandi veiðimenn viðurkenna afbrot sín eins og í þessu tilfelli þá kemur ekki annað til greina en að birta nöfn viðkomandi. Eða áttum við í þessu fjölmenna holli að sitja undir því að tveir veiðimenn voru sendir heim fyrir að brjóta reglur við Norðurá og liggja undir grun, alsaklausir?"Af hverju birtum við nöfnin á umræddum veiðiþjófum í Norðurá? Fyrir það fyrsta þá birtum við aðeins nafnið á þeim aðila sem skráður var fyrir umræddri stöng. Hægt er að gagnrýna okkur fyrir að hafa ekki birt nafn veiðimannsins sem staðinn var að verki, nafn sonar Bjarna í Brauðbæ, en það munum við eflaust gera síðar. Sekt Bjarna í þessu máli er algjör þrátt fyrir að hann hafi sofið í veiðihúsinu þegar veiðivörður Norðurár gómaði soninn við maðkaveiðar í Myrkhylsrennum. Fyrir þennan atburð hafði stöng þeirra feðga skilað 19 löxum á einum og hálfum degi. Hinar stengurnar 11 samtals 11 löxum!!!! Og umræddur maðkadorgari hafði útskýrt það í smáatriðum fyrir félögum sínum í hollinu hvernig laxar Norðurár stóðust ekki flugur hans og tóku þær á ýmsa vegu. Við á Krafla.is töluðum við menn sem voru staddir við Norðurá á þessum tíma. Þeirra ummæli í okkar eyru urðu enn frekar til þess að við ákváðum að birta nöfn veiðiþjófanna í Norðurá. Og það munum við gera í framtíðinni en vonandi er maðkaveiði í Norðurá algjörlega lokið.
-
Fréttir héðan og þaðan - 800 bleikjur og 15 laxar á land í Djúpadalsá - Long Wing túpurnar komnar aftur
Stærsti laxinn við Iðu kom á land á dögunum, nánar tiltekið 23. ágúst. Það var Hörður B. Hafsteinsson sem veiddi laxinn sem var 96 cm langur hængur og tók laxinn fluguna Randalín eftir Kristján Gíslason sem er til sölu í netverslun okkar. Laxinn hefur verið 18-19 pund en honum var sleppt að viðureign lokinni. Hörður er félagi í veiðifélaginu Mokveiðifélagið og fengu meðlimir félagsins 16 laxa við Iðu þennan dag og sjóbirting að auki. Sjá nánar á www.veidimenn.com
Veiði í Djúpadalsá í Reykhólahreppi hefur verið mjög góð í sumar. Þegar holl hafði lokið veiðum á hádegi sl. föstudag var búið að bóka um 800 bleikjur í veiðibókina, 15 laxa og 18 sjóbirtinga. Þetta verður að teljast afar góð veiði á 2-3 stengur og ekki síst vegna þess að áin hefur verið mjög vatnslítil lengst af sumri.
Nokkuð hefur borið á því í sumar að veiðimenn sem keypt hafa Kröfluflugur hjá öðrum en okkur hafa komið með þær til okkar og kvartað yfir gæðunum eða öllu heldur gæðaleysi flugnanna. Við viljum hvetja veiðimenn til að spyrjast fyrir um upprunann en nokkur brögð eru að því að búðir í Reykjavík selji Kröfluflugur sem eru í engu samræmi við upprunalegu Kröflurnar hjá okkur. Er ekki nóg með að eftirlíkingarnar eru ónýtar heldur veiða þær lítið sem ekkert miðað við þær Kröfluflugur sem við bjóðum upp á.
Að sögn Hafsteins Orra Ingvasonar, yfirleiðsögumanns við Langá á Mýrum, er Kolskeggur ein af flugum sumarsins í Langá í sumar. Strax í upphafi sumars fór að veiðast mjög vel á Kolskegginn. Þessi fluga var hönnuð af Stefáni Kristjánssyni fyrir margt löngu og hefur gefið mjög marga laxa í sumar sem plast-túpa í stærð 1" og 1,5". Fyrsta sending til okkar af Long Wing plast-túpunum seldist upp strax og nú eru þessar skæðu flugur komnar í netverslun okkar á ný. Við skorum á veiðimenn að prófa þessa nýjung hjá okkur.
Við bendum veiðimönnum einnig á aukið úrval af túpum í netverslun okkar. Við vorum að bæta verulega við úrvalið sem er nú orðið mjög mikið. Nýjar stærðir eru nú til í netverslun okkar í þungu kopartúpunum en það eru 1/4" og 1,5". Við vorum einnig að bæta við stærðum í tungsten keilutúpunum. Sjá nánar í netverslun.
Á myndinni er Hörður B. Hafsteinsson með 96 cm hænginn sem tók fluguna Randalín á Iðunni - sá stærsti á þessum forna stórlaxastað til þessa í sumar. Ekki sá fyrsti sem Randalín drepur við Iðu en þar hefur Randalín oft gefið fantagóða veiði.
-
Beyglan er mögnuð
Eftirfarndi frásögn birtist á veiðivefnum www.votnogveidi og segir meira en mörg orð.
Athygli vekur það jafnan og eftirtekt þegar þekktir fluguhnýtingamenn og hönnuðir senda frá sér nýja flugu. Gylfi Kristjánsson, höfundur Króksins, Mýslunnar og Beykisins er höfundur Beyglunnar sem nú er komin í sölu á www.krafla.is og verður einnig til sölu í veiðivöruversluninni Arkó innan skamms. Stefán, bróðir Gylfa, rekur www.Krafla.is og við heyrðum í honum hljóðið.
Eins og alltaf þegar Gylfi sendir frá sér nýja flugu fer hún í box útvalinna fluguveiðimanna til reynslu í eitt sumar áður en hún fer í sölu. Beyglan gekk í gegnum slíkt próf í fyrra og ekki er ofsagt að hún hafi staðist prófið, segir Stefán.
Stefán Kristjánsson
Beyglan er afar sérstök silungafluga. Óhætt er að fullyrða að hún líkist ekki öðrum silungaflugum. Einkenni hennar eru vængirnir sem setja afar skemmtilegan svip á fluguna og marka sérstöðu hennar öðru fremur. Ekki kæmi á óvart þó að lax myndi grípa þetta dýr ef honum stæði það til boða, í það minnsta hefur Mýslan reynst góð laxafluga þó ekki sé hún oft hnýtt undir á laxveiðum. Stefán segir:
,,Í Beyglunni er afar sérstakt efni í vængjunum. Ég komst yfir þetta efni erlendis. Ég lét þetta efni í hendurnar á Gylfa bróður mínum og útkoman var þessi líka glæsilega fluga. En þegar til átti að taka var þetta efni ekki fáanlegt nema í afar litlu magni svo dugði aðeins í nokkrar flugur. Við hjá Krafla.is brugðum því á það ráð að láta framleiða þetta efni fyrir okkur sérstaklega erlendis. Það útheimti mikla vinnu en við erum mjög ánægð með árangurinn."
Beyglan var frumsýnd í íslensku straumvatni í fyrra, nánar tiltekið í bleikjuveiði í Breiðdalsá. Það var Jens Magnússon sem það gerði og var hann mjög ánægður með árangurinn. ,,Ég var að veiðum á silungasvæðinu neðanverðu í Breiðdalsá og var í fiski þegar menn í kringum mig urðu ekki varir á aðrar flugur. Fyrir mér er þessi fluga hreint listaverk og ef marka má viðbrögð silunganna þá eru þeir sammála mér,'' sagði Jens.
Annar veiðimaður sem fékk Beygluna til reynslu í fyrra var Eggert Skúlason, ritstjóri Veiðimannsins.
,,Ég reyndi Beygluna í fyrsta skipti í Laxá í Mývatnssveit í fyrra. Í þriðja kasti tók sex punda urriði þessa mögnuðu flugu. Og hann tók hana með ofsafengnum ákafa. Svakaleg viðureign og skemmtileg endalok. Hann fékk líf og Beyglan gaf mér marga fiska í þessum túr.
Ég veiddi mjög vel á Beygluna sem kúluhaus í bleikjunni í fyrra. Þetta er enn ein alhliða hönnunin frá Gylfa Kristjánssyni og fluga sem er skyldunotkun á hverju vatnasvæði. Með Beyglunni er Gylfi búinn að hanna línu af silungaflugum sem henta við allar aðstæður,'' sagði Eggert Skúlason.
Stefán Kristjánsson bætti við að Beyglan hafi gefið sér mjög minnisstæða veiði á síðasta sumri: ,,Ég reyndi Beygluna í fyrsta skipti fyrir vestan í fyrra. Flugan reyndist afar skæð. Ég kastaði Beyglunni á hyl þar sem mikið var um nýgengna sjóbleikju. Stórar bleikjur voru að nudda af sér lús. Sjö bleikjur tóku Beygluna, nánast í beit. Þetta er að mínu mati ótrúlega glæsileg og gjöful silungafluga og afar skemmtileg viðbót í flóruna. Ég spái því að þetta eigi eftir að verða silungafluga númer eitt hér á landi næstu árin,'' sagði Stefán Kristjánsson.