Velkomin(n) á vefverslun Kröflu

Cart:

0 item(s) - 0 kr
Það eru engar vörur í körfunni þinni.

0

Fréttir - Krafla.is

  • 79 vænir birtingar á tvær stangir í tæpa tvo daga

    Ég undirritaður, sem ekki hef gert garðinn frægan í sjóbirtingsveiði, var afar spenntur þegar ég og mágur minn, Guðjón Gunnar Ögmundsson, lögðum af stað austur snemma sl. mánudagsmorgun. Við höfðum haft af því fréttir að veiðimenn höfðu veitt mjög vel nokkrum dögum áður og séð mikið af fiski.
    Þegar á veiðisvæðið var komið var enginn fiskur bókaður á sunnudeginum og fimm á laugardeginum. Við hugsuðum með okkur að réttast væri að skrúfa allar væntingar niður á skynsamlegt stig.
    Eftir að hafa sett saman, spáð mikið í línu og taum, var ferðinni heitið á miðin neðarlega á svæðinu. Þar háttar svo til að allar þrjár ár veiðisvæðisins, tvær bergvatnsár og ein jökulá, hafa fléttað sig saman í töluvert vatnsfall. Þessi veiðistaður er um 100 metra langur.
    Ég ákvað að freista gæfunnar með flotlínu og mjög sökkvandi enda. Girnistaumurinn var síðan um meters langur. Þetta taldi ég geta verið vænlega samsetningu miðað við allt vatnið sem við blasti, nokkurn straum og skollitað vatnið. Á endann hnýtti ég rauða Kröflu í túpuformi, tommulanga.
    Við hófum veiðar klukkan ellefu. Í öðru kasti þreif stór fiskur fluguna og ljóst af tökunni að merkja að áhuginn var mikill. Þessi fiskur var sjö pund, örlítið leginn hængur og gefið líf. Mágur minn var fyrir ofan mig og hafði hnýtt Snældu á hjá sér. Undarlegt fannst okkur að hann varð ekki var á þessa þekktu flugu.
    Eftir tveggja klukkutíma veiði var kominn hvíldartími og þá höfðum við sett í 20 boltafiska. Ég fékk 8 fiska í beit á rauðu Kröfluna og sá stærsti var 9 pund, sá minnsti 5 pund. Mágur minn skipti fljótlega yfir í Kröfluna og setti í 10 fiska á þessum tveimur tímum á ýmsar af okkar flugum á krafla.is en flesta þó á rauðu Kröfluna.
    Eftir hvíldina ákváðum við að gera alls kyns tilraunir með flugur, línur og stangir enda í raun búnir að veiða nóg þennan daginn. Á rúmum þremur tímum settum við í 15 fiska til viðbótar. Við slepptum flestum fiskunum en kvótinn á þessu skemmtilega svæði er 5 fiskar á stöng á dag.
    Um kvöldið og nóttina rigndi heil ósköp. Bergvatnsárnar tvær þrefölduðu sig að vatnsmagni og voru nú verulega girnilegar. Við ákváðum að hefja leikinn við brúna á annarri þeirra en þar höfðum við séð 2-3 fiska daginn áður. Okkur hafði verið sagt að ef vatn myndi aukast í bergvatnsánum legði birtingurinn það í vana sinn að mjaka sér upp úr litaða vatninu neðar á veiðisvæðinu. Og það var nákvæmlega það sem gerðist um nóttina.
    Þegar við komum að brúarhyljunum fyrir neðan og ofan brúna voru fiskar á lofti um allt. Nú var ákafinn svo mikill í birtingnum að við sáum til að byrja með tvo og þrjá fiska slást um að taka fluguna nánast um leið og hún lenti í vatninu. Þvílík og önnur eins læti höfum við ekki upplifað áður.
    Þegar klukkan var rúmlega fjögur þótti okkur nóg komið. Settum í 44 fiska þennan dag og slepptum þeim flestum.
    Alls fengum við 79 fiska. Allir voru þeir 5-9 pund, að stærstum hluta nýr fiskur en hinir lítið legnir. Flestir tóku fiskarnir Kröflutúpur í öllum litum, flestir þó þessa rauðu. Einnig veiddum við mjög vel á Skrögg, Rafþór, Randalín og fleiri þekktar flugur Kristjáns Gíslasonar. Þá fengust nokkrir birtingar á Beyglu sem straumflugu, en það er nýjasta fluga Gylfa Kristjánssonar sem verður til sölu á krafla.is næsta vor sem silungafluga.
    Það voru eins og gefur að skilja úrvinda veiðimenn sem yfirgáfu svæðið eftir hreint ótrúlega veiði. Upp úr stóðu allar tökurnar, fallegt umhverfið og baráttuvilji birtinganna sem var með hreinum ólíkindum svo hvein í léttum græjunum.
    Sigurvegarar veiðitúrsins að mínu mati voru þó flugur föður míns, Kristjáns Gíslasonar. Ég hef verið þungt haldinn af veiðidellu til nokkuð margra ára en aldrei gefið mér tíma til að kynna þær fyrir sjóbirtingum áður. Þeir kunnu svo sannarlega gott að meta. Með þessari frammistöðu sinni sönnuðu flugurnar svo eftir verður munað að þær eru með allra frambærilegustu sjóbirtingsflugum svo ekki sé sterkara til orða tekið.
    Stefán Kristjánsson

  • Bleikjan var vitlaus í gárutúpurnar

    Grænfriðungur sem gárutúpa.

    Ég er þeirrar gæfu aðnjótandi að eiga þess kost að renna fyrir bleikju í lítilli en nettri á á vestfjörðum. Tvívegis á hverri vertíð. Nú nýverið fór ég í síðari veiðitúrinn og ævintýrin létu ekki á sér standa. Ég gerði mér mátulegar vonir fyrir brottför. Vissi að vatnið var lítið og síðan var það staðreynd að bleikjan var mun seinna á ferðinni þetta árið en mörg undanfarin ár.
    Við byrjuðum efst félagarnir að venju og ætluðum að taka daginn í að veiða okkur niður ána. Veiðin gekk rólega í byrjun en um miðjan daginn og miðja ána fóru skemmtilegir hlutir að gerast. Þar rákumst við á alveg heiftarlega göngu af vænni bleikju. Skyndilega, eins og hendi væri veifað, voru skjannahvítir kviðir um allan hylinn sem er einn sá stærsti í ánni. Lúsug bleikja að nudda af sér lúsina. Eftir nokkra rekistefnu varðandi framhaldið ákváðum við að byrja neðst í hylnum og veiða upp fyrir okkur, andstreymis. Ákveðið var að byrja með hefðbundnar flugur og gáfu þær strax vel. Nú var komið að ýmsum tilraunum. Ákváðum við að gefa spánýjum útgáfum af Kröflunni tækifæri og skömmu síðar lá tugur af bleikjum á árbakkanum. Hreint stórkostleg upplifun og munum við greina frá þessum nýju Kröflum síðar.
    Efst í þessum fallega veiðistað var dýpið meira og þar voru að sýna sig afar stórar bleikjur. Ég freistaðist til að kasta nýrri útgáfu af Mýslu Gylfa Kristjánssonar. Flugan var varla lent í vatninu þegar bleikja réðst á fluguna með slíku offorsi að ég man vart annað eins. Brann ég á þeim fingrum vinstri handar sem gegndu því hlutverki að gæta flugulínunnar. Ég landaði bleikjunni og kastaði aftur. Nú bar svo við að fjórar bleikjur sýndu tökuvaranum mestan áhuga. Sýntu ákveðnar að honum og í kringum hann en kjarkur til árásar var ekki til staðar. Betri staðfestingu á mögulegri veiði á gárutúpu er varla hægt að hugsa sér.
    Að afloknum skiptum og góðum kaffisopa var komið að því að sýna bleikjunum gárutúpurnar. Leppur varð fyrir valinu. Nú vilja menn oftast nota 9 feta stangir eða lengri við veiðar með gárutúpum. Ég ákvað hins vegar að nota áfram 7 feta stöngina mína ( 40 grömm) og sjá hvernig gengi. Ég kastaði Leppnum í strauminn og lét hann berast með honum þar til flugan barst inn á rólegra vatn. Þá skaust hún eins og korkur upp á yfirborðið og skautaði fallega og mátulega rólega eftir yfirborðinu. Strax sá ég fjórar fallegar bleikjur gera sig líklegar. Þær hreinlega börðust um að komast að. Ein hafði vinninginn og var landað. Aftur var kastað. Sama sagan. Þegar þrjár bleikjur höfðu tekið Leppinn ákvað ég að kaasta einu sinni enn. Og á sama hátt og fyrr. Lét fluguna berast þvert fyrir fiskinn, dró mátulega hratt án þess að flugan buslaði og viti menn! Væn bleikja gerði heiftarlega árás. Hitti ekki. Mikill öldugangur og spenna en áfram hélt Leppurinn og veiðimaðurinn ró sinni. Aftur árás. Og enn hitti bleikjan ekki. Þegar flugan átti eftir um meter af hugsanlegu tökusvæði kom hún í þriðja skipti. Og æfingin skapar meistarann. Nú var Leppurinn tekinn með miklum látum og takan afar eftirminnileg.
    Nú skipti ég um gárutúpu. Setti á Grænfriðung. Alveg sama sagan. Grænfriðungurinn mátti varla vera í vatninu. Þessir klukkutímar í hylnum stóra miðsvæðis í ánni verða lengi í minnum hafðir. Og ef einhver áhugasamur bleikjuveiðimaður er í vafa um að hægt sé að nota 1/2" gárutúpur í bleikjuveiði þá tel ég mig hafa afsannað það í eitt skipti fyrir öll.
    Stefán Kristjánsson

  • Maðkur eða fluga?

    Langflestir stangaveiðimenn hérlendis eru annað tveggja fluguveiðimenn eða maðkamenn. Þeir eru svo auðvitað til sem nota spón en líklegast eru þeir fámennasti hópurinn.
    Síðan eru þeir sem nota þetta þrennt jöfnum höndum eftir aðstæðum hverju sinni. Veiða þeir menn jafnan vel og stundum betur en aðrir.
    Líkast til eru fluguveiðimenn langfjölmennasti hópurinn. Flest öllum finnst fluguveiðin skemmtilegust og þeir eru margir sem telja að það sé mun erfiðara að veiða á flugu en maðk og spón.
    Í gegnum árin og áratugina hef ég orðið var við vaxandi óvild fluguveiðimanna í garð þeirra sem nota maðkinn. Óvild er kannski of sterkt orð en óhætt er að fullyrða að fluguveiðimenn eigi það til í nokkrum mæli að líta niður á þá sem veiða á maðk.
    Sjálfur veiði ég ekki á maðk nema lífið liggi við og aðstæður séu með þeim hætti að ógerlegt sé að koma flugu að fiskum. Reyni ég gjarnan að verða mér úti um veiðileyfi á svæðum þar sem svo háttar ekki til. Ástæðan er sú að mér finnst mun skemmtilegra að veiða á flugu en maðk. Þrátt fyrir að ég teljist til fluguveiðimanna hvarflar þó ekki að mér eitt augnablik að líta niður á þá fjölmörgu sem nota maðk og hafa mesta trú á honum þegar agnið er annars vegar.
    Til að vera algjörlega hreinskilinn hef ég reyndar aldrei getað skilið maðkamenn sem sjónrenna eins og sagt er. Stýra maðkinum upp í laxinn með 5-10 sökkur og nota oftar en ekki við þessa athöfn tveggja handa flugustöng. Þetta finnst mér lítill veiðiskapur og byggist að mínu mati meira á því að skarta góðri sjón og gleraugum en miklum hæfileikum með veiðistöngina. Ég tel að þessum sjónrennslisköllum hafi snarfækkað síðustu árin. Bæði er að þeim fer fjölgandi íslensku ánum þar sem eingöngu er leyfð fluguveiði og svo held ég að þetta sé algjörlega dottið úr tísku. Allavega vona ég það.
    Sé veitt með maðki á hefðbundinn hátt getur það oft verið mikil kúnst. Og þeir sem stunda það mest eru oft bráðflínkir veiðimenn.
    Maðkaveiði í silungsveiði er að mínu mati alveg réttlætanleg í vatnaveiði eða þar sem vitað er af miklu magni af fiski. Í minni ám þar sem stofnar eru ekki mjög sterkir er maðkaveiði í silungi alveg skelfilegt fyrirbrigði. Bleikjan má ekki maðk sjá þá er hún rokin á hann. Þannig er hægt að tæma hyl eftir hyl í maðkaveiði og skilja eftir sig svöðusár hvað ána varðar.
    Mér er enn minnisstætt atvik sem átti sér stað fyrir mörgum árum. Ég var þá staddur við litla bleikjuá og hafði veitt alveg þokkalega á fluguna. Séð töluvert af fiski og náð um 10 bleikjum. Aðstæður höguðu því þannig til að ég var staddur í sumarhúsi við þessa á daginn eftir. Annar veiðimaður hafði þá fengið leyfi til að veiða í ánni. Ég tók eftir því þegar hann lagði af stað upp í gljúfrið um morguninn að þar var maðkamaður á ferð. Ég ákvað því að fylgjast vel með gangi mála seinni part dagsins þegar von var á veiðimanninum til byggða. Og þegar hann birtist var hann með tvo stóra plastpoka fulla af bleikju og stóðu sporðarnir upp úr pokunum. Ég gaf mig á tal við manninn og sagði hann mér að hann hefði getað veitt helmingi meira en treysti sér engan veginn til að bera meiri afla. Í pokunum voru milli 30 og 40 bleikjur.
    Oftar en ekki heyrir maður á samtölum við veiðimenn að þeir séu nú ,,bara" í maðkinum en séu að byrja í flugunni. Fylgir þá jafnan með að þeir hafi heyrt að fluguveiðin sé til muna skemmtilegri.
    Og vissulega er hún skemmtilegri. Þeir veiðimenn sem skipt hafa úr maðki í flugu er langflestir sammála um þetta.
    Stefán Kristjánsson

  • Stærðin skipti öllu máli

    Fyrir þá fjölmörgu fluguveiðimenn sem stunda bleikjuveiði er fátt skemmtilegra en að lenda í fjörugri töku þegar veitt er með þurrflugu. Þetta vita þeir auðvitað best sem reynt hafa.
    Fluguveiði kallar jafnan á vandvirkni og þolinmæði eins og allur annar veiðiskapur. Flestir eru sammála um að þurrfluguveiði kalli á sérstaklega mikla athygli veiðimannsins og viðbragðsflýti.
    Fyrir nokkrum árum var ég staddur við afar laglega bergvatnsá. Áin er í nágrenni Gufudalsár sem margir félagar í Stangaveiðifélagi Reykjavíkur þekkja vel.
    Þessi snotra á geymir jafnan mikið magn af bleikju. Þegar ég hóf veiðarnar um morguninn varð ég strax var við töluvert af fiski. Veiddi fljótlega nokkrar fallegar bleikjur á sjö feta stöngina sem er 40 grömm að þyngd. Þrátt fyrir að bleikjurnar væru ekki eins og þær gerast stærstar bognaði stöngin upp í skaft. Maður gat hreinlega ekki verið í nánara sambandi við þessa skemmtilegu fiska.
    Eftir hádegið hlýnaði skyndilega í veðri og um miðjan daginn var allt orðið löðrandi í litlum fiðrildum. Ég tók mér stöðu vel fyrir neðan mjög fallegan veiðistað. Bleikjan var svo sannarlega í essinu sínu. Hvert fiðrildið af öðru var tekið. Rólegt yfirborð vatnsins nánast einn hringur og það slapp varla padda fram af brotinu neðst í hylnum.
    Eftir að hafa sett flotlínuna á hjólið, langan og grannan taum og hnýtt á fallega ,,beislitaða'' þurrflugu gerði ég mig kláran. Úðaði á þurrfluguna þar til gerðum efnum og þóttist nú fær í flestan sjó. Skríðandi á hnjánum nálgaðist ég heppilegan stað við bakkann. Náði þá að kasta mjög varlega á réttan stað. Spennan var í hámarki. Ég sá fluguna mína greinilega. Hægt og rólega dansaði hún niður hylinn. Ekkert gerðist. Ég kastaði aftur og aftur þar til ég var þess fullviss að bleikjan vildi ekki fluguna.
    Ég mjakaði mér hægt og rólega frá staðnum. Fékk mér kaffisopa í bílnum og hugsaði málið.
    Hvað gat ég verið að gera vitlaust? Ég gat ekki betur séð en þurrflugan væri sömu stærðar og fiðrildin og liturinn alveg sá sami.
    Það hlaut að vera eitthvað að stærðinni. Ekki kom til greina að stækka fluguna um eitt númer og flugu í þessum lit átti ég ekki minni. Ég greip fluguskærin og tók nú við klipping og snyrting. Eftir dágóða stund hafði ég minnkað ummál flugunnar um hálfan til einn millimeter, allan hringinn.
    Aftur var haldið af stað. Kom mér fyrir á sama stað og áður og kastaði á sama stað. Flugan hafði ekki snert yfirborðið þegar hún var tekin. Í stuttu máli mátti þessi nýklippta fluga ekki vera í vatninu. Ég veiddi þarna margar bleikjur en eftir rúman hálftíma ákvað ég að yfirgefa þennan skemmtilega veiðistað sem hafði svo sannarlega gefið mér þá skemmtun sem ég vonaðist eftir.
    Þetta atvik sannaði fyrir mér í eitt skipti fyrir öll að stærð flugunnar skiptir öllu máli. Reyndar skiptir stærð flugunnar alltaf miklu máli en ég er þeirrar skoðunar eftir þessa skemmtilegu reynslu að hún skipti meira máli þegar þurrfluga á í hlut en hefðbundin fluga.
    Umrædda flugu klippti ég svo sáralítð að ég trúði því reyndar ekki sjálfur að það gæti skipt máli. Vildi hins vegar hafa vaðið fyrir neðan mig og byrja á því að minnka hana eins lítið og ég gat. Það var jú auðveldara að klippa hana aftur en að bæta við lengd háranna.
    Önnur atriði mætti nefna en stærð flugunnar sem ég held að skipti miklu máli í þurrfluguveiði. Það að fara mjög varlega er lykilatriði. Að standa vel fyrir neðan hylinn er annað atriði og síðan verða menn að gæta þess að flugan hreyfist ekki á yfirborðinu umfram eðlilegan yfirborðsdansinn niður hylinn. Öll hreyfing flugunnar umfram þær hreyfingar sem náttúrulegu fiðrildin iðka vekja strax grunsemdir og þá eru þurrflugur veiðimanna samstundis teknar af matseðlinum. Eitt atriðið enn er að kasta mjög varlega. Bleikjan er stygg þegar hún er að éta í yfirborðinu og allur buslugangur og óþarfa köst minnka möguleika veiðimannsins verulega. Þá er rétt að minna á að betra er að láta lélegt kast fara niður hylinn en að kasta strax aftur.
    Loks má geta þess að bleikjan er hreint ótrúlega fljót að spýta út úr sér þurrflugu sem hún finnur að er ekki eins og hún á að vera. Það er því mikilvægt að hafa sem minnstan slaka á línunni og vera fljótur að taka við sér þegar það sem fram er borið vekur hrifningu við hinn enda línunnar.
    Undirritaður er ekki sérfræðingur í þurrfluguveiði frekar en öðru. Þetta er hins vegar að mínu mati skemmtilegasta útgáfan af fluguveiðinni ásamt því að veiða á gárutúpur.
    Gaman væri að heyra sögur af fluguveiði frá öðrum veiðimönnum.
    Stefán Kristjánsson

Hlutur 193 til 196 af 203

Síða:
  1. 1
  2. ...
  3. 47
  4. 48
  5. 49
  6. 50
  7. 51
© 2018 Skrautás Ehf. - Sími 6982844 - kt. 520799-2149 - vsk nr. 63003 [email protected] - Leiðhamrar 39 - 112 Reykjavík