Velkomin(n) á vefverslun Kröflu

Cart:

0 item(s) - 0 kr
Það eru engar vörur í körfunni þinni.

0

Næstu tvær vikur verða mjög afdrifaríkar

Hörður Birgir Hafsteinsson með 78 cm lax sem hann veiddi á Bryggjunum í Norðurá á opnunardeginum fyrir skömmu. Fiskurinn tók Iðu túpuflugu.

Hörður Birgir Hafsteinsson með 78 cm lax sem hann veiddi á Bryggjunum í Norðurá á opnunardeginum fyrir skömmu. Fiskurinn tók Iðu túpuflugu.

Næstu tvær vikur munu ráða mjög miklu um framvindu mála í laxveiðinni hér á landi í sumar. Nokkur merki eru þegar sjáanleg sem hafa framkallað bjartsýni hjá mönnum. Eru það einkum ,,spekúlasjónir" varðandi Norðurá sem opnaði 5. júní.

Síðustu tölur sem við heyrðum frá Norðurá voru um 40 laxar. Í opnun árinnar bar nokkuð á smálaxi og er það mjög óvenjulegt. Fróðir menn segja það vita á sterkar smálaxagöngur. Önnur vísbending er að góð veiði hefur verið við ármót Norðurár og Hvítár, í Straumunum. Vatn hefur verið mjög gott í Norðurá frá opnun og við slíkar aðstæður á fiskur ekki að stoppa mikið í Straumunum. Margir vilja meina að góð veiði í Straumunum við þessar aðstæður sé einfaldlega vísbending um að sterkar göngur séu í vændum.

Lax hefur sést víða í ám sem enn eiga eftir að opna. Þar má nefna Grímsá, Langá, Laxá í Leirársveit og Laxá í Kjós svo ekki sé minnst á Elliðaárnar. Það má búast við fjörugri veiði þegar þessar ár opna innan fárra daga hver af annarri.

Rétt er á þessum tímapunkti að standa þétt í báðar fætur. Einfalt er að rifja upp gang mála fyrir nákvæmlega ári síðan. Þá var staðan svipuð ef frá er tekið þetta með smálaxinn og Straumana. Það er klárt að næstu tvær vikur, jafnvel 10 dagar segja mikið um framhaldið. Menn skulu þó líka hafa í huga til dæmis varðandi Norðurá að stundum hafa menn mátt bíða vel fram eftir júlímánuði eftir sterkum smálaxagöngum.

Það eru spennandi dagar framundan.  Óvenjumargir bíða spenntir. Mikill fjöldi veiðimanna ætlar að bíða og fylgjast vel með framvindu mála næstu daga og vikur. Og leigutakar og leigusalar bíða mjög óþreyjufullir.

Leave a Reply
© 2018 Skrautás Ehf. - Sími 6982844 - kt. 520799-2149 - vsk nr. 63003 [email protected] - Leiðhamrar 39 - 112 Reykjavík