Fréttir - Krafla.is
-
Kolskeggur kominn í netverslun okkar- sannarlega spútnikflugan í laxveiðinni í fyrra
Við á Krafla.is þökkum fyrir alla tölvupóstana og allar sögurnar sem flugan okkar Kolskeggur færði veiðimönnum síðasta sumar um leið og við tilkynnum að Kolskeggur er nú aftur fáanlegur í netverslun okkar en flugan seldist upp sl. haust.
Krafla.is hóf starfsemi 2005 og höfum við ekki áður heyrt aðrar eins sögur af flugu og tökum sem eru henni tengdar. Kolskeggur var tvímælalaust spútnikflugan í fyrra og margar frásagnir veiðimanna um allt land sem sanna þá fullyrðingu okkar. Strax snemma sumars í fyrra varð ljóst að Kolskeggur var fluga sem var fær um að slá í gegn. Um tíma veiddist helmingur dagsafla í Norðurá á Kolskegg. Hvar sem veiðimenn reyndu Kolskegg reyndist hann frábærlega og margir veiðimenn sem sendu okkur línu áttu ekki orð til að lýsa frekjunni og látunum í tökunum. Í langflestum tilfellum var um flottúpu að ræða, annað hvort á dauðareki eða á stuttum taumi á sökkenda. Og þá gjarnan strippað hratt og örugglega. Kolskeggur reyndist einnig afburðavel sem þyngd kopartúpa og þríkrækja.
Reyndir leiðsögumenn sem og almennir veiðimenn reyndu Kolskegginn víða með stórkostlegum árangri sl. sumar. Og alltaf fylgdu með þessar stórkostlegu sögur af tökunum. Það skemmdi svo ekki fyrir að jafnan var þess getið að flugurnar reyndust vel og ég man eftir veiðimönnum sem sögðu mér frá því að þeir veiddu 6-8 fiska á túpurnmar og það sá ekki á þeim eftir þessar viðureignir. Til mín kom organisti frá suðurnesjum með Kolskegg flottúpu sem gefið hafði fjölmarga fiska og hún var eins og ný eftir öll átökin.
Og hafi einhverjir veiðimenn efast um hæfileika Kolskeggs í sjóbirtingsveiði þá skulu þeir hinir sömu halda lestrinum áfram. Við erum staddir á stórkostlegum sjóbirtingsmiðum í nágrenni Kirkjubæjarklausturs um miðjan október. Við erum staddir neðarlega á veiðisvæðinu. Þar hafa fiskar verið að taka Kröflutúpur okkar en áhuginn verið mismikill enda kuldinn skelfilegur, varla hægt að standa við ána lengur en nokkrar mínútur í senn. Klukkan er langt gengin í sex og ég segi við veiðifélagann að nú sé stund Kolskeggs runnin upp. Nú skuli hann standa undir nafni ef hann sé á annað borð boðleg fluga í sjóbirting.
Svo viss var ég um árangurinn að ég sagði veiðifélaga mínum að hafa tökuvélina í gangi. Tók hann mynd af mér þegar ég hnýtti Kolskegginn á taumendann og hélt áfram myndatökunni þar til ég hafði landað góðum sjóbirtingi skömmu síðar. Veiðifélaginn tók síðan stöng sína og fór í fótspor mín. Eftir nokkrar mínútur sá ég fremsta hluta tvíhendunnar hjá honum sökkva í vatnið. Slík var takan þegar birtingurinn réðist á Kolskegginn. Þegar hér var komið sögu hafði félagi minn einungis heyrt af grimmdarlegum tökum þegar Kolskeggur var annars vegar. Þegar birtingurinn var kominn í land horfði hann yfir hylinn og sagði: ,,Núna skil ég hvað allir þessir veiðimenn eru að meina þegar þeir eru að tala um Kolskegginn."
Kolskeggur er ný fluga á markaðnum hérlendis en hún er alls ekki ný fluga í boxum okkar á Krafla.is Á næstu dögum munum við segja frá fæðingu Kolskeggsins og hvernig hann reyndist í sinni fyrstu veiðiferð saumarið 1970.
-SK
-
Krafla.is stærsti styrktaraðili opinna húsa hjá SVFR
Síðasta opna hús vetrarins hjá Stangaveiðifélagi Reykjavíkur var sl. föstudagskvöld. Að sögn þeirra sem að kvöldinu stóðu var um metaðsókn að ræða en vel á annað hundrað veiðimenn mættu á kvöldið.
Við hjá Krafla.is gáfum mjög veglega vinninga í happadrætti kvöldsins, þrjú vel útilátin flugubox og hvert að verðmæti um 20 þúsund krónur. Annars sá veiðideild Ellingsen um aðra vinninga kvöldsins. Við hjá Krafla.is höfum jafnan gefið veglega vinninga á opnum húsum Stangaveiðifélagsins í vetur og erum ánægð með að margir veiðimenn hafa farið heim með falleg flugubox eftir vel heppnuð kvöld.
-
Vigtin á að ráða en ekki málbandið
Það eru nýir tímar í laxveiðinni á Íslandi. Hér áður fóru menn í veiðitúr, veiddu laxa og vigtuðu og fiskar voru metnir í pundum. Laxarnir voru skráðir samviskulega í veiðibækur. Í dag heimtar ný kynslóð að allir fiskar séu mældir í bak og fyrir í centimetrum og almættið, Veiðimálastofnun, gefur út lista fyrir veiðimenn þar sem hver centimetri gefur fyrirheit um ákveðin grömm. Öll þessi nýju viðmið koma í stað ákveðinna staðreynda sem ekki voru véfengdar áður fyrr og ekki var hægt að draga í efa. Í dag er leikur einn að draga allt í efa sem lítur að laxveiðinni. Efinn og óvissan hafa tekið völdin.
Í gamla daga, þegar allir hlutir er varða stangaveiðina voru einfaldir og skírir, var öll skráning einföld og örugg. Menn drápu stóra fiska sem þeir veiddu á efstu svæðum ánna. Komu með þá ,,til byggða" og sýndu félögunum og þeir voru vigtaðir. Í dag nægir að koma í hús og segja sögur. ,,Við náðum einum sem var 108 cm og hann var svakalega sver. Gott ef hann var ekki óvenjulangur líka." Þegar hér er komið sögu spyrja æstir veiðifélagar hvort að myndavélin hafi ekki verið meðferðis. Þá kemur það alltof oft fyrir að myndavélin gleymdist. Varð eftir í veiðihúsinu eða að hún var víðs fjarri í bílnum.
Þessum frásögnum er betur trúað í dag en sögum veiðimanna áður fyrr þegar komið var í veiðihús með sönnunargögnin í skottinu. Án nokkurra sannana eru þessir fiskar skráðir í veiðibækur og oftar en ekki skotið á þyngdina. Auðvitað er ekkert er að marka þær tölur. Eins og reyndir veiðimenn vita þá er 102 cm langur lax ekki það sama og 102 cm langur lax. Ekki frekar en að tveir karlmenn sem eru 1,86 metrar á hæð eru ekki undantekningarlaust 95 kg að þyngd. Annar gæti verið 96 kg en hinn hæglega yfir 120 kg eða eitthvað ennþá meira.
Að veiða og sleppa er mjög göfugt markmið hvers veiðimanns. Þessu fylgja hins vegar stórir kostir og gallar. Að sleppa fiski í ána aftur eftir skemmtilega viðureign er veiðimönnum kærkomin athöfn. Með tilkomu veiða og sleppa var tilgangurinn fyrst og fremst sá að efla getu ánna til sjálfbærni. Að laxarnir sem stæðu að hrygningu í ánum væru þess megnugir að ,,framleiða" nægilega mörg seiði árlega til að viðhalda stofni árinnar án utanaðkomandi aðstoðar eða sleppingu seiða.
Stærstu gallarnir við að sleppa veiddum fiskum aftur í árnar eru augljóslega þeir að allar skráningar eru í kjölfarið nánast marklausar enda oftar en ekki háðar ágiskunum eða löskuðu hugmyndaflugi veiðimanna. Þetta eru stórir gallar þar sem rétt skráning afla er algjört grundvallaratriði og afar mikilvægt að allar tölur séu réttar en ekki ágiskanir út í loftið.
-
Frábærir birtingar á Iðu og Randalín í gær í opnun í Húseyjarkvísl við afar erfiðar aðstæður
,,Þetta var rosalega gaman þrátt fyrir að allar aðstæður væru mjög óhagstæðar. Fyrst til að byrja með var erfitt að finna vakir á ánni til að kasta í en síðan skánaði þetta um tíma. Þá náðum við sambandi við fiska og okkur virtist vera mjög mikið af fiski í ánni," sagði Sævar Örn Hafsteinsson í samtali við Krafla.is í gærkvöld en hann var þá við veiðar í Húseyjarkvísl í Skagafirði ásamt félögum sínum í Mokveiðifélaginu.
Þeir félagar hafa haft það fyrir sið að opna Húseyjarkvísl að vori. Páskahretið norðanlands í ár fór ekki framhjá þeim félögum og eins og sést á myndunum með þessari frétt voru aðstæður mjög erfiðar. Þrátt fyrir það veiddu félagarnir í Mokveiðifélaginu 8 fiska og marga hverja mjög fallega en vatnshiti var lengstum undir frostmarki. ,,Við höfðum sannarlega vonast eftir betri aðstæðum en getum ekki kvartað. Ef aðstæður hefðu verið betri hefðum við veitt marga tugi fiska en það verður að bíða betri tíma. Þetta var alveg svakalega gaman og með sanni hægt að segja að við höfum náð úr okkur hrollinum fyrir sumarið og rúmlega það. Og enn einu sinni reyndust flugurnar frá Krafla.is okkur frábærlega,"sagði Sævar Örn.