Velkomin(n) á vefverslun Kröflu

Cart:

0 item(s) - 0 kr
Það eru engar vörur í körfunni þinni.

0

Fréttir - Krafla.is

  • Allir stærstu fiskarnir í Breiðdalsá á Kröfluflugur sem fást bara í Kröflubúðinni

    Jón Jónsson með 20 punda laxinn sem veiddist sl. fimmtudag á Skammardalsbreiðunni á orange Kröflu, tommulanga túpu frá Veiðibúðinni Kröflu.

    Hilmar Þór Valgarðsson með 20 punda laxinn úr Breiðdalsá sem veiddist sl. fimmtudag á Skammardalsbreiðunni á orange Kröflu, tommulanga túpu frá Veiðibúðinni Kröflu.

    Kröfluflugurnar hafa oft verið að gefa mönum góða veiði í sumar og hafa margir stórlaxar veiðst á Kröfluflugurnar. Stórir fiskar koma jafnan á land í Breiðdalsá sem er með skemmtilegri ám landsins þegar laxveiðin er annars vegar.

    Í sumar hafa komið þrír laxar á land sem hafa verið 20 pund og stærri. Allir þessir fiskar hafa veiðst á flugur frá okkur, tveir 20 punda laxar á Kröflu orange tommulangar túpur og sá stærsti, 22 punda lax á Iðu 1,5 tommu langa túpu.

    Borgar Antonsson, leiðsögumaður við Breiðdalsá sendi okkur eftirfarandi pistil í dag:

    ,,Þessi var tekinn á Skammardalsbreiðu í Breiðdalsá 6. september sl. og tók orange Kröfluna eins og 3 aðrir laxar sem við fengum á flugu í þessum 3ja daga túr okkar.

    Samtals var lengdin á þessum 4 fiskum 3 metrar og 48 cm svo stóru fiskarnir eru greinilega hrifnir af Kröflu flugum.
    Og gaman að segja frá því að í sumar eru komnir þrír yfir 20 punda fiskar á land úr Breiðdalsá og var ég viðstaddur í öll skiptin, 2 komu á orange Kröflu og sá stærsti sem var 22 pund tók 1,5 tommu langa Iðu túpu.
    Kröflu flugurnar eru flugur þessa sumars hjá mér og verða mikið notaðar hér eftir."

    Varla þarf að taka það fram að þessir fiskar veiddust allir á Kröfluflugurnar frá Veiðibúðinni Kröflu í Höfðabakka 3 en þessar fengsælu og sterku flugur eru einungis til sölu í Kröflubúðinni.

  • Vörumerkjalögin þverbrotin - Eigendur veiðibúða selja flugur án leyfis og virða alls ekki höfundarréttinn


    Lítið sýnishorn af lélegum eftirlíkingum. Neðst á myndinni er Kolskeggur til vinstri eins og hann á að vera frá Veiðibúðinni Kröflu en til hægri er eftirlíking úr Veiðihorninu.

    Lítið sýnishorn af lélegum og ljótum eftirlíkingum. Neðst á myndinni er Kolskeggur til vinstri eins og hann á að vera frá Veiðibúðinni Kröflu en til hægri er eftirlíking úr Veiðihorninu sem við keyptum í Veiðihorninu og höfum kvittun fyrir. Að ofan eru Kröfluflugur efst frá Veiðibúðinni Kröflu en neðar eftirlíkingar af sömu Kröflum.

    Árum saman hefur það viðgengist hér á landi að eigendur margra veiðiverslana hafa selt og látið framleiða fyrir sig íslenskar flugur eftir íslenska fluguhönnuði án þess að hafa til þess leyfi frá höfundum flugnanna. Einnig hafa þessir aðilar breytt mörgum flugum og látið framleiða fyrir sig hin ýmsu afbrigði án þess að fá til þess leyfi höfunda. Hér er vitaskuld um að ræða lögbrot og algjöra lítilsvirðingu við höfunda flugnanna og þeirra verk.

    Við í Veiðibúðinni Kröflu seljum og látum framleiða fyrir okkur flugur eftir feðgana Kristján heitinn Gíslason, Gylfa heitinn Kristjánsson og Stefán Kristjánsson. Á meðan að Kristján hafði heilsu til hnýtti hann flugur sínar fyrir verslanir hérlendis ásamt Gylfa og Stefáni. Kristján Gíslason lést árið 1999. Árið 2004 fórum við, aðstendendur Kristjáns Gíslasonar, af stað í þá vinnu að láta framleiða fyrir okkur flugur Kristjáns erlendis og um mitt ár 2005 var framleiðslan orðin það góð að við töldum flugurnar mjög fallegar og sterkar, nokkuð sem alla tíð einkenndi flugur Kristjáns. Höfðum við þá einnig skráð Kröflu sem vörumerki.

    Fljótlega eftir að Kröfluflugurnar fóru að ná fótfestu á markaðnum á ný og vekja mikla athygli fiska og veiðimanna buðum við öllum verslunum í veiðigeiranum að kaupa okkar flugur af okkur í heildsölu og selja í verslunum sínum. Örfáar verslanir þáðu þetta boð okkar. Aðrar báru fyrir sig of háu verðlagi. Þessar verslanir ákváðu síðan að láta framleiða flugurnar okkar fyrir sig erlendis fyrir slikk í mun minni gæðum og selja undir okkar nöfnum án leyfis okkar og brjóta þar með vörumerkjalögin.

    Einn stærsti söluaðilinn á markaðnum í dag sem rekur verslanirnar Veiðihornið í Síðumúla, Sportbúðina Krókhálsi, Veiðibúðina við Lækinn og netverslanirnar Flugan.is og Veiðimaðurinn.is sagði við okkur fyrir nokkrum árum að hann mæti mjög mikils framlag Kristjáns Gíslasonar í flugumálum og það sem við hjá Kröflu værum að gera og að hann myndi aldrei nokkurn tíman trufla okkar starfsemi hjá Kröflu með því að selja okkar flugur í sínum verslunum og kaupa þær frá öðrum en okkur. Þar sem ég stóð í verslun Ólafs Vigfússonar í Krókhálsi, anspænis eigandanum sjálfum, kom ekki annað til greina en að trúa því sem hann sagði. Í dag kannast þessi verslanaeigandi auðvitað ekki við þessi orð og sakar okkur um lygar og að tala gegn betri vitund. Um nokkurt skeið hefur hann látið framleiða fyrir sig og selt margar af okkar flugum undir okkar nöfnum án þess að hafa til þess leyfi frá okkur. Eigandi þessara verslana hefur því þverbrotið vörumerkjalög og ráðskast með eigur annarra eins og honum sýnist. Er rétt að veiðimenn viti að okkar flugur eru til sölu í þessum verslunum án okkar leyfis og þær eru alls ekki frá okkur komnar. Við höfum fengið margar kvartanir vegna þessara lélegu eftirlíkinga. Við tökum hins vegar enga ábyrgð á hrikalega lélegum eftirlíkingum á Kröfluflugum, að okkar mati, sem þarna eru seldar.

    Eigandi ofangreindra verslana er fjarri því að vera eini aðilinn á markaðnum sem er að selja okkar flugur án leyfis frá okkur. Flestar verslanir í Reykjavík, að Veiðiflugum, Vesturröst og Ellingsen undanskildum,  eru að selja einhverjar Kröfluflugur án þess að hafa til þess leyfi. Veiðiflugur hafa aldrei selt okkar flugur og yfirmaður veiðideildar Ellingsen sagði okkur á dögunum, þegar hann kom í verslun okkar til okkar að kaupa flugur, að Ellingsen seldi ekki lengur okkar flugur og hefði í raun hætt því í fyrra. Vesturröst kann að eiga einhverjar gamlar flugur frá okkur séu þar enn í fluguborðinu. Þær ættu að vera auðþekktar enda eftirlíkingarnar afar illa hnýttar og endast mjög illa. Sumar verslanir, eins og til dæmis Veiðiportið, hafa leyft sér að breyta flugum okkar í algjöru leyfisleysi en selja þær áfram undir okkar nöfnum. Oftast er í eftirlíkingunum notað kolrangt efni og snarvitlausir litir og undarlegt að verslunareigendurnir skuli ekki hafa meiri metnað í flugumálum. Svo ekki sé talað um siðferði þessara kaupmanna sem virðist ekki lítið heldur ekkert. Rétt er að taka fram að Hlað á Húsavík er að selja okkar flugur með okkar leyfi.

    Í fyrra sendi lögfræðistofa okkar mjög ítarlegt bréf til allra veiðiverslana í Reykjvík þar sem þeim var tilkynnt að þær væru að selja flugur okkar í leyfisleysi og brjóta vörumerkjalög. Ein verslun, Ellingsen, hefur brugðist við bréfinu og hætt að selja flugurnar. Biðjum við veiðimenn að láta okkur vita ef þeir sjá þær þar í borðum. Við munum fljótlega birta umrætt bréf hér á Krafla.is

    Við treystum á stuðning veiðimanna og vitum reyndar að lang stærstur hluti þeirra vill ekki versla hjá aðilum sem fara ekki að lögum og reglum. Allir þeir veiðimenn sem við höfum rætt við um þessi mál fordæma og fyrirlíta þá aðila sem taka flugur hinna ýmsu hönnuða og selja þær og breyta þeim án leyfis í verslunum sínum.

    Við hjá Veiðibúðinni Kröflu höfum leitað til virtrar lögfræðistofu og niðurstaða lögfræðinga þar er eindregin og afdráttarlaus, allur réttur í þessum málum sé okkar megin. Við vitum að framundan eru mjög merkilegir hlutir í haust varðandi réttindamál allra fluguhönnuða og við hjá Kröflu erum alls ekki þeir einu sem blöskrar framkoma lögbrjótanna. Nú verður látið sverfa til stáls í þessum málum og tekið af fullri hörku á lögbrotum þar til sigur vinnst.

    Við hvetjum veiðimenn til að fylgjast með.

  • Þríkrækjan sat fremst í báðum skoltum og lokaði kjaftinum - Saga 28-30 pundarans í Aðaldal í smáatriðum

    Björn Magnússon þreytir hrygnuna stóru á Spegilflúðinni.

    Björn Magnússon þreytir hrygnuna stóru á Spegilflúðinni.

    Tíðindin frá Laxá í Aðaldal á dögunum, þegar Björn Magnússon veiddi stærsta lax sumarsins til þessa og stærsta lax sem veiðst hefur á Íslandi í mörg herrans ár á Kolskegg keilutúpu frá Veiðibúðinni Kröflu, hafa vakið gríðarlega athygli meðal veiðimanna, en mismikla athygli meðal fjölmiðla, hver svo sem ástæðan er. Nánar um það síðar hér á Krafla.is

    Laxinn sem Björn veiddi á veiðistaðnum Spegilflúð var 110 cm langur. Þetta var hrygna sem gerir laxinn mun áhugaverðari en ef hængur hefði verið hér á ferð. Hrygnur eru jafnan bústnari en hængar og þyngri miðað við lengd. Þannig sýnir viðmiðunartafla, sem ku vera ættuð frá Veiðimálastofnun, að hængur sem er 110 cm langur ,,á að vera 26 pund" . Hrygna í sömu lengd á samkvæmt mati margra sérfróðra manna að vera töluvert þyngri. Fróðustu spekingar á Laxársvæðinu vilja meina að 110 cm löng nýgengin hrygna sé aldrei minna en 28 pund og líklega nærri 30 pundum.

    Áður en lengra er haldið viljum við segja frá því að veiðimaðurinn Björn Magnússon er bróður mágs undirritaðs og notaði við veiðarnar Echo 2 tvíhendu og hjól og línu sem hann fékk að láni hjá okkur í Veiðibúðinni Kröflu.

    Björn Magnússon togast á við hrygnuna stóru.

    Björn Magnússon togast á við hrygnuna stóru.

    Röð atvika réði því að því miður náðist ekki mynd af þessari rosalegu hrygnu. Menn munu sakna þeirra mynda lengi og sárt en því verður ekki breytt að engin mynd var tekin af þessum risalaxi. Veiðimaðurinn og aðstoðarmaður hans, sem lentu í þessu mikla ævintýri, eru annálaðir heiðursmenn. Hinn almenni lesandi og veiðimaður verður hins vegar að gera það upp við sig hverju hann trúir eða trúir ekki í eftirfarandi frásögn.

    Við tókum veiðimanninn, Björn Magnússon, tali þegar hann kom ,,til byggða" úr veiðitúrnum í Laxá í Aðaldal og fer spjall okkar hér á eftir.

    ,,Þetta var afar minnisstæður veiðitúr enda ekki á hverjum degi sem maður kemst í kynni við svona stórlaxa. Eftir að laxinn tók Kolskegg keilutúpuna varð mér strax ljóst að þetta var mjög stór lax. Fyrst hélt ég reynar að ég hefði fest í botni. Síðan fór botninn af stað. Laxinn var mjög þungur en mér fannst fljótlega frekar skrítið að laxinn var ekkert sérlega fjörugur. Mér fannst vanta þessi læti og hamagang sem oft einkennir slaginn við stóra laxa. Eftir mikla baráttu í um það bil tuttugu og fimm mínútur fannst mér mjög dregið af laxinum. Félagi minn, Hákon Ólafsson, lagði frá sér myndavélina eftir að hafa myndað mig við að þreyta laxinn og óð út í ána til að aðstoð mig við löndunina. Við vorum ekki með háf og það voru mjög mikil læti í gangi. Það gekk mikið á og Hákon missti símann sinn í ána ásamt einhverjum fluguboxum.  Að lokum náðum við að koma laxinum upp á bakkann og mæla hann og losa fluguna. Þá kom í ljós að þríkrækjan var á kafi í bæði efra og neðra skolti þannig að munnurinn á laxinum var lokaður allan tímann. Þar var þá komin skýringin á frekar stuttri viðureign við laxinn miðað við stærð hans," sagði Björn.

    ,,Þegar hér var komið sögu var farið að leita að myndavélinni. Hákon hafði lagt hana frá sér á árbakkanum um 30 metra frá löndunarstaðnum og fór að leita að myndavélinni. Fljótlega lét ég laxinn í ána og hélt honum þar í örugglega 15 mínútur á meðan Hákon leitaði að myndavélinni. Hún fannst ekki og með hverri mínútunni færðist meira líf í laxinn. Spennann var rosaleg og mér leist ekki á blikuna. Ég var mjög spenntur enda hef ég aldrei komist í kynni við svona skepnu. Að lokum var laxinn orðinn það fjörugur í höndunum á mér að mér fannst ekki forsvaranlegt að halda honum lengur. Þetta voru orðin töluverð átök og því sleppti ég honum á því augnabliki. Eftir á að hyggja má vel segja að það hafi verið mistök en mér fannst ég ekki geta haldið honum lengur," sagði Björn.

    Þeir félagar leituðu myndavélarinnar lengi eftir löndunina og um 15 mínútum síðar fannst hún á árbakkanum.

  • 30 punda hrygna á Kolskegg keilutúpu í Laxá í Aðaldal - stærsti lax sumarsins og stærsti lax hérlendis í mög ár

    Risahrygnan á Spegilflúðinni á Laxársvæðinu tók Kolskegg keilutúpu í hádeginu í dag.

    Risahrygnan á Spegilflúðinni á Laxársvæðinu tók Kolskegg keilutúpu í hádeginu í dag.

    ,,Þetta var mögnuð barátta sem tók samt ekki neitt rosalga langan tíma. Líklega hefur löndunin staðið yfir í 30 mínútur en taugaspennan og stressið var mikil," sagði Björn Magnússon sem í hádeginu í dag veiddi 110 cm langa hrygnu á Kolskegg keilutúpu á veiðistaðnum Spegilflúð á svæði Laxárfélagsins í Laxá í Aðaldal. Samkvæmt einhverri skrá sem gefin hefur verið út á 110 cm hængur að vera ca 26 pund. Reyndir laxveiðimenn telja öruggt að 110 cm löng hrygna sé í það minnsta 30 pund. Orri Vigfússon hjá Laxárfélaginu segir að laxinn hafi verið 30 pund. Þetta er fjórði laxinn yfir 20 pundum sem veiðist á Kröfluflugur á fjórum dögum en næst stærsti fiskurinn, 22 punda hængur tók Iðu keilutúpu í Breiðdalsá.

    Björn naut í hádeginu í dag aðstoðar Hákons Ólafssonar við löndunina: ,,Það var mikið stress í gangi og þegar laxinn var orðinn þreyttur lagði Hákon myndavélina frá sér og óð út í til að hjálpa mér við löndunina en við vorum ekki með háf. Við mældum fiskinn og síðan ætluðum við að taka myndir. En þá greip Hákon í tómt og myndavélin fannst hvergi þrátt fyrir mikla leit. Það var ekki um annað að gera en að sleppa fiskinum. Skömmu síðar fundum við myndavélina en þá var það um seinan. Það var auðvitað mjög leiðinlegt að ná ekki að mynda fiskinn en menn verða bara að ráða því hverju þeir trúa," sagði Björn Magnússon.

    Við fréttum af því að leiðsögumaður við ána sá í gær eða fyrradag risalax stökkva á Spegilflúðinni og fullyrti hann að laxinn, sem kom allur upp úr ánni, hefði verið 28-30 pund. Ekki er ólíklegt að um sama fisk sé að ræða og Björn veiddi í hádeginu í dag.

    Við minnum veiðimenn á að Kröfluflugurnar eins og þær eiga að vera fást einungis í Veiðibúðinni Kröflu, Höfðabkka 3.  Við vörum veiðimenn við lélegum eftirlíkingum sem í boði eru annars staðar.

Hlutur 57 til 60 af 203

Síða:
  1. 1
  2. ...
  3. 13
  4. 14
  5. 15
  6. 16
  7. 17
  8. ...
  9. 51
© 2018 Skrautás Ehf. - Sími 6982844 - kt. 520799-2149 - vsk nr. 63003 [email protected] - Leiðhamrar 39 - 112 Reykjavík