Monthly Archives: March 2008
-
Eigum við að banna netaveiðina?
Senn líður að framsetningu frumvarps frá landbúnaðarráðuneytinu
um breytingu á lögum um lax og silungsveiði. Í því skyni vil ég upplýsa um eftirfarandi :Í núgildandi lögum um lax og silungsveiði er að finna kafla um matsaðgerðir og skaðabætur. Í 102 grein sama kafla, segir eftirfarandi :
,,Nú hefur veiðieigandi, er veiði átti áður en lög þessi komu til framkvæmda, misst hana að mestu eða öllu fyrir þá sök, að lögin fyrirmuna honum að nota þá veiðiaðferð, er hann áður mátti einni við koma, og á hann þá kröfu til skaðabóta eftir mati
Matsmenn skv. 1. mgr. skulu leita umsagnar veiðimálastjóra og veiðimálanefndar. Skaðabætur greiðast að hálfu úr ríkissjóði og að hálfu úr hlutaðeigandi sveitarsjóði eða -sjóðum.
Nú hefur maður í öðrum tilvikum en í 1. mgr. segir orðið að mun öðrum fremur fyrir tjóni vegna ákvæða og framkvæmdar laga þessara, og á hann kröfu til skaðabóta eftir mati. Skaðabætur skulu greiða eigendur veiðiréttar í fiskihverfi því, sem í hlut á, eftir ákvörðun matsnefndar, og má taka þær lögtaki. Ákveða má þeim, er tjón hefur beðið, bætur með því að úthluta honum arði í arðskrá. Stjórn veiðifélags er skylt að annast innheimtu bóta á félagssvæði sínu.
Um fjárhæð og greiðslu bóta eða endurgjald, er greinir í lögum þessum, fer eftir lögum um framkvæmd eignarnáms."Í framhaldi er rétt að upplýsa vefslóð laga um framkvæmd eignarnáms en hún er : http://www.althingi.is/lagas/131b/1973011.html
Ef svo fallega skyldi viðra að netaveiði í íslensku straumvatni yrði alfarið bönnuð skv. lögum, er vert að gaumgæfa hvort sú breyting yrði ríkissjóði til hagsbóta. Þrátt fyrir bótaskyldu ríkisins , er ég sannfærður um að ríkið hagnist til lengri tíma litið með banni á netaveiðum. Skýringuna er helst að finna í miklum hvata sem mun skapast innan ferðaþjónustunnar með upptöku netanna. Hvata til frekari uppbyggingar á ferðaþjónustu tengdri stangveiði á tilheyrandi vatnasvæðum. Tel ég víst, að innan skamms tíma muni eiga sér stað frekari uppbygging á veiðihúsum og gistiaðstöðu en einnig mun mikill kraftur skila sér til ræktunarátaks á tilheyrandi vatnasvæðum.
Sem dæmi má nefna að tekjur ríkissjóðs af netaveiði í dag eru óverulegar. Í annan stað má nefna að þó bætur verði greiddar til eignarnámsþola er eingöngu um að ræða bætur sem greiddar verða einu sinni. Skv. lögum eru bótafjárhæðir ákvarðaðar af matsnefnd eignarnámsbóta en í þeim úrskurði er gerð grein fyrir þeim atvikum og réttarreglum, sem liggja til grundvallar niðurstöðum mats. Bótafjárhæð á að vera sundurliðuð og lýst á grundvelli útreikninga en jafnan á þó að taka afstöðu til ágreiningsatriða. Í þessu ljósi er vert að benda á ársveltu í sölu netaveiddra laxa af vatnasvæði Hvítár og Ölfussár, en einungis um örfáar milljónir króna er að ræða í söluverðmætum á ársgrundvelli. Sú upphæð er hlægileg í samanburði við þann efnahagslega ávinning sem stangveiðin getur skilað í hús, þá ekki eingöngu til bænda heldur einnig þjónustuaðila sem starfa í grennd við þetta víðfemasta vatnasvæði landsins.
Skv. skýrslu Atvinnuþróunarsjóðs Suðurlands kemur fram, að með kraftmiklu ræktunar -og markaðsátaki geti stangveiðin á vatnasvæði Hvítár og Ölfusár orðið eitt það eftirsóknasta og besta í heimi í hugum stangaveiðimanna. Í skýrslunni kemur einnig fram að markaðssetning á öllu svæðinu verði samræmd, bæði hvað varðar stangveiði og aðra ferðaþjónustu á svæðinu öllu, sem og aðra þjónustu og verslun á tilheyrandi svæði. Þá er einnig mikilvægt að félagskerfi landeiganda verði samræmt með heildarhagsmuni þeirra allra í huga. Með þessum hætti sé hægt að tífalda arðgreiðslur til landeigenda á umræddu vatnasvæði en skv. skýrslunni gætu þær á skömmum tíma orðið yfir 250 milljónum króna á ári og að heildarvelta stangveiðinnar gæti farið yfir 600 milljónir króna árlega á sama svæði.Að þessu sögðu er því rétt að spurt sé eigum við að banna netaveiðar í íslenskum ám?
Gunnar Örn Örlygsson, alþingismaður
-
Krókur og Krafla
Fyrr rétt um tíu árum var ég við miðsumarsveiðar í Hítará á Mýrum. Ég hafði einungis einu sinni áður farið svona fínt í lax og átti einungis eitt lítið flugubox sem hentaði fyrir laxveiðar. Boxið hafði ég fengið sent frá góðum vin fyrr um vorið. Líklega voru um 20-25 flugur í fluguboxinu, allar sannkölluð listasmíð og gæddar vandaðri hönnun hins eina sanna arkitekts, Kristjáns Gíslasonar. Á sex stangir veiddust 13 laxar þessa daga í Hitará, allir nema einn féllu fyrir flugum frá Kristjáni. Voru þar rauð lítil Krafla og Analíus hvað sterkastar. Skal engan undra, en allar götur síðan hef ég veitt lax á flugur frá Kristjáni.
Iða hefur reynst mér vel í Elliðaánum. Þá hefur rækjuflugan verið sterk í Kjósinni og alltaf set ég Grænfriðunginn undir þegar heimsóttar eru vatnsmiklar ár á borð við Stóru Laxá og Sogið. Skröggur er sannkölluð laxafluga og á heima í boxum alvöru veiðimanna.
Áfram um laxveiðar og spennandi flugur.
Sonur Kristáns, Gylfi, er hægt og rólega að stimpla sig inn sem einn af okkar öflugustu hönnuðum á silungaflugum. Hann er einmitt vinurinn sem sendi mér boxið um árið. Fyrir nokkrum árum renndi ég í Laxá í Kjós í blíðskaparveðri. Reyndar of góðu veðri en hitinn lá yfir 20 gráðum, stillt og þurrt og áin vatnslítil eftir langvarandi þurrka. Staðarhaldarinn hafði hringt í mig og boðið mér einn og hálfan dag á góðum kjörum því losnað hafði um tvær stangir í miðju holli. Akandi Hvalfjörðinn hugsaði ég ákaft um hvernig ég skyldi bera mig við veiðarnar. ÚItlitið var slæmt en engu að síður bærðist innra með mér ákveðið veiðihungur sem fékk hugann til að reika og finna út rétta taktinn áður en veiðar myndu hefjast. Ég fékk Káranesfljótið og Bugðu á fyrstu vaktinni. Ég ákvað að reyna við Káranesfljótið, örlitil gola læddist yfir en ekki dró fyrir. Ég hafði ákveðið að veiða á flugurnar hans Gylfa. Mýslan fór fyrst undir. Tökuvari settur á og kastað rétt upp fyrir þvert. Ég leyfði mér ekki að blikka augum, fylgdist vandlega með öllum breytingum á yfirborði árinnar og umfram allt fylgdist ég með tökuvaranum. Yfir mig læddist einhver dulin vissa um að fiskur tæki fluguna strax í fyrsta rennsli. Ég hafði gert allt rétt enda ákveðnari en oftast áður að setja í fisk. Hafði virt öll minnstu smáatriði út í hörgul enda kunnugur staðnum sem oft geymir mikið af laxi og rígvænum sjóbirtingi. Það var rifið í og hann var á. Stuttu síðar var óvenju sprækum 5 punda sjóbirtingi landað nokkru neðar. Í næsta kasti tók 6 punda lax. Báðir fiskarnir tóku sömu fluguna, Krókinn. Á einum og hálfum degi veiddi ég 11 eða 12 fiska og alla nema tvo á Mýslu og Krók. Ofarlega í ánni fékk 3 laxa um eða yfir tíu pundum. Þetta var það eina sem kom upp úr ánni. Hægar hreyfingar, læðst aftan að fiski og kastað upp fyrir án þess að vera með buslugang, þverköst eða eitthvað þaðan af verra. Allt verður að vera á hægagangi við aðstæður sem þessar. Þetta var stórkostleg upplifun. Síðan hef ég margoft veitt lax andstreymis og oft gengið vel. Einu sinnu fékk ég 12 punda nýgenginn lax á Mýslu í Hitará. Laxinn var æði sterkur en flugan litla hélt. Ég hef reynt aðrar silungaflugur við laxveiðar en ekki með sama árangri. Mýslan og Krókurinn er eru þær sem gefa við réttar aðstæður.
Ég gæti haldið áfram að minnast veiðiferða þar sem flugur frá þeim feðgum koma við sögu en kýs að staldra við að sinni. Næst verður gaman að minnast veiðiferða þar sem stæltur urriðinn og bústin bleikjan koma við sögu. Þar er af mörgu að taka.
Ég vil nota tækifærið og þakka þeim bræðrum fyrir frábært framtak. Flugurnar hans Kristjáns munu án efa gleðja margan ungan veiðimanninn í framtíðinni.
Gunnar ÖrlygssonMyndin er af flugunni Krókurinn eftir Gylfa Kristjánsson. Sterk laxafluga eins og Mýslan ekki síður en silungafluga.
-
Aðeins einn og einn ,,orginall" var eftir
Sælir bræður og innilega til hamingju með síðuna til heiðurs gamla höfðingjanum.
Þegar ég byrjaði að selja veiðivörur og flugur í gamla KEA þá fylltist ég skelfingu þegar ég uppgötvaði að ég þyfti að læra nöfnin á öllum þessum "pöddum" sem til sölu voru í borðinu. Ég var ekki fluguveiðimaður þá en það átti eftir að breytast fljótlega.
Á þessum tíma var Einar heitinn Long greinilega í viðskiptum við föður ykkar því að allt moraði í flugum frá KG í borðinu....Kröflur, Skröggar, Rafþórar og hinar yndisfríðu Iður.....jú jú, þær voru þarna allar og smám saman fór ég að þekkja þetta allt.Árin liðu og KEA hætti að selja veiðidót, sameinaðist Húsasmiðjunni og Þórður í Sjóbúðinni keypti lagerinn af veiðidótinu og ég fylgdi með.
Smám saman urðu flugurnar eftir pápa ykkar sjaldséðari í borðinu þangað til svo bar við að aðeins einn og einn "orginall" var eftir.
Ég man eftir atviki sem átti sér stað skömmu eftir að faðir ykkar var fallinn frá. Einn morgun þegar ég stóð vaktina í Sjóbúðinni (fyrsta sumarið mitt þar) þá vindur sér inn maður (sem ég kann ekki að nafngreina) og spyr mig óþolinmóður hvort að ég eigi nokkurar flugur eftir Kristján Gíslason? Ég taldi afar ólíklegt að það væri eitthvað sem orð væri á gerandi en þó væru kannski til ein og ein fluga á stangli.
Það er skemmst frá því að segja að maðurinn var þarna í tvo tíma að vinsa úr gersemarnar frá hisminu og hafði á brott með sér flest allar ef ekki allar flugurnar, túburnar og lúrurnar sem hann fann.
Þá skildi ég hvaða sess, handverk KG skipaði hjá mörgum veiðimanninum. Þessi tjáði mér að hann hefði farið víða í leit sinni að þessum djásnum, veiðiflugum eftir Kristján Gíslason.
Aldrei var ég nú svo lánsamur að hitta karlinn og finnst mér það miður. Berglind mágkona mín hefur sagt mér aðeins frá afa sínum og lánað mér bækur eftir hann til að glugga í og ljóst að þar gekk mikill náttúruunnandi um bakkana og flinkur veiðimaður.
Gangi ykkur sem allra bezt með þessa laglegu síðu.
Með ósk um gott veiðisumar og að Gylfi veiði ekki stærri bleikju en ég í Eyjafjarðará!
Jón Gunnar Benjamínsson
Myndin er af Jóni Gunnari með 9,2 punda bleikju úr Eyjafjarðará sem hann veiddi á kúluhaus árið 2001 á Jökulbreiðunni.
-
Eg bíð spenntur
Það er ánægjulegt til þess að vita að aðstandendur Kristjáns Gíslasonar ætli að opna heimasíðu og netverslun á vefnum með fréttum og myndum af veiðiflugum föður síns og gefa þar með fólki kost á að sjá þær og kaupa.
Eflaust fagna margir þessu frábæra framtaki, því flugurnar hans Kristjáns Gíslasonar hafa verið ófáanlegar til fjölda ára.
Ég veiddi mest megnis á flugur Kristjáns í ein 30 ár og bíð því spenntur eftir að reyna á ný gömlu góðu gersemarnar: Rækjuna, Hairy Mary (rauðbrúna), Eldrössu, Grímurnar í ýmsum litum, Kolskegg, Skrögg, Arnæus og allar marglitu Kröflunar.
Með þakklæti fyrir framtakið,
Rafn Hafnfjörð
Hlutur 1 til 4 af 6
- 1
- 2