Fréttir - Krafla.is
-
Kröfluflugur koma víða við sögu og gefa góða veiði - varist lélegar eftirlíkingar
Veiðimenn sem hafa verið að veiða með Kröfluflugum hafa víða verið að gera góða hluti undanfarið. Jón Skelfir Ársælsson var til að mynda að veiða í Kaldá á Jöklusvæðinu á dögunum og landaði þá fyrsta laxinum sem veiðist í ánni þetta sumarið. Laxinn tók appelsínugula Kröflu og er sú fluga að koma verulega sterk inn í sumar.
Kolskeggur frá Veiðibúðinni Kröflu er að verða ein allra besta flugan í laxveiðinni og við heyrum stanslausar fréttir af góðum aflabrögðum á Kolskegginn. Mjög góð veiði hefur verið á Kolskegg í Rangánum báðum. Veiðimaður sem var á ferð í eystri ánni landaði 12 löxum einn daginn fyrir skemmstu og 8 af löxunum komu á Kolskegg, þyngda keilutúpu. Veiðimenn sem voru í Laxá í Dölum á dögunum settu í 9 laxa og 6 þeirra tóku Kolskegg. Reyndar kom enginn af löxunum 9 á land en Kolskeggurinn sannaði getu sína enn einu sinni. Veiðimaður sem var í opnunarholli Húseyjarkvíslar setti í svakalegan dreka á Kolskegg en fiskurinn, sem var varlega áætlaður 20 pund, hafði betur. Rétti upp alla krókana og er væntanlega enn í ánni. Þessi sami veiðimaður fékk síðan 13 punda lax í Kvíslinni á Kröflu orange.
Við minnum veiðimenn á að Kröfluflugur fást bara í Veiðibúðinni Kröflu í Höfðabakka 3 og á Krafla.is Einhverjar aðrar veiðivöruverslanir eru að selja lélegar eftirlíkingar af okkar flugum. Eftirlíkingar sem reiðir veiðimenn hafa komið með til okkar. Við tökum enga ábyrgð á ódýrum og lélegum eftirlíkingum sem aðrar búðir eru að selja. Við ítrekum að Kröfluflugur eins og þær eiga að vera fást einungis í Veiðibúðinni Kröflu í Höfðabakka 3.
Gestur Már Fanndal landaði mjög fallegri hrygnu úr Dalsárós á fyrstu vakt í opnun Víðidalsár sunnudaginn 24.júní síðastliðinn. ,,Þetta var mjög sprækur lax og hann vó 13 pund (85 cm) og tók rauða Kröflu. Laxinn var mjög sterkur og viðureignin varaði í 40 mínútur," sagði Gunnar Már í samtali við Krafla.is
Kröfluflugur eru að virka vel í Fnjóská fyrir norðan sem og annars staðar. Kristján Hilmir Gylfason var þar á ferð fyrir nokkrum dögum á efsta svæði árinnar og setti í tvo laxa á Kolskegg á einni vakt. Ekki var kominn mikill fiskur á efsta svæði Fnjóskár á þessum tíma. Kolskeggur er hins vegar með bestu leitartækjum í laxveiðinni og Kristján fór ekki varhluta af því þennan dagpart í Fnjóskánni.
Kröfluflugurnar eru þekktar fyrir mikil gæði og góða endingu. Nýverið fréttum við af veiðimanni í Noregi em var við veiðar á sjóbirtingi. Hann notaði svarta SilungKröflu og eftir að hafa landað 32 sjóbirtingum var flugan enn sem ný.
-
22 punda hængur á Iðu keilutúpu í Breiðdalsá - stærsti fiskur sumarsins til þessa
Enn eru Kröfluflugurnar að slá í gegn í laxveiðinni og enn og aftur í Breiðdalsá. Skömmu fyrir hádegi í dag kom 22 punda lúsugur hængur á land úr Réttarhyl og tók hann þunga Iðu keilutúpu 1". Þetta er þriðji stórfiskurinn á tveimur dögum sem kemur á land á ársvæðum Þrastar Elliðasonar fyrir austan. Hinir voru 20 punda fiskur sem tók Kröflu orange kopartúpu í Breiðdalsá og á Jöklusvæðinu kom 19 punda hrygna á Kolskegg keilutúpu í gær.
Við vorum að fá skilaboð frá Borgari Antonssyni, leiðsögumani við Breiðdalsá. Þar segir hann: ,,Hér eru myndir af 3 síðustu fiskunum hjá mér í Breiðdalnum sem allir hafa tekið flugur frá Veiðibúðinni Kröflu.
Þann fyrsta, 98cm hæng, tók ég sjálfur ofan af ca 12 metra háum klettum í gljúfrinu á tommu orange Kröflu með því að kasta ,,upstream" þar sem hann lá djúpt. Viðureignin tók 10 mínútur.
Næsti fiskur, 100 cm og vigtaður 11 kíló, 22 pund, tók erlendur veiðimaður á tommu Iðu keilutúpu í Réttarhylnum í morgun og tók sú barátta 15 mínútur og eftir því sem ég veit best er þetta stærsti fiskur sumarsins enn sem komið er.
Þá var haldið í Gljúfrahyl og aftur sett undir orange Kraflan og kastað vel upstream og skilaði það 82 cm fiski, 12 pund, sem tók um 10 mínútur að landa.
Ég þakka kærlega fyrir að hafa kynnst Kröfluflugunum og get staðfest að þær virka og verða mikið notaðar hér eftir. Það er eins og fylgi þessum flugum stórfiskar."
-
Stórlaxaævintýrið með Kröfluflugur heldur áfram - stórfrétt á leiðinni
Við vorum rétt í þessu að frétta af stórlaxi sem var að koma á land og er um að ræða stærsta lax sumarsins. Við vitum ekki sem stendur annað en að laxinn sem var 100 cm hængur tók þunga Iðu keilutúpu.
Við eigum von á myndum og nánari fréttum og birtum nánari fréttir af þessum stórlaxi mjög fljótlega í dag.
Þetta er þriðji stórlaxinn, 20 pund og stærri, sem kemur á land á Kröfluflugur á þremur dögum. Flugurnar sem laxarnir tóku fást aðeins í Veiðibúðinni Kröflu, Höfðabka 3.
-
19 punda hrygna á Kolskegginn á Jöklusvæðinu
Við hjá Kröflu höfum lengi haldið því fram að Kröfluflugurnar séu stórlaxaflugur og fjölmörg dæmi sanna það í gegnum áratugina. Enn eitt dæmið leit dagsins ljós á Jöklusvæðinu í gær þegar 19 punda hrygna tók Kolskegginn okkar með látum. Annan daginn í röð getum við sagt frá laxi við 20 pundin sem tók Kröfluflugu. Slíkt var mjög algengt í gamla daga þegar Kröfluflugurnar voru í aðalhlutverki á markaðnum hérlendis og það er greinilegt að Kröfluflugurnar eru að sækja mjög í sig veðrið í íslenkum veiðiám. Við minnum á að Kröfluflugur eins og þær eiga að vera fást eingöngu í Veiðibúðinni Kröflu, Höfðabkka 3.
,,Þetta var hörkuviðureign enda fiskurinn mjög stór og duglegur. Þetta var mjög falleg hrygna og ein sú fallegasta sem ég hef séð," sagði Hörður Birgir Hafsteinsson í samtali við Krafla.is en hann og breskur félagi hans voru við veiðar á Jöklusvæðinu í gær og lentu heldur betur í ævintýri.
,,Við vorum að veiða Fossárgrjótin í Jöklu þegar tröllið tók Kolskegg túpuna með miklum tilþrifum. Þetta var skemmtileg en erfið viðureign og rosalega gaman að sjá þennan fallega lax koma í háfinn. Við héldum fyrst að þetta væri hængur en þegar betur var að gáð kom í ljós að þetta var líka þessi glæsilega hrygna," sagði Hörður Birgir.
Fyrstu heimildir okkar sögðu að laxinn væri 21 pund en það hefur nú verið leiðrétt og er rétt þyngd 19 pund. Engu að síður einn stærsti laxinn sem komið hefur á land á þessari vertíð, ef ekki sá þyngsti. Laxinn er nú kominn í klakkistu og mun koma sér vel í kreistingum í haust og væntanlega skila hinu stórbrotna Jöklusvæði fjölmörgum afkomendum í framtíðinni.
Opið er í dag, laugardag, í Veiðibúðinni Kröflu, Höfðabakka 3, til kl. 16.00.